Varnarviðbúnaður verulega aukinn umræðulaust

Donald Trump forseti Bandaríkjanna er óneitanlega óvenjulegt eintak, hvar og hvernig sem litið er á það. Hann kemur aftur og aftur og skyndilega úr óvenjulegri átt og mörgum verður eins og óviljandi að bregðast illa við, og oftar
en ekki þá uppfullir af hneykslan.

Í því sambandi má nefna skyndilega og óvenjulega stefnu hans í málefnum Grænlands og útskýringar hans á hvers vegna það væri meira en sjálfsagt að hann seildist skyndilega í átt til þessara góðu nágranna okkar og Trumps forseta.

Þeir sem vildu sýna velvild og spá í það, sem sagt hafði verið svo óvænt og upp úr þurru, kusu að bregðast við með opnu hugarfari og töldu til alls konar rök, sem undirstrikuðu að það væru, þegar að væri gáð, margvísleg og skynsamleg rök fyrir því að það væri hugsanlega eðlilegt og reyndar allt að því sjálfsagt að forseti Bandaríkjanna seildist til Grænlands, og lýsti því yfir, eins og ekkert væri sjálfsagðara, að forsetinn hæfi umræður og rök, sem að mati hans sýndu að svo væri, og það áður en hann hefði rætt varlega við talsmenn Grænlendinga og eins talsmenn hins gamla og trausta Natóríkis, Danmerkur, sem hefði sína miklu sögu þar og þýðingarmiklar tengingar að fornu og nýju.

Sumir fræðimenn reifuðu með réttu, hver hefði verið framganga Rússa og handbenda þeirra, sem beittu sér hvarvetna fyrir því að Ísland yrði hluti af þeirri samstöðu.

Á Íslandi voru þá til staðar öfl, sem reyndu að grafa undan því að þetta bandalag yrði að veruleika, og áttu margir náin tengsl
við Sovétríkin og Austur-
Þýskaland. Það hefur flest breyst.

Á móti töldu margir af einlægni að óvenjulegt útspil Svíþjóðar og Finnlands fyrir nokkru og hraðferð þeirra ríkja inn í Nató hefðu verið merki um það, hversu flest ríki á svæðinu teldu að fjarri því væri að aðild að Nató væri orðin þýðingarminni en áður hefði verið talið.

Það sást á fjölda ríkja, sem brugðust hratt við þegar glufa opnaðist að hugsanlegri Natóaðild og sú staðreynd hefði lokað öllum efasemdum um styrk og gagnsemi hernaðarbandalagsins á meðal þjóðanna.

Fáeinum árum fyrr hefðu þáverandi forystumenn Svíþjóðar og Finnlands hneykslast mjög ef einhverjir valdamenn beggja vegna hafs viðruðu slíkar hugmyndir opinberlega, enda töldu margir vinstrimenn enn að þar væri óvarlegt hjal á ferð og beinlínis þjóðhættulegt, ekki síst í kjölfar þess að hið vestræna bandalag hefði „ögrað Rússum“ með stuðningi sínum við inngöngu þriggja ríkja við Eystrasalt í bandalagið.

En í kjölfar þessa breyttust slík sjónarmið og vilji og ákvarðanir valdamanna í Stokkhólmi og Helsinki, sem töldu margir enn algjörlega óhugsandi og reyndar hættulegt snakk „að leika sér að þessum eldi“.

En ekkert bendir þó til þess nú, að gagnrýni á hina óvæntu opnun Donalds Trumps á „Grænlandsumræðunni“ tengist umræðu um aðild eða ekki aðild að Nató.

Rússneskir ráðamenn átta sig á því að Bandaríkin hafa þegar öfluga herstöð á Grænlandi og einhverjir, sem þekktu best til, kynnu að benda á það að bandarísk og íslensk yfirvöld hafa ekki gert neinn ágreining um það að varnarviðbúnaður Bandaríkjanna hér á landi hefur verið aukinn verulega, og engum hefur dottið til hugar að leggja í „Keflavíkurgöngu“ af því tilefni, enda hafi leiðtogar Vinstri-grænna verið sáttir í ríkisstjórn þegar þær ákvarðanir voru teknar, og fóru reyndar þar með forystu.