Mastrið Turninn ber við flugskýli 4, séð frá göngubrú við Njarðargötuna.
Mastrið Turninn ber við flugskýli 4, séð frá göngubrú við Njarðargötuna. — Ljósmynd/Isavia
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í fyrirspurn frá Isavia innanlandsflugvöllum ehf. um leyfi til að setja upp 30 metra hátt myndavélamastur fyrir fjarstýrðan flugturn á Reykjavíkurflugvelli

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í fyrirspurn frá Isavia innanlandsflugvöllum ehf. um leyfi til að setja upp 30 metra hátt myndavélamastur fyrir fjarstýrðan flugturn á Reykjavíkurflugvelli.

Erindið var upphaflega sent til borgarinnar sumarið 2023 en var tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 27. febrúar síðastliðinn.

Í minnisblaði sem Isavia sendi frá sér vegna vegna samgönguáætlunar fyrir árin 2024 til 2038 kom fram að stefnt væri að uppsetningu á fjarstýrðum flugturni á Reykjavíkurflugvelli.

Í framhaldinu væri svo stefnt að undirbúningi að fjarstýrðum flugturnum fyrir fleiri áætlunarflugvelli á landinu.

Um töluverða fjárfestingu væri að ræða með ljósleiðaravæðingu, fjarstýringu ljósa og uppsetningu myndavéla, masturs o.fl. ásamt sérstöku stjórnherbergi. Var stofnfjárfestingin áætluð um 600 milljónir kr.

Isavia bendir á tvær mögulegar staðsetningar fyrir turninn/mastrið. Eru þær norðan við innanlandsflugstöð Icelandair og flugskýli nr. 4.

Sú staðsetning sem valin verður þurfi að veita bestu mögulegu yfirsýn á Reykjavíkurflugvelli, þ.e. brautir, brautarenda og flughlöð ásamt aðflugs- og brottfararleiðum að öllum brautum.

Víða þróun í þessa átt

Fram kemur í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa að ráðagerð um fjarturn sé í anda þróunar sem hefur átt sér stað á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu á undanförnum árum. Verið sé að nýta sér myndavélar og upplýsingabúnað sem nær 360-gráðu-hring svo fjarstýra megi flugvöllum með fullkomnu öryggi.

Gert er ráð fyrir að framtíðaraðstaða flugumferðarstjóra og stýring flugumferðar verði í Flugstjórnarmiðstöðinni við Nauthólsveg (Isavia ANS) en núverandi flugturn sé mjög illa farinn vegna rakaskemmda og myglu.

„Ekki skulu dregnir í efa kostir slíks útbúnaðar og fyrirkomulags við nútíma flugumferðarstjórn,“ segir verkefnastjórinn.

Hægt verður m.a. að sjá lengra og gleggra í afleitu skyggni með aðstoð hugbúnaðar en hefðbundið gluggaútsýni úr turni býður upp á. Innbyggð í kerfin verður svokölluð persónuverndarskygging eða „maski“ (e. privacy mask) sem hylur nálæga íbúðabyggð og flugumferðarstjóri getur ekki afvirkjað. Þetta muni tryggja friðhelgi einkalífs íbúanna.

Fram kemur hjá verkefnastjóranum að með greinargerðinni fylgi myndir frá mismunandi sjónvinklum til að sýna fyrirferð mastursins í borgarlandslaginu.

Örðugt er að sjá að stærð og umfang mastursins hafi bein neikvæð áhrif á „borgarinnréttinguna“.

Skipulagsfulltrúi segir æskilegt að efna til samkeppni um útlit turnsins innan borgarmyndarinnar, að formgerð eða strúktúr, áferð og jafnvel hóflega upplýst mastrið. t.d. í lit eða litum, gæti aukið umhverfisgæði og bætt ásýnd flugvallarsvæðisins og næsta nágrennis, jafnvel til muna, án þess að skerða rekstrarhæfi og öryggi flugumferðar.

Isavia bendir í fyrirspurn sinni á að hjá London City Airport hafi tækifærið verið gripið og gert umhverfislistaverk úr myndavélamastrinu sem setur svip á næsta umhverfi flugvallarins á nóttu sem degi.

Vinna þarf deiliskipulag

Ekki er gerð skipulagsleg athugasemd við mögulegar staðsetningar mastursins verði það reist á annað borð. Breyta þarf deiliskipulagi með auglýsingu svo koma megi fyrir nýjum afmörkuðum byggingarreit undir mastrið og ákvarða hæðakóta. Vinna þarf tillöguna áfram og farið er fram
á að með henni fylgi full vindafarsgreining á áhrifum mastursins á umhverfi og aðrar aðstæður á flugvellinum sem og fornleifaskráning verði kannaðar.

Vinna þurfi tillögu að deiliskipulagsbreytingu sem verður auglýst berist umsókn.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson