Gengi Stefnubreyting í Bandaríkjunum gagnvart stríðinu í Úkraínu hefur leitt til þess að evrópsk ríki telja sig ekki geta reitt sig á stjórnvöld þar í landi.
Gengi Stefnubreyting í Bandaríkjunum gagnvart stríðinu í Úkraínu hefur leitt til þess að evrópsk ríki telja sig ekki geta reitt sig á stjórnvöld þar í landi. — AFP/Saul Loeb
Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka telur að tollastríð sem Donald Trump Bandaríkja forseti heyr nú gegn Kanada, Mexíkó, Kína og fleiri þjóðum sé helsta orsökin fyrir skarpri lækkun dollarsins síðastliðna daga gagnvart helstu gjaldmiðlum heims

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka telur að tollastríð sem Donald Trump Bandaríkja forseti heyr nú gegn Kanada, Mexíkó, Kína og fleiri þjóðum sé helsta orsökin fyrir skarpri lækkun dollarsins síðastliðna daga gagnvart helstu gjaldmiðlum heims. Hann bendir jafnframt á að það séu fleiri þættir sem spili þar inn í.

„Stóra myndin er að dollarinn hefur veikst töluvert á undanförnum dögum, þá sérstaklega gagnvart evrunni, en þessir tveir gjaldmiðlar eru þeir mest notuðu í alþjóðaviðskiptum. Það eru almennar áhyggjur í Bandaríkjunum af gengi dollarans og á sama tíma hefur vaxtamunur á milli dollarsins og evrunnar minnkað þar sem væntingar um vexti í Bandaríkjunum hafa lækkað, þótt vaxtavæntingar þar séu enn talsvert hærri en á evrusvæðinu. Þá hafa vaxtavæntingar í Evrópu hækkað á sama tíma, segir Jón Bjarki í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að á meðan dollarinn sé á niðurleið hafi evran sótt í sig veðrið undanfarna daga. Þá hafi breytt afstaða Trumps gagnvart Evrópu einnig haft sín áhrif á gengisþróunina.

Styrkingu evrunnar megi að miklu leyti rekja til nýrra fjárlaga Þýskalands, þar sem slakað er á skuldaþakinu, sem tengist væntingum í Evrópu um að spýta í lófana í varnarmálum. Þar af leiðandi er búist við meiri fjárútlátum til varnarmála í Evrópu og sést það til dæmis á verði hlutbréfa í evrópskum fyrirtækjum sem tengjast varnarmálum og munu fá sneið af þessari köku. Það er ekki bara þetta tollabrölt Trumps, heldur líka þessi óbeinu áhrif af breyttri utanríkisstefnu hans gagnvart Evrópu,“ útskýrir Jón.

Jón segir að stefnubreyting Bandaríkjamanna gagnvart stríðinu í Úkraínu hafi leitt til þess að evrópsk ríki telji sig ekki geta reitt sig á bandarísk stjórnvöld í sama mæli og áður. arir@mbl.is