Einfaldar lausnir „[…] uppfærsla Kriðpleirs á Innkaupapokanum er ágætlega heppnuð, full af einföldum lausnum og borin uppi af bernskri nálgun og leikstíl,“ segir rýnir um uppfærslu Kriðpleirs sem sýnd er í Borgarleikhúsinu.
Einfaldar lausnir „[…] uppfærsla Kriðpleirs á Innkaupapokanum er ágætlega heppnuð, full af einföldum lausnum og borin uppi af bernskri nálgun og leikstíl,“ segir rýnir um uppfærslu Kriðpleirs sem sýnd er í Borgarleikhúsinu. — Ljósmynd/Björgvin Sigurðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarleikhúsið Innkaupapokinn ★★★½· Eftir Elísabetu Jökulsdóttur og leikhópinn. Leikstjóri: Bjarni Jónsson og leikhópurinn. Tónlist: Benni Hemm Hemm. Leikmynd og búningar: Ragnheiður Maísól Sturludóttir og Sigrún Hlín Sigurðarsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Leikendur: Árni Vilhjálmsson, Benni Hemm Hemm, Friðgeir Einarsson, Ragnar Ísleifur Bragason, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Saga Garðarsdóttir og Sigrún Hlín Sigurðardóttir. Leikhópurin Kriðpleir frumsýndi á Litla sviði Borgarleikhússins föstudaginn 28. febrúar 2025.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Þegar leikhópur með jafn afgerandi fagurfræði og Kriðpleir kynnir nýtt verkefni er spennan alltaf fólgin í hvað þetta tiltekna stefnumót efnis og nálgunar muni leiða af sér. Það að útkoman verði afgerandi á forsendum þeirra er alltaf gefið. Og það er nánast aukaatriði hvort utan frá séð virðist einhver samhljómur mögulegur. Hvað myndi Kriðpleir gera úr Hamlet? Við Skugga-Svein? Geirfinnsmálið?

Og hvað gerist þegar þeir Kriðpleirsfélagar og þeirra fólk ráðast í að gera sér mat úr enn einum „fundna hlutnum“? Ekki hollensku myndaalbúmi eða dóti úr Góða hirðinum að þessu sinni, heldur leikhandriti sem einn ástsælasti rithöfundur þjóðarinnar er búinn að glíma við að klára, koma á svið eða jafnvel afskrifa í þrjá áratugi?

Útkoman er nokkurs konar tvenna. Tvær leiksýningar í gjörólíkum stíl og formi sem hafa óneitanlega sterk áhrif hvor á aðra.

Í þeirri fyrri er Kriðpleir á heimavelli. Að vandræðast með hversdagslega hluti og sjálf sig. Þar verðum við vitni að fyrstu skrefum við að sviðsetja leikrit Elísabetar, Mundu töfrana. Sem getur samt eiginlega ekki heitið það lengur þar sem Þjóðleikhúsið hefur verið með orðasambandið í stífri notkun við kynningu á öðru verki skáldkonunnar, leikgerð á sjálfsævisögunni Saknaðarilmi.

Sú staðreynd að verkið er vandræðagripur sem er búinn að velkjast milli allra helstu leikhúsa landsins, og fleiri til, árum saman, vekur efasemdir um skynsemina í verkefnavalinu. Fjölskyldutengsl þess sem átti hugmyndina við Elísabetu magnar þær upp og skapar spennu. Endalaus samskiptanúningur og almennt forystu- og glóruleysi ræður för.

Allt er þetta hin besta skemmtun auðvitað, og leikendurnir hver öðrum náttúrulegri við að túlka sjálf sig í þessum ofurraunsæislegu og á köflum afar vandræðalegu aðstæðum. Hér mæðir mest á þeim Ragnari Ísleifi Bragasyni og Friðgeiri Einarssyni, sem valda líka mestum vandræðum með stjórnsemi sinni, sérvisku og viðkvæmni. Fyndið og óþolandi að hætti hússins.

