Kolbrún María er í meistaranámi í félagsráðgjöf hjá HÍ. Hún viðurkenndi að það væri erfitt að stunda íshokkí af fullum krafti í krefjandi námi, þar sem hún fái ekki nægilegan stuðning frá skólayfirvöldum.
„Það er frekar erfitt. Ég á vinkonur í HR og þar er mun meiri sveigjanleiki fyrir íþróttafólkið. Svigrúmið er ekki eins mikið í minni deild, félagsráðgjafanum. Maður þarf einhvern veginn að láta þetta ganga og gera allt á sama tíma,“ sagði Kolbrún.
Hún hefur þurft að skrifa BA-ritgerð í miðri landsliðsferð. Það hefur slæm áhrif á ritgerðarskrifin og mótið sjálft.
„Ég skrifaði BA-ritgerðina mína í landsliðsferð, sem var rosalega erfitt. Maður náði einhvern veginn hvorki að setja hausinn 100 prósent í mótið né ritgerðina. Þetta er oft mjög erfitt, það er mikið álag og streita. Það koma augnablik þar sem maður hugsar um að gefast upp á skólanum eða íshokkíinu. Ég er samt aldrei að fara að leggja skautana á hilluna strax, né hætta í náminu. Þetta er mikið púsl,“ sagði hún og hélt áfram:
„Ég væri til í að fá meiri skilning frá þeim. Ég hef verið að berjast fyrir því að fá að fara út með landsliðinu í apríl. Þegar ég byrjaði í meistaranáminu spurði ég hvernig yrði tekið á því. Þá fékk ég þau svör að það væri ekkert svigrúm fyrir slíkum ferðum. Það er mætingaskylda og maður má bara missa af þremur dögum í hverjum áfanga,“ sagði Kolbrún.
Nánar er rætt við Kolbrúnu um skólamálin á mbl.is/sport.