Héraðsdómur Reykjaness hefur rift kaupsamningi á taflborði sem tengist skákeinvígi þeirra Boris Spasskí og Bobby Fischer á Íslandi árið 1972.
Bandaríkjamaðurinn Noah Siegel höfðaði mál á hendur Páli G. Jónssyni þar sem hann fór fram á að staðfest yrði riftun á kaupsamningi hans og Páls, dagsettum 12. nóvember 2012, um eitt skákborð, tvö hliðarborð, eitt sett af Staunton-taflmönnum, eina Garde-skákklukku og eitt áritað tréborð, sem beint var til Páls með yfirlýsingu, dagsettri 27. janúar 2022.
Þó fór Siegel fram á að Páll yrði dæmdur til að greiða 189.980 dali (um 25 milljónir kr.) gegn því að munum yrði skilað.
Siegel byggði mál sitt á því að það hefði bæði verið forsenda og ákvörðunarástæða fyrir kaupum hans á mununum af Páli að það tréborð sem Páll seldi honum væri sama skákborðið og notað hefði verið í einvígisskákum Spasskís og Fischers nr. 7-21.
„Framangreindu hafi stefndi lofað með fyrirvaralausum og skýrum yfirlýsingum, ýmist í almennu kynningarefni um munina, yfirlýsingum sem beint hafi verið til stefnanda í aðdraganda viðskiptanna og lýsingu munanna í skjölum sem komu á viðskiptunum og staðfestu. Framangreint sé fullyrt í auglýsingum Bruun Rasmussen um gripina, sem stefndi lýsti yfir að væru þeir sömu og stefndi seldi stefnanda. Því sama hafi stefndi lofað stefnanda í tvígang í þeim tölvupóstum sem stefndi sendi stefnanda í aðdraganda viðskiptanna,“ segir í dómi héraðsdóms sem féll 7. mars.
Sagði kröfuna fallna niður
Páll byggði m.a. á því að krafa Siegel væri fyrnd og að auki fallin niður sökum tómlætis.
„Stefnandi haldi því fram í stefnu að hann hafi ætlað að selja munina í gegnum uppboðshús í Bandaríkjunum í maímánuði 2021, en uppboðshúsið hafi þá komist að því í gegnum Fischersetrið á Íslandi að vísbendingar væru um að áritaða tréborðið væri „mögulega“ ekki það tréborð sem skákir 7–21 í einvíginu hafi verið tefldar á,“ segir í dómi héraðsdóms.
Héraðsdómur segir þó engin gögn fylgja málinu sem staðfesti þessar fullyrðingar, hver eða hverjir fullyrði þetta eða um uppboð þetta að öðru leyti.