Fjölskyldan Markús, Dorothée og börn stödd í Þjórsárdal.
Fjölskyldan Markús, Dorothée og börn stödd í Þjórsárdal.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Markús Þór Andrésson fæddist 11. mars 1975 í Zürich í Sviss þar sem fjölskylda hans dvaldi í nokkur ár vegna verkfræðistarfa föður hans, en þau fluttust fljótlega heim og bjuggu þá lengst af í Breiðholti þar sem Markús gekk í Ölduselsskóla ásamt bróður sínum, Frímanni

Markús Þór Andrésson fæddist 11. mars 1975 í Zürich í Sviss þar sem fjölskylda hans dvaldi í nokkur ár vegna verkfræðistarfa föður hans, en þau fluttust fljótlega heim og bjuggu þá lengst af í Breiðholti þar sem Markús gekk í Ölduselsskóla ásamt bróður sínum, Frímanni.

Eftir grunnskóla lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík á fornmáladeild og þá í Leiðsöguskóla Íslands. Markús starfaði sem leiðsögumaður, einkum fyrir Guðmund Jónasson, í mörg sumur. Hann starfaði fyrir útvarp og sjónvarp, meðal annars sem annar umsjónarmanna unglingaþáttarins Ó, áður en hann hóf nám í myndlist við Listaháskóla Íslands. Þar kynntist hann núverandi konu sinni, Dorothée Kirch, sem einnig stundaði listnám og fluttu þau saman á Hringbraut.

Þegar Markús var í MR stofnaði hann ásamt félögum sínum Unglingahljómsveitina Kósý sem gerði garðinn frægan og gaf út jólaplötu árið 1995. „Ég var í píanónámi í Tónlistarskóla Reykjavíkur alveg til tvítugs. Tónlistin hefur síðan alltaf fylgt manni þótt ég sinni píanóinu ekki nema til heimabrúks.“

Að loknu námi við málaradeild 2001 í Listaháskólanum starfrækti Markús vinnustofu ásamt félögum sínum við Laugaveg og vann að ýmsum störfum tengdum myndlist, m.a. á Safni Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur sem var opnað almenningi árið 2003. „Sú vinna kom mér á sporið með sýningarstjórnun og ég lagði síðan myndlistarferil minn á hilluna þegar verkefnin í tengslum við að skipuleggja fyrir aðra uxu.“

Árið 2005 giftust þau Markús og Dóró og fluttust til Bandaríkjanna þar sem Markús var við framhaldsnám í sýningarstjórn um tveggja ára skeið við Bard College, í dreifbýli New York-fylkis. Eftir útskrift þaðan fluttust hjónin til Berlínar í Þýskalandi þar sem þau störfuðu að ýmsum verkefnum tengdum myndlist. Hjónin fluttust aftur heim til Íslands árið 2011 og hafa þau búið síðan á Bræðraborgarstíg í Vesturbænum.

Markús kom að gerð heimildarmynda um myndlist ásamt Ragnheiði Gestsdóttur, Steypu, árið 2006 og æ ofan í æ árið 2014, og árið 2007 stýrðu hann og Dorothée kona hans sjónvarpsþáttunum Opnun þar sem ýmsir listamenn voru teknir tali.

Sem sjálfstætt starfandi sýningarstjóri hefur Markús stýrt fjölda sýninga, einkum í sambandi við samtímamyndlist, skrifað um myndlist í tímarit og sýningarskrár og verið virkur í félagsstörfum, setið í ýmsum nefndum og ráðum á menningarsviðinu. Meðal eftirminnilegra sýninga á þessum tíma var á Feneyjatvíæringnum 2009 þegar Ragnar Kjartansson var fulltrúi Íslands, en þá voru þau hjónin sýningarstjórar. Einnig var Markús sýningarstjóri Sjónarhorns, en sú sýning var haldin í Safnahúsinu og stóð í fimm ár, en á henni var fjallað um íslenska listasögu og sjónrænan menningararf. „Einnig var skemmtilegt verkefni sem við Dorothée gerðum á vegum Listahátíðar 2009 en það voru sýningar í fjórum vitum hringinn í kringum Ísland, í Kópaskersvita, á Garðskaga, Látrabjargi og Dalatanga.“

Árið 2017 hóf Markús störf hjá Listasafni Reykjavíkur sem deildarstjóri sýninga og miðlunar þar sem hann hefur stýrt sýningum og leitt sýninga- og miðlunarstarf safnsins í samstarfi við safnstjórann, Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur. „Núna er ég að vinna að stóru verkefni fyrir haustið sem er yfirlitssýning á verkum Kristínar Gunnlaugsdóttur. Einnig stórsýningu á verkum Steinu Vasulka sem er samstarfsverkefni Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Íslands og þá munum við Dorothée aftur vinna saman en hún er að vinna hjá Listasafni Íslands.“

Áhugamál Markúsar eru ferðalög og útivist, bæði innanlands og utan. „Við höfum verið mikið í Mið-Evrópu, en Dorothée á ættir að rekja bæði til Þýskalands og Frakklands og við fjölskyldan bjuggum eitt ár í Frakklandi, 2021-22.“

Markús og Dóró héldu nýlega upp á sameiginleg fimmtugsafmæli sín og tuttugu ára brúðkaupsafmæli með miklu danspartíi í Iðnó.

Fjölskylda

Eiginkona Markúsar er Dorothée Kirch, f. 13.9. 1974 í Þýskalandi, markaðs- og þróunarstjóri í Listasafni Íslands. Foreldrar Dorothée eru Konrad Kirch, f. 16.10. 1936, lögfræðingur, og Joëlle Kirch, f. 9.5. 1944, listþerapisti. Þau eru búsett í Wessling, sem er rétt hjá München.

Börn Markúsar og Dorothée eru Björk Elísabet, f. 25.7. 2013 og Fanný Hólmfríður, f. 26.2. 2016.

Bróðir Markúsar er Frímann Andrésson, f. 24.10. 1972, útfararstjóri og plötusnúður, býr í Kópavogi.

Faðir Markúsar er Andrés Svanbjörnsson, f. 20.10. 1939, fv. yfirverkfræðingur. Andrés býr í Garðabæ með Ernu Indriðadóttur, f. 25.12. 1952.

Móðir Markúsar var Björk Sigrún Timmermann, f. 16.8. 1942, d. 26.7. 2006, þýskukennari, bjó í Reykjavík.