Guðrún Margrét Nielsen Friðriksdóttir fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1934. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Seltjörn Seltjarnarnesi 15. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru Friðrik K. Magnússon heildsali í Reykjavík, fæddur 8. september 1891 í Keflavík, d. 7. ágúst 1971 og Margrét Emilía Þorsteinsdóttir, fædd 4. febrúar 1896 í Reykjavík, d. 20. mars 1984.

Guðrún var yngst fjögurra systkina. Þau voru Magnús, fæddur 26. júlí 1924, d. 5. janúar 2000, Þorsteinn, fæddur 25. júlí 1926, d. 14. janúar 1999 og Rannveig, fædd 13. janúar 1930, d. 16. október 2016. Uppeldissystir Guðrúnar var Oddrún Jörgensdóttir, fædd 7. apríl 1923, d. 5. janúar 2005.

Guðrún giftist Sophusi J. Nielsen, fæddur 18. september 1931 í Reykjavík, d. 29. febrúar 2016, þann 10. september 1955. Foreldrar hans voru Hjörtur Aage Nielsen kaupmaður, fæddur 1898 á Ísafirði, d. 1985 og Marzelína Friðriksdóttir Nielsen húsmóðir frá Brekku í Eyjafirði, fædd 1898, d. 1969.

Börn Sophusar og Guðrúnar eru: 1) Hildur, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, f. 11. júní 1956, gift René Vervoort flugstjóra, f. 6. ágúst 1951, sonur Hildar með Sigurði Geirmundssyni er Hjörtur, f. 1987, börn René og stjúpbörn Hildar eru Kim, f. 1978, David, f. 1980, d. 2019 og Pieter, f. 1989. 2) Hjörtur viðskiptafræðingur, f. 7. apríl 1958, giftur Ástríði S. Jónsdóttur viðskiptafræðingi, f. 23. mars 1961, börn þeirra eru Rúnar, f. 1988, Guðrún, f. 1990 og Tómas, f. 1993. 3) Anna verkfræðingur, f. 3. desember 1960, dætur hennar og Gunnars Þórs Guðmundssonar eru Hildur Margrét, f. 1984, Ólöf Helga, f. 1988, Aldís, f. 1992 og Edda Rún, f. 1994. Barnabarnabörnin eru átján.

Guðrún ólst upp á Vesturgötu 33 í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954 af máladeild. Guðrún var alla tíð ötul við að sækja sér þekkingu á ýmsum sviðum, m.a. tungumálanám, leiðsögunám, tölvuþekkingu o.fl. Hún hóf störf hjá Hjálpartækjabankanum, síðar Össuri 1975 og vann þar fram til 1998. Guðrún tók einnig þátt í ýmsum sjálfboðaliðastörfum fyrir Rauða kross Íslands.

Guðrún og Sophus byggðu sér hús í Skerjafirði árið 1966 og ólu upp sín börn þar, en þegar árin færðust yfir keyptu þau sér lóð í Mosfellsbæ og reistu sér þar einbýlishús fyrir fullorðinsárin. Árið 1955 festu þau sér sumarbústaðalóð við Meðalfellsvatn í Kjós þar sem þau byggðu sumarbústað og ræktuðu mikinn og fallegan skógarreit sem þau sinntu bæði af miklum áhuga.

Guðrún Margrét Nielsen Friðriksdóttir verður jarðsungin frá Neskirkju í dag, 11. mars 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er erfitt að setja í orð þá hlýju og ró sem einkenndu ömmu Gunnu. Hún var alltaf í sama ljúfa skapinu og ávallt með eitthvað ilmandi í ofninum. Hvort sem það voru brauðbollur, innbakaðar pylsur, eplapæ eða mínar uppáhaldsostakökur um jólin, það var alltaf eitthvert nýbakað góðgæti á boðstólum.

Hún hafði einstakt lag á að dunda sér í rólegheitum, hvort sem það var við að gróðursetja blóm í garðinum, taka upp nýjar gulrætur sem hún og afi höfðu ræktað eða baka dásamlegar kræsingar. Hvergi var þó dundað meira en í Kjósinni eða „sumó“ eins og við köllum sumarbústaðinn hjá ömmu og afa. Það var þeirra griðastaður enda voru þau búin að nostra við og rækta þann stað síðan um miðja síðustu öld. Þar var sko ævintýri að vera og algjör forréttindi að fá að njóta góðs af.

