Karl Blöndal
Mikil spenna og eftirvænting hljóp í þá sem fylgjast með bandaríska körfuboltanum þegar eigandi Dallas Maveriks tók þá óskiljanlegu ákvörðun að selja hinn geðþekka Slóvena Luka Doncic til Los Angeles Lakers. Doncic er sannkallaður galdramaður og gerir alla í kringum sig að betri leikmönnum, þar með talið LeBron James, sem eitt sinn var undrabarn og er ekki minna undur í „ellinni“. Skyndilega var farið að tala um Lakers sem eitt sigurstranglegasta liðið í deildinni.
Um helgina mættu Lakers ríkjandi meisturum, Boston Celtics, í Boston. Mikil tilhlökkun ríkti fyrir leikinn. Miðar í endursölu fóru að meðaltali á 731 dollara (mikil nákvæmni greinilega í þessum fræðum, en það eru 99.174 krónur). Miðar hafa oft verið dýrari á leiki Celtics í úrslitakeppninni, en aldrei á leik á venjulega leiktímabilinu.
Leikurinn stóð undir væntingum. Lið í NBA leika að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum í viku, en greinilegt var að í þessum leik var meira í húfi og hafði Boston á endanum betur.
Þetta eru tvö sigursælustu lið NBA og hefur verið mikill rígur á milli þeirra frá því að Lakers fluttu frá Minneapolis til Los Angeles árið 1960. Alls óvíst er að þessi lið mætist í úrslitum, en tilhugsunin er spennandi.