Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon
Náttúruverndin í mínu lífi hefur alltaf verið samofin ættjarðarástinni.

Ólafur F. Magnússon

Þó að ég hafi verið eindreginn náttúruverndarsinni alla mína tíð, eins og ég á kyn til, kom fyrst til kasta minna að verða í forystu íslenskra náttúruverndarmanna árið 1999. Þá voru áform um Fljótsdalsvirkjun langt komin.

Um var að ræða groddaralega virkjun, þar sem Jökulsá í Fljótsdal skyldi stífluð með uppistöðulóni við Snæfellsnes, skammt frá Eyjabakkafossi, sem myndi færa náttúruperluna Eyjabakka í kaf undir 45 ferkílómetra uppistöðulón á Eyjabökkum.

Fljótsdalsvirkjun var aðeins hugsuð sem fyrsti áfangi Kárahnjúkavirkjunar og með því að hætta við uppistöðulón á Eyjabökkum og notast þess í stað við rennslislón í svokölluðu Upsarlóni fyrir neðan Eyjabakka töpuðust aðeins 200 gígavattstundir af 5.000 í heildarorkugetu Kárahnjúkavirkjunar, eða 4%.

Tekið skal fram að Eyjabakkar eru í dag Ramsarsvæði um sjálfbæra nýtingu votlendis og þar eru merkar jarðminjar, svokallaðir hraukar, sem aðeins finnast á Eyjabökkum, í Kringilsárrana og á Svalbarða.

Ég varð frumstofnandi og forystumaður grasrótarhreyfingarinnar „Umhverfisvinir“ við stofnun hennar 19. október 1999. Umhverfisvinir hófu undirskriftasöfnun gegn uppistöðulóni á Eyjabökkum hinn 10. nóvember 1999 og söfnuðu yfir 45.000 undirskriftum sem voru afhentar íslenskum stjórnvöldum 14. febrúar árið 2000. Íslensk stjórnvöld létu sér fátt um finnast en virkjunaraðilinn, Norsk Hydro, hætti hins vegar við virkjunina vegna hins eindregna þjóðarvilja sem fram kom í undirskriftum Umhverfisvina.

Þessi sigur Umhverfisvina í Eyjabakkadeilunni er tvímælalaust stærsti lýðræðissigur íslenskrar náttúruverndar og kemur næst í minningunni á eftir hetjulegri andspyrnu Laxárbænda í Laxárdeilunni árið 1970.

Ég minni á þetta nú þegar margir helstu talsmenn náttúruverndar á Íslandi sýna í verki að þeir eru miklu fremur að berjast fyrir alþjóðahyggju og alþjóðasamtökum en landi sínu og þjóð, t.d. með því að vinna gegn sjálfbærum, hagkvæmum og brýnum virkjunarkostum á borð við Hvammsvirkjun. Þetta fólk er engir Umhverfisvinir, því að við Umhverfisvinirnir frá 1999 vorum mannvinir sem elskuðu land sitt og þjóð og viljum ekki fá yfir okkur alþjóðlega vindmyllugarða og aðra óáran í íslensku þjóð- og athafnalífi.

Höfundur er læknir og fv. borgarstjóri í Reykjavík.

Höf.: Ólafur F. Magnússon