Ég sé afa og ömmu fyrir mér rölta saman um lóðina í sumó, pæla í gróðrinum og njóta þess að vera til á sínum sælureit og ég vona innilega að þau séu saman á jafn friðsælum stað núna.

Elsku amma mín,

Hvert sem leiðin þín liggur

um lönd eða höf;

berðu sérhverjum sumar

og sólskin að gjöf.

(Stephan G. Stephansson)

Guðrún Nielsen.

Amma var yndisleg kona. Hún var besta amma sem hægt var að hugsa sér. Hún hugsaði alltaf vel um okkur og var alltaf til staðar þegar eitthvað bjátaði á. Ég gat alltaf leitað til hennar með allt sem lá mér á hjarta.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa verið svona náin henni ömmu Gunnu. Við amma bjuggum saman um tíma, bæði þegar afi var enn á lífi og líka eftir að hún var ein. Á þeim tíma jókst vinskapur okkar og áttum við margar góðar stundir heima hjá henni, sitjandi fyrir framan sjónvarpið að horfa á einhvern góðan sakamála- eða raunveruleikaþátt. Amma var alltaf opin fyrir allri vitleysunni sem mig langaði til að horfa á, þó svo að henni hafi ekki alltaf þótt það skemmtilegt.

Amma stressaði sig ekki of mikið á litlu hlutunum og hún kunni heldur betur að njóta augnabliksins. Hún var þolinmóð, ljúf og með mikla samkennd og lærði ég ótal margt af henni og fyrir það verð ég henni ævinlega þakklát.

Með fagnaðarlátum við hlupum til hennar í spretti.

Og hárlokkum brúsandi vindur inn þyrlaði til.

Og inni var bærinn í brakandi þurrkinum svalur,

því baðstofan geymdi til vetrarins sumarsins yl.

Sá bær er nú hruninn og hópurinn tvístraður víða.

Og horfnir í fjarskann þeir
töfrandi dagar og ár.

Nú kallar hún mamma ekki lengur af hlaðinu heima,

þó hlýtt sé í veðri og þorsti minn brennandi sár.

(Heiðrekur Guðmundsson)

Aldís Gunnarsdóttir.

Elsku besta amma mín, með hlýja brosið og stærstu knúsin hefur kvatt þennan heim. Amma var alltaf til staðar og það var næstum alltaf hægt að ganga að því vísu að ef ég kíkti í heimsókn til ömmu þá fengi ég eitthvert gúmmelaði sem hún var búin að töfra fram. Amma var dugleg að sanka að sér alls kyns mismunandi uppskriftum og var alls ekki föst í sama farinu að elda eða baka alltaf sömu réttina. Hvort sem það var Ina Garten eða Nigella þá var amma alltaf að safna einhverjum nýjum og spennandi uppskriftum til þess að prófa. Ég man eftir tímanum þegar ég var enn í fæðingarorlofi með Pétri og mætti þá í ungbarnasund tvisvar í viku í Mosfellsbæinn. Þá var það orðin iðja okkar ömmu að hittast í kaffi og meððí eftir að tíminn kláraðist og áttum við margar notalegar stundir saman í fallega húsinu sem amma og afi byggðu í Mosfellsbænum. Eins man ég eftir árlegu laufabrauðsgerðinni þegar við fjölskyldan hittumst öll að skera út laufabrauð. Notaleg stund að eiga saman í amstri dagsins er svo nauðsynlegt, að finna sér tíma með sínu besta fólki og hlæja og borða saman. Stundir sem við höfum haldið við eftir að amma fór að veikjast, og munum við passa upp á að halda þessari hefð áfram í minningu ömmu og afa.

Þegar ég hugsa um ömmu þá rifjast upp sumrin í sumarbústaðnum þeirra ömmu og afa við Meðalfellsvatn. Ég sé ömmu fyrir mér í ljósu buxunum og stuttermabol að teygja sig yfir beðin sín að fjarlægja arfann og tína síðan nokkrar bleikar lúpínur í leiðinni til þess að skella í vasa á borðið inni í bústaðnum. Amma að útbúa ljúffengar vöfflur fyrir okkur í bústaðnum, en ekki þessar klassísku íslensku heldur belgískar vöfflur í djúpa vöfflujárninu hennar ömmu. Þegar maturinn var síðan tilbúinn notaði amma bjöllu til þess að kalla í alla að koma í kaffi. Ég man ófáar fjallgöngurnar upp að steini, eða jafnvel hærra, þar sem við ræddum allt á milli himins og jarðar og amma nýtti tímann til þess að kenna mér um allar þær mismunandi plöntur sem finnast á lóðinni þeirra eins og maríustakkur, hundasúra og gleym-mér-ei sem var alltaf fest á peysuna á leiðinni upp. Mikilvægast við fjallgöngurnar var þó að vera alltaf með smá nesti meðferðis. Ég man göngutúra upp brekkuna að sækja tilbúinn rabarbara og rifsber til að baka dýrindis pæ eða bara njóta rabarbarans með fulla skál af sykri í hendi.

