Úkraínumenn hafa samþykkt tillögu um 30 daga vopnahlé eftir fund bandarískra og úkraínskra stjórnvalda í Sádi-Arabíu í gær. Rússar þurfa þó einnig að samþykkja tillöguna. „Við munum taka þetta tilboð til Rússa og vonumst til að þeir segi já, að þeir segi já við friði

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Úkraínumenn hafa samþykkt tillögu um 30 daga vopnahlé eftir fund bandarískra og úkraínskra stjórnvalda í Sádi-Arabíu í gær. Rússar þurfa þó einnig að samþykkja tillöguna.

„Við munum taka þetta tilboð til Rússa og vonumst til að þeir segi já, að þeir segi já við friði. Boltinn er nú hjá þeim,“ sagði Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í kjölfar fundarins.

Samhliða þessu tilkynntu Bandaríkjamenn að þeir myndu aftur hefja vopnastuðning við Úkraínu og sömuleiðis deila með þeim gögnum sem bandarískar leyniþjónustur hafa aflað.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir í samtali við Morgunblaðið að um sé að ræða jákvætt skref sem vonandi leiði til langvarandi og réttláts friðar fyrir Úkraínumenn.

„Það er enn langur vegur að því, en það sem er líka mikilvægt er að Bandaríkin ætla að halda áfram að styðja Úkraínu,“ segir hún en bætir við:

„Nú er boltinn hjá Rússum. Það eru þeir sem eru árásaraðilinn og það er þeirra að koma til móts og svara þessu. Þannig það er gott að sjá að þrýstingurinn er kominn þangað,“ segir Þorgerður.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti þakkaði í gærkvöldi Trump fyrir „jákvæða“ vopnahléstillögu og sagði að Bandaríkin yrðu nú að vinna að því að sannfæra Rússa.

„Bandaríska hliðin skilur nú rök okkar, skynjar tillögur okkar og ég vil þakka Trump forseta fyrir uppbyggilegar samræður milli teymanna okkar,“ sagði Selenskí í kvöldávarpi sínu í gær. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði við blaðamenn í gær að hann væri tilbúinn að taka aftur á móti Selenskí í Hvíta húsið og að hann myndi mögulega ræða við Vladimír Pútín Rússlandsforseta í þessari viku.

Viðræður

Úkraínumenn fallast á tillögu um 30 daga vopnahlé.

Rússar eiga eftir að samþykkja tillöguna.

Bandaríkin hefja á ný stuðning við Úkraínu.

Fleiri fundir eru fram undan til að ná vopnahléi og friði.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson