Sigurður V. Sigurjónsson fæddist 12. október 1944. Hann lést
4. febrúar 2025.

Útför Sigurðar hefur farið fram í kyrrþey.

Látinn er í Reykjavík vinur okkar Sigurður V. Sigurjónsson, Siggi, læknir og húmanisti. Siggi var einstökum gáfum gæddur og áhugamaður um menningu og öll vísindi. Hann var mikill gleðigjafi á röntgendeild Borgarspítalans þar sem hann starfaði lengst af ásamt læriföður sínum og mentor Ásmundi Brekkan. Myndlist lék í höndum hans þar sem hann teiknaði myndir af því skoplega. Ljóð orti hann um árabil. Það voru tilvistarljóð og djúpgrunduð ástarljóð sem hann færði inn í litla rauða bók sem hann dró upp og las úr fyrir vini sína á góðum stundum. Ný þekking um himinhnetti og áður óþekkt fyrirbæri í alheimi var áhugamál hans. Náttúrufræði, sérstaklega jarðfræði, var honum kær og hann þreyttist aldrei á að fræða okkur vini sína þar um, t.d. um hvernig ísaldarjökullinn slípaði og svarf fjöll og dali. Hann bjó að því að vera Skaftfellingur og hafði verið í sveit hjá ættingjum sínum á Svínafelli. Þar sagði hann frá merkum steingervingum og þar kynntist hann Hálfdáni Björnssyni, hinum mikla náttúrufræðingi á Kvískerjum. Ein stórkostlegasta bernskuminning hans var þegar hann ungur drengur sat í Willys-jeppanum með Hálfdáni í þéttum birkiskóginum. Hálfdán gaf þá skyndilega allt í botn, hafði augun á tjátoppunum, ekki á veginum, og keyrði á öllu útopnu yfir holt og hæðir. Loks þegar þessu linnti upplýsti hann að hann hefði verið að elta músarrindil til þess að sjá hvar hann ætti hreiður.

Við fórum menningarreisur að Hala í Suðursveit og að Hnausum í Meðallandi. Á Hnausum sátum við og hlýddum á speki hins blinda einbúa Vilhjálms Eyjólfssonar. Hann kunni sögur af álfum og huldufólki, draugum og skrímslum, sagði frá nútímaeldgosum og eldri og taldi sig hafa fundið mannvistarleifar sem væru yfir 2.000 ára gamlar. Þá sagði hann frá frönskum skipbrotsmönnum og flutti Sigga sögur af forfeðrum hans sem nafnkunnir voru. Sameiginlegt áhugamál Sigga og vinar hans og kollega Valgarðs Egilssonar var túlkun fornsagna. Siggi hafði tekið ástfóstri við Gíslasögu Súrssonar og las mikla speki í ljóðin í sögunni.

Um árabil var Siggi ásamt sameiginlegri vinkonu okkar Margéti Kaldalóns gestur okkar á fögrum sumarkvöldum í sveitinni í sumarbústaðnum á Kiðafelli í Kjós þar sem við dáðumst að litbrigðum himinsins og fegurð sköpunarverksins.

Meðal þess sem hæst ber af öllum þeim eiginleikum sem sameinuðust í persónu Sigga var að hann var mikill dýravinur. Tíkin hans Sigga hét Tinna, var orðin ævagömul, bæði blind og heyrnarlaus og var ekki lengur hæf til að sinna hreinlæti í fínum stofum. En Siggi unni tíkinni og vildi ekki að henni yrði hjálpað yfir móðuna miklu. En þar kom að. En aldrei sást Siggi glaðari og þakklátari en þegar vinir hans buðust til að taka tíkinni gröf í sveitinni og virðuleg athöfn fór fram með prósessíu og yfirsöng og þar hvílir Tinna ásamt heimilistíkinni Kolu, nokkrum skógarþröstum og kisunni Krúsidúlla.

Við vottum öllum aðstandendum okkar innilegustu samúð.

Þorvaldur Friðriksson
og Elísabet Brekkan.