Eins og fyrir kraftaverk, sem eru jú eitt af mikilvægustu innihaldsefnum listsköpunarinnar, sest rykið og egóin jafna sig, og eftir hlé tekur sýning á Mundu töfrana við – eða á Innkaupapokanum, sem er nýtt nafn á hinu margendurskrifaða verki Elísabetar Jökulsdóttur. Hugum aðeins að því verki.

Í leikskránni (sem dreift er í hléi – góð hugmynd) og texta fyrri hluta kemur fram að leikhússtjórar og verkefnavalsnefndir hafi lengi kvartað yfir að Mundu töfrana skorti strúktúr. Hvort það var einhvern tímann réttmæt aðfinnsla er ekki hægt að meta, en hún á alla vega ekki við um þann leiktexta sem hér er fluttur. Innkaupapokinn er skáldlegt og táknþrungið ævintýri fyrir fullorðna, með upphafi, leiðangri og lausn.

Ella (Saga Garðarsdóttir) leggur í leiðangur til að leysa Barnið (Sigrún Hlín Sigurðardóttir) úr prísund frosinnar sorgar sem stendur þroska og þátttöku þess og hennar í lífinu fyrir þrifum, að finna Tárinu (Ragnar Ísleifur Bragason) farveg. Sem tekst að lokum með hjálp frá Töfrakonunni (Ragnheiður Maísól Sturludóttir) og Bróður/Trúði (Árni Vilhjálmsson), og ekki síst fulltrúa hins ógnvekjandi hversdags, sjálfum Innkaupapokanum (Friðgeir Einarsson). Það er satt að segja erfitt að ímynda sér að verkið hafi nokkurn tímann haft aðra byggingu, og þeim sem komu ekki auga á strúktúrinn ætti að setja fyrir að lesa Grimmsævintýri og annað efni af sama toga um allnokkra hríð.

En hvað um það: uppfærsla Kriðpleirs á Innkaupapokanum er ágætlega heppnuð, full af einföldum lausnum og borin uppi af bernskri nálgun og leikstíl. Verður þar ekki á nokkurn hallað þótt morðfyndin og innlifuð frammistaða Friðgeirs í titilhlutverkinu sé lofuð sérstaklega.

Spurningin er bara: lifir Innkaupapokinn, þetta táknsæja, hálfbernska sálarlífsævintýri, af sambýlið við fyrri hlutann, með öllu sínu kaldhæðna ofurraunsæi?

Ekki alveg, verður að segjast. Móttökustöðvar áhorfandans eru illa búnar til að gangast ævintýrinu á hönd eftir innsýnina í hvunndagsraunir og núning leikhópsins, efasemdir meðlimanna um verkið og almennt áhugaleysi um að sýna því nauðsynlegan trúnað. Töluvert af þessari stemningu smitast líka yfir í leikmáta seinni hlutans, og hlátrasköllin eftir hlé komu á stöðum sem bentu til að áhorfendur væru ekki með bernskri sjálfsleitinni í liði. Tryðu ekki á það sem fyrir augu bar. Þannig leið mér líka.

Áhrifin minntu satt að segja talsvert á hina frægu frumsýningu handverksmannanna í Aþenu á harmleiknum um babýlonsku elskendurna Pýramus og Þispu í Jónsmessunæturdraumi Shakespeares. Flókið net ætlunar og væntinga þátttakenda og viðtakenda – innan verks og utan – endar á því að harmleikurinn verður gamanleikur. Einlægnin í sálrænu ævintýri Elísabetar verður fórnarlamb sjálfsafhjúpandi raunsæis Kriðpleirs og missir að hluta til erindi sitt og áhrif. En fær í staðinn slatta af hlátri og skemmtilega innsýn í listrænt ferli í hálfgerðum ógöngum. Líkt og hjá hinum velmeinandi aþensku iðnaðarmönnum.

Og svo er hitt: Þetta er með eindæmum klárt leikhúsfólk. Þau vita hvað þau eru að gera, og hljóta að hafa getað reiknað út að þetta yrðu áhrifin. Og þau eru umtalsverð. Það er mjög gaman. Eftir situr samt óþægileg tilfinning um að það hafi verið á kostnað töfranna.