Framkvæmdir VMST spáir 4,2% til 4,3% atvinnuleysi í marsmánuði.
Framkvæmdir VMST spáir 4,2% til 4,3% atvinnuleysi í marsmánuði. — Morgunblaðið/Eggert
Atvinnuleysi á landinu jókst lítillega í seinasta mánuði og hækkaði úr 4,2% í janúar í 4,3% í febrúar. Hefur atvinnuleysið farið smám saman vaxandi frá mánuði til mánaðar allt frá miðju seinasta sumri

Atvinnuleysi á landinu jókst lítillega í seinasta mánuði og hækkaði úr 4,2% í janúar í 4,3% í febrúar. Hefur atvinnuleysið farið smám saman vaxandi frá mánuði til mánaðar allt frá miðju seinasta sumri. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi breytist lítið í mars og verði á bilinu 4,2% til 4,3%.

Var 9.081 einstaklingur skráður án atvinnu í lok febrúar, 5.272 karlar og 3.809 konur. 5.193 erlendir atvinnuleitendur voru án atvinnu í lok febrúar.

Atvinnuleysið var mest á Suðurnesjum í febrúar og mældist 7,8% en var 7,7% í mánuðinum á undan samkvæmt nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar um ástandið á vinnumarkaði. Verulegur munur er á atvinnuleysi kynjanna á Suðurnesjum en þar var 8,1% atvinnuleysi meðal karla en 7,4% meðal kvenna í febrúar. Ef litið er til landsins alls kemur í ljós að atvinnuleysi var minna meðal karla en kvenna á einu svæði á landinu í febrúar. Það var á Suðurlandi þar sem atvinnuleysi karla var 3,6% en atvinnuleysi kvenna 3,9%. Á höfuðborgarsvæðinu var atvinnuleysi karla 4,7% í seinasta mánuði en atvinnuleysi kvenna 4,0%.

„Atvinnuleysi hækkaði á nokkrum stöðum á landinu frá janúar, mest þó á Vestfjörðum þar sem það fór úr 2,4% í 2,8%. Atvinnuleysi lækkaði á þremur svæðum á landinu en mest var lækkunin á Vesturlandi þar sem atvinnuleysi fór úr 3,5% í 3,3%,“ segir í skýrslu VMST. omfr@mbl.is