Nýtt keppnisfyrirkomulag í Evrópumótum karla í fótbolta hefur reynst vel í vetur. Í Meistaradeild, Evrópudeild og Sambandsdeild var ekki riðlakeppni heldur voru öll 36 liðin í hverri deild í einum hópi og hvert lið lék sex til átta leiki við jafnmarga mismunandi mótherja

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Nýtt keppnisfyrirkomulag í Evrópumótum karla í fótbolta hefur reynst vel í vetur.

Í Meistaradeild, Evrópudeild og Sambandsdeild var ekki riðlakeppni heldur voru öll 36 liðin í hverri deild í einum hópi og hvert lið lék sex til átta leiki við jafnmarga mismunandi mótherja.

Framan af vetri var erfitt að átta sig á hvort um vel heppnaða breytingu væri að ræða en þegar kom að lokaumferðunum fór ekki á milli mála að þetta var skref í rétta átt.

Ekki síst að þarna skipti nánast hver einasti leikur máli, eiginlega hvert einasta mark, og afar lítið var um óáhugaverðar viðureignir í síðustu umferðunum.

Þetta vekur spurningar um hvort þarna sé ekki á ferð fyrirkomulag sem kæmi fleirum að notum.

Í janúar fylgdumst við með heimsmeistaramóti karla í handbolta þar sem 32 þjóðir léku marga óspennandi leiki.

En um leið þurfti að vanda að grípa til flókinna útreikninga á innbyrðis leikjum þegar lið urðu jöfn að stigum.

Hvernig væri að bæta við fjórum þjóðum (helst öllum frá Evrópu!) og leika svo eftir sama fyrirkomulagi?

Átta efstu liðin eftir fimm til sex umferðir færu beint í 16-liða úrslit, liðin í 9.-24. sæti færu í umspil um hin átta sætin, og liðin í 25.-32. sæti myndu spila um Forsetabikarinn. Fjögur neðstu færu heim.

Einfaldur markamismunur myndi ráða úrslitum þegar lið væru jöfn að stigum en ekki innbyrðis viðureignir. Burt með milliriðla og beint í útsláttarkeppni.

Viðbúið er að þetta gæti orðið flóknara hvað varðar niðurröðun og leikstaði. En það væri verkefni en ekki vandamál.