Mikill eldur kviknaði í gær þegar gámaflutningaskipið Solong sigldi á olíuflutningaskipið Stena Immaculate þar sem það lá við akkeri í Norðursjó skammt undan austurströnd Englands. Þurfti að flytja alla í áhöfnum beggja skipa í land í hafnarborginni Hull og var í fyrstu óttast að minnst 32 væru slasaðir eftir áreksturinn. Hins vegar var einungis einn fluttur á sjúkrahús en hinir 36 reyndust óslasaðir.
Crowley Maritime, sem rekur olíuflutningaskipið, sagði í yfirlýsingu eftir atvikið að einn tankur skipsins hefði rofnað og innihaldið, þotueldsneyti, lekið í hafið. Sagði í yfirlýsingu Crowley að eldur hefði kviknað í kjölfarið og að áhöfn skipsins hefði yfirgefið það eftir að nokkrar sprengingar heyrðust. Hins vegar væru allir í áhöfninni komnir heilu og höldnu í land.
Staðfest var í gær að olíuflutningaskipið var í flutningum fyrir Bandaríkjaher, sem sagði atvikið ekki hafa áhrif á viðbúnaðarstig sitt í Bretlandi.
Óttast umhverfisáhrif
Rannsókn er þegar hafin í Bretlandi, en atvikið átti sér stað um hábjartan dag. David McFarlane, öryggisráðgjafi í sjóflutningum, sagði við breska ríkisútvarpið BBC í gær að undir venjulegum kringumstæðum væri engin ástæða til þess að slys sem þetta, þar sem siglt væri á skip við akkeri, ætti að geta gerst.
Þá sagði McFarlane að mengunin í Norðursjó af völdum þotueldsneytisins yrði einhver, en þó tiltölulega lítil miðað við ef hráolía hefði lekið í sjóinn.
Engu að síður óttuðust stjórnvöld í Bretlandi í gær að umhverfisáhrif slyssins gætu orðið einhver, þar sem skipið var að flytja 142.000 tunnur af þotueldsneyti þegar atvikið varð. Þá var ekki hægt að útiloka að olía úr skipunum sjálfum myndi valda skaða á umhverfinu.