Vestmannaeyjaferjan Herjólfur siglir nú að nýju í Landeyjahöfn eftir miklar frátafir að undanförnu. Alveg frá 14. febrúar fram til síðastliðins sunnudags, 9. mars, sigldi skipið jafnan frá Eyjum til og frá Þorlákshöfn, þá að jafnaði tvær ferðir á dag. Stundum varð þó að fella niður ferðir ef þungt var í sjó og ölduhæð mikil.
Fyrir helgina kom dýpkunarskipið Álfsnes að Landeyjahöfn og byrjaði að dæla sandi frá hafnarmynninu. Þá strax fór að rofa til og losað var um höft, svo fært var inn í höfnina síðdegis á sunnudag.
„Gerist ekkert óvænt munum við geta siglt héðan frá Eyjum til Landeyjahafnar samkvæmt áætlun næstu mánuði, þótt alltaf geti komið stöku dagar sem fara þarf í Þorlákshöfn. Þetta er allt að koma,“ segir Ólafur Jóhann Borgþórsson framkvæmdastjóri Herjólfs í samtali við Morgunblaðið.
Samkvæmt áætlun siglir Herjólfur milli lands og Eyja sjö sinnum á dag. Yfir sumarið eru ferðirnar átta. sbs@mbl.is