Rögnvar Ragnarsson fæddist á Eskifirði 9. maí 1933. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hulduhlíð Eskifirði 28. febrúar 2025.
Foreldrar hans voru Ragnar Sigþór Sigtryggsson, f. 28. nóvember 1904, d. 8. september 1971, og Guðrún Hallgrímsdóttir, f. 20. apríl 1901, d. 1 júlí 1969. Systkini: Þórhalla, f. 11 maí 1928, d. 17 apríl 2020, Erling Dagfinn, f. 22. október 1930, d. 16. október 1996.
Rögnvar var kvæntur Ernu Sigríði Helgadóttur frá Eskifirði, f. 23. febrúar 1938, d. 14. apríl 2022. Börn þeirra eru: Kolbrún, f. 1952, Grétar, f. 1957, og Guðrún, f. 1960.
Rögnvar starfaði lengst af sem verkstjóri hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar en fór ungur að stunda sjómennsku og var á vertíðum í Sandgerði og Vestmannaeyjum.
Útför fór fram í kyrrþey.
Elsku afi minn, nú er stundin sem þú beiðst eftir komin og þú og amma sameinuð á ný. Eftir að elsku amma kvaddi saknaðir þú hennar afar sárt líkt og við öll, en þinn missir var af öðrum toga, allt í einu var lífsförunautur þinn farinn og eftir sast þú og beiðst eftir að fá að hitta hana á ný. Þó að kveðjustundin sé ávallt erfið og sár, þá er það huggun í sorginni að þið séuð sameinuð á ný. Ást ykkar var svo falleg og lýsti ykkur báðum á svo skýran hátt.
Eftir að amma missti heilsuna sinntir þú henni af mikilli alúð, jafnvel þó að það væri þér kannski strembið var þér það svo innilega mikilvægt að vera til staðar fyrir hana og láta henni líða sem best. Þannig varstu, hugsaðir alltaf um fólkið þitt og varst til staðar á hvaða hátt sem er. Þér virtist ávallt mikið í mun að vera til staðar fyrir alla og kvartaðir aldrei, en þú gast sýnt tilfinningar og kenndir mér að alvöru menn sýna tilfinningar.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vinna hjá þér í Saltfiskverkuninni. Frá því að ég man eftir mér vannstu þar sem verkstjóri, og þar lærði ég að vinna, verða að manni og lærði handtök sem ég bý að alla tíð. Ég lærði að salta, umsalta, verka skreið og gera að fiski, eða „kútta“ eins og þú kallaðir það, þessari kunnáttu bjó ég að þegar ég hóf störf á togara. Mér fannst einstaklega gaman að færa ykkur ömmu fisk í soðið, enda fékk ég alltaf hrós fyrir góðan frágang og verkun, enda lærði ég af þeim besta.
Þér var ávallt umhugað um mig og mína framtíð og þegar ég leitaði mér aðstoðar vegna alkóhólisma varst þú afar stoltur af mér og lást ekki á þeirri skoðun, mér eru minnisstæð orðin þín þegar þú hallaðir þér að mér og sagðir: „Ég er svo glaður að ná að lifa það að sjá þig ná bata.“ Þessi orð þín munu aldrei líða mér úr minni, enda hafa þau reynst mér mikil hvatning og styrkur. Þegar ég náði í hana Kristel mína varstu svo ánægður og þið náðuð strax vel saman. Með henni fylgdu tvö yndisleg börn, þau Jóhanna og Kári. Þú sagðir við mig: „Láttu þau aldrei finna að þau séu ekki þín, þau eru alveg jafn mikið þín eins og Lilja og Anna.“ Þessu hef ég farið eftir alla tíð síðan og mun alltaf gera.
Þú varst einstaklega stoltur og glaður þegar ég fór í skipstjórnarnám, og ég fann fyrir miklum stuðningi frá þér þegar ég stundaði það, enda ljómaðir þú þegar ég sagði þér að ég væri að fara í fyrsta skipti sem stýrimaður á Ljósafellinu, þar fékk ég einnig góð ráð varðandi verkstjórn.
Yngsti sonur minn hann Dagbjartur fæddist árið 2018 og finnst mér einstaklega dýrmætt að þið amma hafið bæði náð að komast í skírnina hans, þar með náðuð þið að vera viðstödd skírnir allra barna minna og þau náðu að kynnast þér vel. Nú er ég sjálfur orðinn afi, og það var gaman að geta deilt því að vera afi með þér í tíu mánuði, þú náðir að hitta litlu langalangafastelpuna þína og það er dýrmætt. Þú lagðir mér líka nokkrar línur og gafst mér ráð varðandi afahlutverkið, þau ráð og mín upplifun af þér mun fylgja mér.
Takk fyrir allt elsku afi minn. Ég mun alltaf sakna þín.
Þinn
Eðvarð Þór.
Hann hét Sigþór Rögnvar Ragnarsson fullu nafni. Annars var nafnið Rögnvar mest notað, sjaldgæft en rismikið. Höfðu afkomendur á því mætur enda ber afadrengur sama nafn.
Dengsi eins og flestir kölluðu hann átti kærkominn og ríkan sess í eskfirsku samfélagi. Traustur fulltrúi og vandur að sinni virðingu. Man ég fyrst eftir honum sem verkstjóra við saltfiskverkun hraðfrystihússins í skemmu innarlega í bænum með hóp verkafólks innan sinna raða. Hann var virtur og vel metinn. Fagmennska og reglusemi í fyrirrúmi. Eitt sinn rétti hann mér saltfisk sem hann og fólk hans hafði verkað. Fiskurinn snjóhvítur á holdið eins og til stóð og sagði mér að hafa hann með mér heim. Þakklátur fékk ég og fjölskyldan notið afurðar eins og hún best gerist.
Dengsi var gæfumaður heima og heiman. Eiginkonan Erna dásamleg manneskja. Einstaklega ljúf, barngóð og umvefjandi. Hennar starf í leikskólanum verður lengi í minnum haft og vitna börn mín um einstaka alúð hennar og umhyggju. Þau Dengsi og Erna bjuggu börnum sínum Grétari og Guðrúnu yndislegt heimili. Andleg og efnisleg gæði fram borin af rausn og kærleika. Það fengu afkomendur, ættingjar og vinir sannarlega að reyna.
Þau hjónin sóttu sína andlegu reisn og kjölfestu í kristindóminn. Gildin gömlu og góðu höfð að leiðarljósi og þeim í mun að miðla gersemum trúarinnar meðal afkomenda sinna.
Dengsi vakti athygli og í raun aðdáun meðal bæjarbúa þegar hann hóf að taka sér nær daglega göngutúra hringinn Bleiksárhlíð og Strandgötu. Líklega einn af brautryðjendum sinnar kynslóðar, sem gerði þannig hreyfingu að lífsstíl. Strikinu haldið, sama hvernig viðraði, enda ávöxturinn ríkulegur í líkamlegum og andlegum styrk.
Dengsi var stoltur af sinni fjölskyldu og sínum stað. Hógvær og dagfarsprúður, en á sinn hátt einn af stólpum síns byggðarlags. Hann unni því mjög og ljóst að stoðir eins og hann bera uppi gott og fagurt mannlíf. Samfylgdin er hér af alhug þökkuð um leið og aðstandendum er vottuð dýpsta samúð.
Heiðurshjón eru horfin á braut. Guð blessi minningu þeirra.
Davíð Baldursson.