Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Ef ekki tekst að fjölga nemendum í iðn- og tækninámi, eða ef þessi hluti skólakerfisins er ekki efldur, mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag og efnahag,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins. Ársfundur þeirra, Iðnþing sem svo heitir, var haldinn í síðustu viku og þar voru menntamál talsvert til umræðu. Í ályktun þingsins segir að ekki sé hægt að sætta sig við að 600-1.000 umsóknum áhugasamra um iðnnám sé á ári hverju hafnað, með þeim afleiðingum sem slíku fylgja. Helstu flöskuhálsarnir þar eru aðstöðuleysi og að fjármagn vanti svo hægt sé að taka fleiri inn í námið.
Iðnnám fái sessinn sem samfélagið kallar eftir
Í ályktun Iðnþings er fagnað að ríki, Hafnarfjarðarbær og Tækniskólinn hafi nú samið um að aðsetur skólans verði til framtíðar í Hafnarfirði.
„Að sama skapi er brýnt að fylgja eftir samningum um uppbyggingu verknámsskóla um land allt þannig að iðnnám fái þann sess sem samfélagið kallar eftir. Mikilvægt er að nemendaígildum fjölgi í takt við fjölgun landsmanna. Hlúa þarf að iðnmenntun og löggildingu iðngreina enda er það forsenda þess að fagþekking viðhaldist,“ segja Samtök iðnaðarins.
Minnt er á að 9.000 manns vanti á næstu árum með hæfni á sviði gervigreindar og STEAM-greina; það er vísindi, tækni, verkfræði, listsköpun og stærðfræði. Kalla Samtök iðnaðarins því eftir að stjórnvöld og skólar skapi skilyrði fyrir því að fólki með slíka menntun megi fjölga í næstu framtíð.
„Skortur á faglærðu starfsfólki hamlar vexti fyrirtækja, dregur úr framleiðni og dregur úr samkeppnishæfni Íslands. Iðnaður og tæknigreinar skapa gríðarleg verðmæti, en án nægilegrar menntunar og þjálfunar munu tækifæri til nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar fara forgörðum,“ segir Árni Sigurjónsson.
Tæknibylting og græn umskipti
„Til að tryggja framtíðarhag Íslands þurfum við því að vera einbeitt í því að efla iðn- og tæknimenntun. Auka þarf virðingu fyrir starfsmenntun og bæta aðgengi að námi. Að öðrum kosti mun Ísland ekki geta nýtt þau tækifæri sem tæknibylting og græn umskipti bjóða upp á,“ segir Árni og að síðustu. „Okkur ber stöðugt að efla íslenskt menntakerfi til að mæta örum tæknibreytingum og færniþörfum framtíðarinnar. Nú sem endranær þurfum við að tryggja að við eigum nægan mannauð í fjölbreyttum greinum til að geta áfram vaxið og dafnað eins og best gagnast heildinni. Fyrir fámenna þjóð skiptir hvert og eitt okkar máli í þeim efnum.“
Gervigreind og öryggi
Efling tæknimenntar tengist því kapphlaupi ríkja heims um forystu í gervigreind. Um það efni segir í ályktun Iðnþingis að Ísland þurfi að móta stefnu um gervigreindarbyltinguna og fylgja henni fast eftir. Stjórnvöld ráði miklu um hvernig tækifæri verða sótt á sviði gervigreindar eða hvort Ísland dragist aftur úr öðrum þjóðum. Þetta sé ekki síst mikilvægt fyrir öryggis- og varnarhagsmuni, sem nú eru ofarlega á baugi á viðsjárverðum tímum.