Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Pétur Stefánsson skoðaði gamalt myndaalbúm og velti útlitinu fyrir sér:
Öllu hjá mér aftur fer,
orðinn grár og hokinn.
Bernskuljóminn af mér er
endanlega fokinn.
Björn Ingólfsson mælti til hans uppörvunarorð:
Ef að dæmt er útlitið
allt er málið þér í hag.
Gamla unglingsandlitið
illa mundi passa í dag.
Magnús Halldórsson fann sig í sömu sporum:
Sjarmann af mér fjúka finn,
fölnar drjúgum halur.
Allur ljómi er nú minn
eins og feitur hvalur.
Séra Hjálmar Jónsson virti hann fyrir sér:
Andlitið ég ágætt tel,
ofurlítið magurt.
Augnaráðið einbeitt vel,
ennið hátt og fagurt.
Loks Guðrún Bjarnadóttir:
Bernskuljóminn, fljótt hann fauk
og festist svo á aðra.
Í ellina ég ánægð rauk,
eitruð frekjunaðra.
Böðvar Tómasson á Stokkseyri var strangheiðarlegur athafnamaður og húmoristi. Þegar hann lýsti húsakaupum hnýtti séra Helgi Sveinsson það saman í vísu:
Kom og sá og sigraði,
samdi um kaup og borgaði.
Sneri mér við og snarseldi
snuðaði engan – stórgræddi.
Eyjólfur Ó. Eyjólfsson bregður á leik í limru:
Úti er vetur að valsa
með vindgný og nístandi kalsa
þessa miðdegisstund
og minnir á hund
sem er fullur af gleði og galsa.
Svo vísa eftir Gunnar J. Straumland:
Ef hann lýgur afglapinn
og eðlisfalskur syngur
velur hann að vera sinn
versti andstæðingur.
Að lokum kemur seinni limra Helga Einarssonar um tap Íslands gegn Króatíu á dögunum
Þótt Snorri sé snarpur og hnellinn,
sniðugur, klókur og brellinn
kempan upp lagði
laupana‘ að bragði
er liðið í Zagreb fékk skellinn.