Íshokkí
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
„Við höfum lagt mikla vinnu í þetta síðustu ár og að vinna deildina hefur ávallt verið okkar markmið,“ sagði Kolbrún María Garðarsdóttir, fyrirliði deildarmeistara Fjölnis og landsliðskona í íshokkí, í samtali við Morgunblaðið.
Fjölnir, sem er ríkjandi Íslandsmeistari, fékk 34 stig úr 16 leikjum, ellefu stigum meira en SA, í deildinni í vetur. Akureyrarliðið varð deildarmeistari á síðasta tímabili en tapaði svo fyrir Fjölni í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Var það í fyrsta skipti í 17 ár sem lið utan Akureyrar varð Íslandsmeistari.
„Þegar félagið hét Björninn varð það síðast deildarmeistari fyrir meira en tíu árum. Það var því kominn ansi langur tími síðan eitthvert annað lið en SA varð deildarmeistari,“ sagði Kolbrún.
Lagt mikið á okkur
Hún er mjög sátt við framfarirnar í Grafarvoginum undanfarna mánuði og ánægð með þjálfarann Emil Alengård, sem er fyrrverandi landsliðsmaður.
„Við höfum unnið mjög vel í öllu liðinu, allir leikmenn hafa náð að sýna sína styrkleika og við höfum lagt mikið á okkur til að spila sem best sem lið. Við höfum nýtt breiddina okkar vel. Við erum ungt lið en á sama tíma sterkt lið.
Allir leikmenn hafa sýnt miklar framfarir og það sést á svellinu. Við æfum vel frá ísnum fyrir hverja einustu æfingu og við nýtum tímann mjög vel. Svo er Emil þjálfarinn okkar frábær,“ sagði Kolbrún.
Öðruvísi áskorun
Næst á dagskrá hjá Kolbrúnu og liðsfélögum hennar er úrslitaeinvígi við SA um Íslandsmeistaratitilinn og er fyrsti leikur í Skautahöllinni í Egilshöll í kvöld. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari.
„Úrslitaeinvígið leggst mjög vel í mig og við erum allar tilbúnar í þennan slag. Við höfum síðustu tvær vikur fengið fyrirlestra frá Haus, sem býður upp á hugarþjálfun. Hreiðar Haraldsson sér um það. Við vorum einmitt með hann í fyrra fyrir úrslitin og hann kenndi okkur að fara í úrslit sem minna liðið. Það hafði alltaf verið erfitt fyrir okkur að vinna SA.
Núna er þetta öðruvísi áskorun, því við viljum vinna annað árið í röð. Við höfum einbeitt okkur að því að þetta sé öðruvísi pressa en í fyrra. Hann hefur hjálpað liðinu mjög mikið og við erum mjög tilbúnar í þetta,“ sagði hún.
Í úrslitaeinvíginu er keppt þétt og til skiptis á Akureyri og í Reykjavík, með tilheyrandi ferðalögum. Er leikið annan hvern dag þar til annað liðið hefur unnið þrjá leiki og því mikið álag fram undan.
„Þetta er álag og sérstaklega fyrir okkur sem erum í skóla og/eða vinnu. Maður er að fórna alls konar fyrir þessa íþrótt og það er ástæða fyrir því að við gerum það. Í svona úrslitaeinvígjum verður maður að sofa og borða vel og hugsa vel um sjálfan sig.
Stundum fær maður lítinn tíma fyrir sjálfan sig. Maður er mikið með liðinu og þetta er mikil keyrsla. Það má ekki gleyma að anda aðeins og gera eitthvað öðruvísi,“ sagði landsliðskonan.
Búin að styrkjast gríðarlega
Kolbrún er ánægð með þróunina í íshokkí í kvennaflokki hérlendis. Áður fyrr voru yfirburðir SA miklir og kepptu tvö félög, Ynjur og Ásynjur, undir merkjum Akureyrarfélagsins úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn. Nú skipa Fjölnir, SA og SR jafna og spennandi deild.
„Deildin er búin að styrkjast gríðarlega. Það er gaman að koma inn í leiki og vita ekkert hvernig þeir fara. Það er fullt af leikjum að ráðast í vítakeppni og það hefur ekki gerst síðan ég man eftir mér. Það eru spennandi leikir hjá öllum liðum og maður sér að SR er að bæta sig mikið. Það hafa leikmenn af norðan verið að fara í SR og styrkja liðið.
Þróunin hefur verið jákvæð og leikirnir eru meira spennandi og skemmtilegri. Maður verður að læra að tapa líka. Það er auðvitað ekki gaman að tapa en það er gott fyrir íþróttina að það sé möguleiki og skemmtilegra en að vita að þú sért að fara að vinna,“ útskýrði Kolbrún.
Fjölskyldan í íshokkí
Hún er sjálf uppalin á Akureyri, sem er mikill íshokkíbær. Móðir hennar Sólveig Hulda Valgeirsdóttir og móðurbróðir Sigurður Einarsson voru bæði mikið í íshokkí. Þá leikur yngri systir hennar, Eyrún Arna Garðarsdóttir, með SA. Afi hennar Reynir Sigurðsson starfaði svo í Skautahöllinni á Akureyri.
„Ég er frá Akureyri og þetta er fjórða tímabilið mitt í Fjölni. Bróðir mömmu minnar var í íshokkí og hann er mikil fyrirmynd í lífi mínu. Systir mín er líka í íshokkí og mamma var það sömuleiðis. Svo vann afi minn í Skautahöllinni. Íshokkí var í hjarta mínu og maður ólst upp við það,“ sagði hún.
Rígur á milli systra
En hvernig var fyrir Akureyring að spila gegn SA og binda enda á 17 ára sigurgöngu Akureyrarfélagsins?
„Það var gaman en svo varð erfiðara að mæta SA þegar litla systir mín fór að spila með þeim. Nú er þetta rígur á milli systra og erfitt fyrir fjölskylduna að ákveða hverjum á að halda með. Þetta hefur verið smá snúið, því maður heldur alltaf með litlu systur en maður vill líka alltaf vinna,“ sagði Kolbrún.
Íshokkí er mjög hörð íþrótt og er mikið um baráttu á svellinu, þar sem ekkert er gefið eftir. „Sumir segja að ég hafi verið of róleg við systur mína en ég er aðeins byrjuð að vera grimmari við hana. Við erum samt alltaf vinkonur eftir leik,“ sagði Kolbrún.