Elsku amma mín. Ég þakka þér allar þær góðu stundir sem þú áttir með mér og börnunum mínum og vona að þér líði betur í Draumalandinu þar sem þið afi getið stússað aftur saman í garðinum.

Þín

Ólöf Helga.

Ég hef verið að lesa þá frábæru bók Börn í Reykjavík eftir Guðjón Friðriksson og minnst margs úr minni barnæsku við lestur hennar.

Fáum á ég jafnmikið að þakka úr minni barnæsku og Gunnu. Hún var alltaf til staðar fyrir mig sem var eflaust ekki auðveldasta barn í hennar umhverfi.

Mamma og hún voru vinkonur, bjuggu hvor á sinni hæðinni í Álfheimunum, Gunna flutti inn á undan okkur en við bjuggum á Snorrabrautinni þar til við fluttum í Álfheimana. Ég þurfti að byrja í níu ára bekk í Langholtsskóla að hausti en við fluttum ekki inn fyrr en rétt fyrir jól og átti ég athvarf hjá Gunnu eftir að skóla lauk á daginn og þangað til mamma og pabbi komu eftir vinnu til að bauka í íbúðinni okkar. Hún átti þá Hildi og Hjört en Anna fæddist seinna.

Sumarið eftir, þegar ég varð tíu ára, treysti hún mér fyrir því að fara út með Hjört á morgnana og sumarið þar á eftir var ég lengur með hann í eftirliti og þótti það gaman. Við kynntumst þá öllum róluvöllum hverfisins og barnapíum annarra barna í Heimunum og Vogunum. Hjörtur var mjög meðfærilegt barn og treysti mér og á hann alltaf stað í hjarta mér eins og Gunna sem treysti mér fyrir honum. Einstaka sinnum passaði ég þau systkinin líka á kvöldin og skildi Gunna þá alltaf eftir handa mér eitthvert góðgæti og borgaði mér þar að auki fyrir pössunina. Hún var sérstök, en það var Sófus líka. Hann leyfði mér að fá „jólavinnu“ í ÍSÓL ein jólin við að pakka skrúfum og einhverju þess háttar í litla pakka og borgaði mér laun fyrir. Ekki veit ég hversu mikið gagn ég gerði en það voru nú ekki allir svona heppnir eins og ég.

Síðan liðu árin og barnapíustörfunum fækkaði en alltaf átti ég Gunnu að. Mamma leitaði til hennar þegar þurfti að klippa á mér toppinn því ég var „óhemja“ eftir því sem mamma sagði, en eins og engill þegar Gunna klippti mig, ég vissi að hún myndi ekki klippa of mikið sem mér fannst mamma alltaf gera og var ekki hress með.

Svo þegar ég sótti um að fara sem AFS-skiptinemi til Bandaríkjanna aðstoðaði hún mig við að fylla út umsóknina og varð það eflaust til þess að ég átti lærdómsríkt ár þar úti. Enskan var ekki eins töm á tungu unglinga þá og nú og skipti því miklu máli þessi aðstoð hennar.

Í gegnum tíðina hitti ég Gunnu öðru hvoru í heimsóknum með mömmu og Lilju systur eftir að ég var sjálf komin með heimili. Meðal annars tókum við slátur saman heima hjá Gunnu í Skerjafirðinum snemma á áttunda áratugnum, ég í fyrsta skipti en þær mamma höfðu áður gert það. Það var skemmtileg samvera eins og alltaf. Samskiptum fækkaði smátt og smátt, en mörg eru þau skiptin sem ég hef hugsað til hennar og hennar góðu hæfni og eiginleika.

Nú hefur þessi ljúflingur og eðalkona lokið sinni löngu jarðvist en hún skilur eftir margar og ljúfar minningar og vona ég að börn, tengdabörn og barnabörn og aðrir henni nákomnir láti ljúfar minningar um Gunnu lina sorgina. Sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Hulda Halldórsdóttir.