Íris Erlingsdóttir
Íris Erlingsdóttir
Fátt er jafn heillandi og að halda ræður berandi geislabaug gjafmildi við dynjandi lófatak alþjóðlegra sperrileggja á ráðstefnum í New York og París.

Íris Erlingsdóttir

Ef dyggðaflöggun væri íþrótt væru íslenskir ráðamenn – eða kannski öllu heldur ráðakonur – ólympíumeistarar. Þau eru svo upptekin af sýndargæsku að þau eru ófær um að skilja það sem allar hagsýnar húsmæður vita: mörg málefni eru góð, gild og verðug, en ekki má láta þau éta heimilisfólkið út á gaddinn.

Sýndargæskan er ekki séríslensk sýki. Sóun skattfjár almennings í erlenda fjárhagsaðstoð er fullkomin myndlíking fyrir efnahagsleg vandamál Vesturlanda og okkar litla 370.000 íbúa þjóð er afar gott dæmi. Stjórnvöld gáfu um 15 milljarða króna af peningunum þínum í erlenda fjárhagsaðstoð, bara í fyrra. Þessir peningar eru m.a. sendir til hinna mýmörgu stofnana Sameinuðu þjóðanna (SÞ) til stuðnings mannúðarmálum og þróunarverkefnum en einnig í vasa stuðningshópa (UNRWA) hryðjuverkasamtaka (Hamas) og í kjöthakkavélina í Úkraínu (3,6 milljarðar).

Á meðan glíma Íslendingar við svo alvarlega húsnæðiskreppu, að þak yfir höfuðið og stofnun fjölskyldu er fjarlægur draumur fyrir meirihluta ungs fólks í landinu. Fáránlega hátt fasteignaverð, lág laun, háir vextir, verðtryggð lán og þriðji hæsti framfærslukostnaður í heimi (á eftir Sviss og Bahamaeyjum) þýða að fólk á þrítugs- og fertugsaldri er í fast í leiguhúsnæði eða jafnvel foreldrahúsum og frestar hjónaböndum og barneignum. Kaldhæðnin er sláandi; á alþjóðlegum vettvangi monta leiðtogar landsins sig af gjafmildi íslensku þjóðarinnar og slá sig til riddara á kostnað skattgreiðenda, en skeyta engu um unga fólkið heima fyrir sem verður að bjarga sér í hagkerfi sem setur alþjóðlega ímynd dyggðapólitíkur framar þeirra velferð.

Íslendingar eiga afar erfitt með að segja „nei“. En ástæðan fyrir því að segja „nei“ við fátækrahjálp, heimilislausa og stríðshrjáða úti í heimi er ekki illgirni eða hatur. Það er einfaldlega vegna þess að maður verður að hafa efni á að fæða, klæða og hýsa eigin fjölskyldu. Hver króna sem send er til útlanda er króna sem ekki er fjárfest í húsnæði, lægra vöruverði eða lægri sköttum fyrir íslenska launþega, sem hafa barist í bönkum verðtrygginga og fjárplógsstarfsemi frá því að ég man eftir mér.

Íslenska stjórnmálaelítan gerir sér alveg fyrir grein fyrir þessu. Þeim er bara alveg sama. Það er þeim mikilvægara að sýna sig í kokkteilteitum kolkrabbans með sýndargæsku-heiðursmerki í barminum, þó það þýði að draumar unga fólksins heima rætist aldrei. Þau líta á erlenda fjárhagsaðstoð –þína peninga – sem tákn um þeirra eigin persónulegu rausn. Fátt er jafn heillandi og að halda ræður berandi geislabaug gjafmildinnar við dynjandi lófatak alþjóðlegra sperrileggja á ráðstefnum í New York og París. Peningaflóðið sem rennur í gegnum alþjóðlegu „góðgerðar“-stofnanirnar er ennfremur fjárfesting í þeirra eigin framtíð; auk þess að vera fjárflettimaskínur sem dæla fé í dekurmál heimsvaldasinna eru þær atvinnumiðlanir fyrir úr sér gengna pólitíkusa og aðrar silkihúfur.

Skuldir Bretlands og Ameríku jafngilda landsframleiðslu þeirra. Ástandið á Íslandi er ekki alveg jafn slæmt, en skuldir okkar allra vaxa frá ári til árs vegna þess að við eyðum meira en við öflum. Eiga heimili í þessari stöðu að gefa peninga til góðgerðarmála? Þetta er bara reikningsdæmi, ekki illvilji gagnvart þurfandi fólki. Tökum sem dæmi íslenska fjölskyldu sem þénar sex milljónir kr. á ári, skuldar fimm milljónir og gefur peninga til góðgerðarstarfsemi í útlöndum á meðan börnin sofa inni í stofu vegna þess að stærra húsnæði er utan seilingar. Þetta er ekki sjálfbært líkan – og allir sem reka heimili vita það, en stjórnvöld láta sem reglurnar gildi ekki um ríkisfjármálin.

Áður fyrr jukust skuldir þjóða á stríðstímum, en voru greiddar niður á friðartímum í öguðu ferli fórna og endurreisnar. Hagkerfi Íslands, sem byggist aðallega á ferðaþjónustu og fiskveiðum, er ekki botnlaus auðlind. Til að forðast að herða sultarólina, prentum við peninga og treystum á lán. Vextir eru háir til að halda verðbólgu (5% árið 2024) í skefjum, sem gerir launafólki og lántakendum enn erfiðara fyrir, en áfram streymir rausn stjórnvalda óhindrað til útlanda.

Ráðakonur og -menn þjóðarinnar haga sér ekki eins og fullorðið fólk með snefil af ábyrgðartilfinningu. Þau haga sér eins og sjálfselskir, sefasjúkir unglingar, sem eru til í að gera allt fyrir hjörtu á samskiptamiðlum. Þau eru heilluð af því sem þau halda að sé eigin örlæti og mannkærleikur, en er í raun síngirni og yfirdrepsskapur.

Kostnaðurinn við sýndargæskusýkina er ekki bara fjárhagslegur – hann er kynslóðabundinn. Fæðingartíðni Íslands er undir viðhaldsstigi vegna þess að ungt fólk hefur ekki efni á að skapa sér stöðugleikann sem stofnun fjölskyldu krefst. Hver milljarður króna sendur til útlanda er glatað tækifæri til að byggja húsnæði, fjármagna skóla og létta byrðar næstu kynslóða. Í staðinn er arfleifð okkar skuldir, húsnæðisskortur, glórulausar stjórnvaldsákvarðanir og rammskökk forgangsröðun. Leiðtogar þjóðarinnar og vestrænir félagar þeirra klappa hverjir öðrum á bakið fyrir alþjóðlega samkennd, en samkennd án dómgreindar er lúxusvara sem við höfum ekki lengur efni á.

Höfundur er fjölmiðlafræðingur.

Höf.: Íris Erlingsdóttir