Örn Sigurðsson fæddist 30. ágúst 1942 á Siglufirði. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 21.2. 2025.
Foreldrar Arnar voru Sigrún M. Arnórsdóttir matráðskona, frá Upsum í Svarfaðardal, f. 30.1. 1913, d. 22.4. 1969, og Sigurður Guðmundsson skipstjóri, frá Dvergasteini við Álftafjörð vestra, f. 10.5. 1904, d. 8.5. 1971. Systir Arnar var Þóra Rannveig Sigurðardóttir, f. 3.11. 1936, d. 13.9. 2008.
Þann 25. desember 1964 kvæntist Örn Sigurbjörtu Júlíönu Gunnarsdóttur, f. 25.12. 1942, d. 11.7. 2014. Foreldrar hennar voru Gunnar Sverrir Guðmundsson vörubifreiðastjóri, f. 28.6. 1917, d. 21.6. 1963, og Bjarndís Jónsdóttir húsmóðir, f. 7.3. 1920, d. 27.9. 2004.
Börn Sigurbjartar og Arnar eru: 1) Sigrún Margrét Arnardóttir, f. 25.1. 1964, maki Geir Gunnarsson og eiga þau eina dóttur, Filippíu Lind. Fyrir átti Sigrún eina dóttur, Sunnu Dís, og Geir tvær dætur: Margréti Ólöfu, maki Egill Jóhannsson og eru börn Margrétar, Andrea og Hálfdán Daði og börn Egils Agla og Njála, og Helga Rún, maki hennar er Daniel Dawitt og börn þeirra Julien, Alexander, Isak og Soffia. 2) Bjarndís Arnardóttir, f. 30.9. 1965, börn hennar eru Júlíana Björt og Ísabella Margrét. 3) Örn Arnarson, f. 23.5. 1969, börn hans eru Ásta Jóhanna og Birna María.
Örn ólst upp á Siglufirði til fimm ára aldurs þegar fjölskyldan fluttist til Akraness og móðir hans hóf rekstur á matstofu. Frá tíu ára aldri bjó Örn í Hlíðunum eða þar til hann hitti eiginkonu sína Sigurbjörtu og hóf búskap með henni í Reykjavík 23 ára gamall. Vorið 1959 útskrifaðist Örn úr Verslunarskóla Íslands og dvaldi í framhaldinu í sex mánuði í Englandi við enskunám. Eftir námið lá leiðin í verslun og viðskipti og hóf hann störf hjá Jóh. Ólafssyni co. hf. við sölu og útkeyrslu. Starfaði síðan í heildverslun Lárusar Arnþórssonar í nokkur ár og hafði umsjón með sölu og útkeyrslu, banka- og tollaskjölum, erlendum samskiptum og vörupöntunum að utan. Örn stofnaði síðan eigin heildverslun og hóf innflutning á barnafatnaði og ýmsum smávarningi þar til hann hóf skrifstofustörf hjá olíufélaginu Skeljungi í Skerjafirði. Árið 1972 hóf hann svo störf hjá Alþjóða líftryggingarfélaginu og starfaði þar sem sölustjóri og tryggingamiðlari í rúmlega 30 ár.
Örn bjó lengst af í Reykjavík ásamt eiginkonu sinni eða þar til þau fluttu til Mosfellsbæjar árið 1991. Árið 1999 fluttu þau til Hveragerðis og eftir fráfall Sigurbjartar fluttist Örn til Selfoss þar sem hann bjó til æviloka.
Útförin fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 11. mars 2025, klukkan 13.
Elskulegi pabbi okkar er fallinn frá. Loksins kominn í faðm mömmu sem hann saknaði svo óendanlega mikið. Þrátt fyrir glímu við ýmsa kvilla síðustu árin, aðallega eftir að mamma fór, kom kallið óvænt og sveið sárt.
Pabbi setti vinnu og fjölskylduna í fyrsta sæti á sinn einstaka hátt. Alltaf að nostra við fólkið sitt, mikill ræktandi í sér. Hann talaði oft um að sumrin hjá afa og ömmu á Upsum í Svarfaðardal hefði haft mikil áhrif á sig þegar sjálfsþurftarbúskapurinn réð ríkjum. Hann var alltaf að rækta eitthvað, hvort sem það var fólk, tré, blóm, grænmeti eða bara hvað sem er. Eitt af því sem vakti mesta lukku var kombucha, drykkurinn góði sem hann nostraði við í áratugi fyrir fjölskylduna (og vini) og við elskuðum. Þegar fjölskyldan kom saman í Kjarrheiðinni vorum við varla sest þegar pabbi kom færandi hendi og bauð upp á kombucha. Svo sátum við og spjölluðum um heilsu og óhefðbundnar lækningar og drukkum kombucha með mangóbragði. Það var best.
Varla er hægt að tala um pabba án þess að minnast á mömmu sem stóð eins og klettur að baki sínum manni og átti sinn þátt í að styrkja og vernda heilsu hans. Hún var alltaf að passa upp á hann, sérstaklega mataræðið, og hafði pabbi mikinn húmor fyrir því. Hann var svo mikið matargat og naut þess að borða og gefa öðrum að borða og fór stundum yfir strikið í matarástinni. Hann réð ríkjum í eldhúsinu og var alltaf eitthvað að stússast. Móðir hans var matráðskona með rekstur allan hans uppvöxt og margir með matarást á ömmu svo ekki átti hann langt að sækja ást sína á mat.
