Búkarest Óeirðalögregla þurfti að beita táragasi til að halda aftur af reiðum stuðningsmönnum Georgescus, sem mótmæltu ákvörðun kjörstjórnar á sunnudaginn. Georgescu hefur áfrýjað niðurstöðunni til stjórnlagadómstólsins.
Búkarest Óeirðalögregla þurfti að beita táragasi til að halda aftur af reiðum stuðningsmönnum Georgescus, sem mótmæltu ákvörðun kjörstjórnar á sunnudaginn. Georgescu hefur áfrýjað niðurstöðunni til stjórnlagadómstólsins. — AFP/Daniel Mihailescu
Calin Georgescu, forsetaframbjóðandi í Rúmeníu, tilkynnti í gær að hann hygðist áfrýja niðurstöðu yfirkjörstjórnar landsins, en hún ákvað á sunnudag að Georgescu væri ekki gjaldgengur til þess að bjóða sig fram til forseta í forsetakjörinu í maí

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Calin Georgescu, forsetaframbjóðandi í Rúmeníu, tilkynnti í gær að hann hygðist áfrýja niðurstöðu yfirkjörstjórnar landsins, en hún ákvað á sunnudag að Georgescu væri ekki gjaldgengur til þess að bjóða sig fram til forseta í forsetakjörinu í maí.

Georgescu, sem var þá tiltölulega óþekktur, vann óvænt fyrri umferð forsetakosninga landsins hinn 24. nóvember síðastliðinn, en stjórnlagadómstóll Rúmeníu ógilti þær kosningar á grundvelli leyniþjónustugagna um að Georgescu hefði notið ólöglegs stuðnings frá stjórnvöldum í Rússlandi. Fyrirskipaði dómstóllinn því að endurtaka þyrfti kosningarnar frá grunni, og á fyrri umferð hinna nýju kosninga að fara fram hinn 4. maí næstkomandi.

Stuðningsmenn Georgescus hafa mótmælt reglulega síðan þá, en óeirðir brutust út í Búkarest í fyrrakvöld eftir að niðurstaða kjörstjórnar lá fyrir. Reyndu þeir að brjóta sér leið inn í höfuðstöðvar kjörstjórnarinnar, og þurfti lögregla að beita táragasi til að bægja mannfjöldanum frá.

Grunaður um stórfellt misferli

Vangaveltur hafa verið í Rúmeníu um hvort Georgescu myndi fá að bjóða sig fram á nýjan leik, en hann sætir nú ákæru í sex liðum vegna gruns um að hann vilji kollvarpa stjórnarskrá landsins og að hann hafi tengsl við öfgasinnaða hópa á hægrijaðri rúmenskra stjórnmála. Var Georgescu handtekinn og færður til yfirheyrslu í lok febrúar vegna málsins, en síðan sleppt. Hann þarf hins vegar að gefa sig reglulega fram við yfirvöld og má ekki yfirgefa Rúmeníu.

Georgescu hefur m.a. verið ákærður fyrir yfirlýstan stuðning og samúð með Járnverðinum, fasistahreyfingu í Rúmeníu á millistríðsárunum, en hreyfingin var bönnuð með lögum í kjölfar síðari heimsstyrjaldar vegna stríðsglæpa. Sagði Georgescu t.d. að leiðtogar hreyfingarinnar væru píslarvottar og hetjur, en það stríðir gegn löggjöf Rúmeníu.

Þá var Georgescu ákærður fyrir að hafa brotið alvarlega gegn kosningalöggjöf Rúmeníu, en hann hefur verið sakaður um að hafa þegið umtalsverðar fjárhæðir í formi bæði styrkja og auglýsinga á sama tíma og Georgescu tilkynnti kjörstjórn að hann hefði ekki eytt einni einustu leu í framboð sitt.

21 annar var handtekinn í aðgerðum lögreglunnar vegna Georgescus, og reyndust þeir hafa falið vopn, þar á meðal handsprengjuvörpur, og umtalsverða fjármuni.

Áfrýjað til stjórnlagadómstóls

Yfirkjörstjórn komst að niðurstöðu sinni einkum á grundvelli meintra brota hans á kosningalöggjöfinni, þar sem hún fór yfir þau gögn sem Georgescu sendi um fjármögnun framboðs síns. Sagði kjörstjórnin í yfirlýsingu sinni að gögnin væru ekki fullnægjandi, þar sem tilskildar undirskriftir vantaði. Þá sagði kjörstjórnin að bæði orð og gjörðir Georgescus færu gegn þeim gildum sem forsetaembætti Rúmeníu krefðist.

Niðurstaða yfirkjörstjórnar er ekki enn lagalega bindandi, þar sem Georgescu hefur skotið henni til stjórnlagadómstólsins, og á hann að skera úr um lögmæti framboðs hans á morgun, miðvikudag.

Sérfræðingar í málefnum Rúmeníu segja að það sé ólíklegt að stjórnlagadómstóllinn, sem ógilti kosningarnar í desember, muni leyfa Georgescu að bjóða sig fram á ný. Vísa þeir þar í fordæmi sem dómstóllinn setti í október þegar hann bannaði Díönu Sosoaca, leiðtoga jaðarhægriflokksins SOS, að bjóða sig fram með vísan til þess að yfirlýsingar hennar og framferði brytu gegn þátttöku Rúmeníu í samstarfi vestrænna ríkja, en sú þátttaka er bundin í stjórnarskrá landsins.

Fari svo að framboð Georgescus verði bannað er óvíst hver geti tekið við keflinu af honum sem kyndilberi jaðarhægriflokka, en þar hefur m.a. verið nefndur til sögunnar George Simion, leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins AUR, en Simion hefur veitt Georgescu og framboði hans mikinn stuðning. Simion fordæmdi ákvörðun kjörstjórnar á sunnudaginn og kallaði hana „valdarán“ og „árás“ á lýðræði Rúmeníu“.

Georgescu hefur einnig fengið stuðning að utan. Þannig gagnrýndi auðkýfingurinn Elon Musk ákvörðun stjórnlagadómstólsins í fyrradag, og sagði hana „galna“. Þá hafa óstaðfestar fregnir borist um að Bandaríkjastjórn hafi þrýst á um við Rúmena að Georgescu fái að bjóða sig fram.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson