Tónlist
Magnús Lyngdal Magnússon
Hinn 9. mars árið 1950 kom Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta skipti fram á tónleikum, þá í Austurbæjarbíói undir stjórn Róberts Abrahams Ottóssonar. Það var því mikið um dýrðir í Hörpu fimmtudaginn 6. mars síðastliðinn þegar hljómsveitin fagnaði 75 ára afmæli sínu með glæsilegri efnisskrá.
Það var riðið á vaðið með tvenns konar frumflutningi, þó á mjög misgömlum verkum. Fyrst frumflutti hljómsveitin glænýjan en mjög stuttan hátíðarforleik eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur (f. 1990). Verkið einkenndist af þéttum hljómi og vaxandi spennu og var ágætlega flutt. Það sama má vissulega segja um Darraðarljóð Jóns Leifs (1899-1968) sem einnig var frumflutt á tónleikunum en verkið samdi Jón árið 1964, það er að segja fáeinum árum áður en hann lést. Stíll Jóns er auðþekkjanlegur en hér eins og svo víða annars staðar sótti hann innblástur í fornbókmenntir. Ljóðið sem sameinaðir kórar Hallgrímskirkju og Langholtskirkju sungu kemur úr Njáls sögu. Ekki öfundaði ég kórinn af flóknum partinum sem hann söng en flutningur hans var kraftmikill, ekki síst í ljósi þess að hljómsveitin var risavaxin. Rytmískan stíl Jóns með tónmáli sem hvílir einkum á fimmundum og áttundum má heyra í mörgum verka hans og aðdáendur tónskáldsins hafa eflaust ekki orðið fyrir vonbrigðum með Darraðarljóð (en það deila vissulega ekki allir áhuga á verkum Jóns).
Aðalverk tónleikanna var hljómfegurra, svo mikið er víst. Víkingur Heiðar Ólafsson var einleikari í fimmta og síðasta píanókonserti Ludwigs van Beethoven (1770-1827). Hann er lengstur og á margan hátt voldugastur píanókonserta tónskáldsins (þó sá fjórði sé almennt eftirlæti píanista). Hljómsveitin var eðlilega miklu minni en í fyrri verkunum tveimur og það mátti merkja einkenni upprunastefnunnar í túlkun Víkings Heiðars, það er að segja fyrsta og þriðja þætti verksins, en ekki miðjukaflanum.
Kannski má orða það svo að einleikari og hljómsveit takist á um forystuhlutverkið í sinfónískum upphafsþætti fimmta píanókonsertsins en flutningurinn var dýnamískur og jafnvægið gott. Þó svo að leikur Víkings Heiðars hafi verið nokkuð blátt áfram í fyrsta þættinum leyfði hann sér endrum og sinnum að draga seiminn. Það var kannski forboði þess sem koma skyldi í öðrum þætti. Þar var tempóið hægt en tónn Víkings Heiðars syngjandi, þó með örlitlum stállit og hann barst þannig ákaflega vel. Miðjukafli fimmta píanókonsertsins er í hópi þess fallegasta sem Beethoven samdi nokkru sinni og flutningurinn var ákaflega góður. Aftur tók svo snerpan við í lokaþættinum en Víkingur Heiðar kvaddi sviðið með því að leika Ave Maríu Sigvalda Kaldalóns, fallega og ívið til baka. Meðleikur Sinfóníuhljómsveitar Íslands í konsertinum var prýðilegur og vel haldið utan um hann af Evu Ollikainen.
Eftir hlé var svo tónaljóðið Ein Heldenleben (Hetjulíf) eftir Richard Strauss (1864-1949) á efnisskránni. Framan af tónskáldaferli sínum samdi Strauss fræg tónaljóð, svo sem Also sprach Zarathustra, Till Eulenspiegel og Don Juan en Ein Heldenleben var áttunda slíka verkið sem hann samdi. Hljómsveitin í þessum verkum er vanalega risavaxin og þau eru gríðarlega erfið í flutningi. Þar eru líka býsna snúnir einleikspartar fyrir leiðandi hljóðfæraleikara og er skemmst frá því að segja að þeir voru vel leiknir á tónleikunum í Hörpu (þar á meðal Sigrún Eðvaldsdóttir konsertmeistari og Stefán Jón Bernharðsson sem leiddi sjö aðra hornleikara).
Vandamálið við flutninginn er orðið býsna gamalt stef; ofkeyrsla Evu Ollikainen sem þannig jafnaði að miklu leyti út fínni tilbrigði verksins en hún má eiga það skuldlaust að hljómsveitin fékk að leika á útopnu í voldugustu köflunum.
Blásarasveit (tré og málmur) Sinfóníuhljómsveitar Íslands er giska vel skipuð og þykktin mikil í hljómnum. Hann á það hins vegar til að yfirgnæfa strengjasveitina og þar vantar stundum meiri fyllingu.