Svo fór mamma að læra heilun, höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun og fleiri aðferðir sem höfðu góð áhrif á pabba og þá sem lögðust á bekkinn hjá henni. Mamma lagði sig alla fram og fór af henni gott orð en margir fengu bata. Pabbi hafði lent í aftanákeyrslu og þjáðist af háls- og axlarmeiðslum sem mamma, með þolinmæði og þrautseigju, náði að lina. Þegar þau voru hætt að vinna varð þetta hluti af rútínunni að taka pabba reglulega í heilun. Pabbi snerist líka í kringum mömmu og ástin og umhyggjan hvors fyrir öðru bara óx með árunum. Dagurinn var ekki byrjaður fyrr en pabbi hafði fært mömmu risastórt glas af kombucha. Því meira því betra.
Dýpsta sæla og sorgin þunga,
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra mál ei talar tunga,
tárin eru beggja orð.
(Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum)
Hægt væri að segja svo margar sögur af pabba en minningin um þig, elsku pabbi, lifir í hjörtum okkar og þín verður sárt saknað.
Þínar dætur,
Bjarndís og
Sigrún Arnardætur.
Elsku afi minn.
Ég er svo glöð að hafa náð að koma til þín daginn áður en þú fórst. Sitja hjá þér, halda í höndina á þér og finna hvað mér þótti óendanlega vænt um þig, elsku afi minn. Þótt þú værir með lokuð augun fann ég þegar þú kreistir höndina á mér og ég táraðist.
Mikið á ég eftir að sakna þín. Þú varst svo fyndinn og skemmtilegur afi og mikill brallari. Ég á svo margar skemmtilegar minningar um þig og ömmu í Kjarrheiðinni. Þið voruð alltaf eitthvað að stússast á heimilinu, gróðursetja allsskonar… og hugsa um Jónatan litla sem ég fór svo oft með í göngutúr. Ég eftir að sakna þess að fá kombucha-drykkinn sem þú bjóst til fram á það síðasta og keyrðir meira að segja út til fjölskyldunnar svo við fengjum hann nú örugglega. Það lýsir þér svo vel.
Minningin um þig mun lifa elsku afi minn, takk fyrir allt, bið að heilsa ömmu.
Þín
Ísabella Margrét.
Nú þegar hann Öddi, Örn Sigurðsson, er kvaddur koma strax í hug dagar æsku og glaðværðar. Við Öddi vorum hluti af stórum hópi barna í Hlíðunum sem naut frjálsræðis og endalausra uppátækja glaðværrar æsku. Barnamergðin var mikil í þessu hverfi Reykjavíkur sem var að byggjast og taka á sig svip, dálítið annan en þann sem einkennir þétta byggð mikilla húsnæðisvandræða þess tíma. Alls kyns leikir, bygging snjóhúsa og dúfnakofa, áramótabrennur, prakkarastrik og frjálsræði. Svo fylgdu unglingsárin, tími breytinga. Barnahópar tóku að þéttast og öll áhugamál að breytast. Og við strákarnir eignuðumst okkar foringja. Það var Öddi. Hann sagði okkur ekki fyrir verkum. Við bara drógumst að honum.
Þá var auðveldara en nú að finna sumarstörf, gjarnan við sendistörf og byggingavinnu. Og það þýddi tilhneiging til sjálfstæðis og frumkvæðis. Við strákarnir breyttum um stíl og tileinkuðum okkur tækni sem þá var nútíminn. Fórum t.d. að að fara í útilegur á skellinöðrum í stað reiðhjóla. Þá þurfti ekki sérstakt próf á slík tæki. Og svo voru það stelpurnar. Þær drógust inn í hópinn og urðu hluti af. Alls var hópurinn um 10 unglingar en við vorum misjafnlega náin þótt við hittumst oft og þá venjulegast hjá Ödda. Þar var spilað, teflt, spilað bobb og fleira. Og oft vann Öddi. Þetta voru góð ár efnilegra unglinga. En skugga bar á. Atburðir gerðust sem segja má að hafi losað vináttubönd og í framhaldi varð alvarlegur atburður með voveiflegu fráfalli sem hafði mikil áhrif á líf okkar allra og á sambönd.
Við vorum farin að nálgast fullorðinsár og vináttusambönd breyttust. Samdráttur ungs fólks varð annar og í framhaldi stofnuðu Öddi og Sibba fjölskyldu. Og nokkrum árum síðar stofnuðum við Lilja okkar fjölskyldu. Og þá var í fleiri horn að líta. Öddi stundaði sölumennsku hjá Lárusi frænda sínum um árabil og síðar sölu trygginga á eigin vegum. Ég starfaði á öðrum vettvangi. En við hittumst alltaf öðru hvoru og höfðum mikla ánægju af en gamli hópurinn var ekki lengur nærri. Í honum fækkaði. En þegar við Öddi hittumst var gjarna rætt um liðinn tíma og okkar sameiginlegu minningar. Og nú síðustu árin vorum við orðnir tveir eftir af gamla hópnum. Öddi hafði misst son og síðar Sibbu en hann stóð keikur eftir. Og oft var það að við fundum þörf fyrir að rifja upp það sem liðið var.
En þrátt fyrir áföll og alvarlega atburði horfði Öddi bjartsýnn fram á veginn alveg fram undir það síðasta og lét ekki deigan síga. Og við sem kveðjum hann nú munum gæðadreng og foringja sem ekkert gerði til að vera í því hlutverki.
Páll Bergsson.