Uppsteypa á lyftu- og stigahúsi er komin á skrið. Áformað er að búið verði að steypa upp húsið í sumar.
Uppsteypa á lyftu- og stigahúsi er komin á skrið. Áformað er að búið verði að steypa upp húsið í sumar. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það styttist í að hótelturn Radisson Red við Skúlagötu verði tekinn í notkun en endanleg tímasetning liggur ekki fyrir. Uppsteypu miðar vel og er nú verið að steypa fimmtu hæðina. Hótelturninn er með steyptum kjallara og steyptu lyftu- og stigahúsi

Það styttist í að hótelturn Radisson Red við Skúlagötu verði tekinn í notkun en endanleg tímasetning liggur ekki fyrir. Uppsteypu miðar vel og er nú verið að steypa fimmtu hæðina.

Hótelturninn er með steyptum kjallara og steyptu lyftu- og stigahúsi. Utan um það verður raðað stáleiningum sem eru forsmíðaðar í Póllandi. Ljúka á uppsteypu í sumar.

Með 211 herbergjum

Í síðustu viku var byrjað að setja upp stóran byggingarkrana en jafnframt verður sett upp lyfta í stigahúsinu á næstu vikum. Hótelið verður 17 hæðir með 211 herbergjum auk tveggja hæða kjallara sem verður að hluta nýttur sem bílastæðahús.

Gert er ráð fyrir að fyrstu forsmíðuðu einingarnar komi til landsins um mánaðamótin apríl og maí. Síðan hefst uppsetning á einingunum en hver eining er í raun nær fullbúið hótelrými. Þannig þarf til dæmis aðeins að setja teppi, rúm og smærri hluti inn í tilbúin herbergin sem eru með fullbúnu baðherbergi. Tekið verður mið af veðurfari við uppsetningu eininganna en hvassviðri getur sett strik í reikninginn.

Koma sjóleiðina

Einingarnar koma sjóleiðina til landsins. Þær verða settar upp í áföngum, fyrst hæðir 1 til 3 og svo hæðir 4 til 6 og svo framvegis, alla leiðina upp á 17. hæð. Utan á einingarnar raðast gler, eða öllu heldur forsmíðaðir útveggir, og er áformað að hefja uppsetninguna síðsumars.

Vinna við innanhússfrágang er þegar hafin í kjallara. Þegar búið er að loka efri hæðum í áföngum hefst innivinna. Þarf því aðeins að setja upp raflagnir og vatnsúðara á göngum, auk lóðréttra lagna. Þessi forvinna, sem fram fer í Póllandi, styttir byggingartímann enda hægt að vinna verkþætti samhliða.

Jafnframt er skortur á vinnuafli á Íslandi þar með ekki vandamál.

Hótelbyggingin verður um 9.500 fermetrar en kostnaður við verkefnið er trúnaðarmál. Hins vegar fékkst staðfest að kostnaður á fermetra sé að jafnaði lægri en ef húsið væri að öllu leyti byggt á staðnum.

Með veitingastað

Samhliða uppbyggingu hótelsins er sami verktaki, Rauðsvík, að leggja lokahönd á 34 íbúðir á Skúlagötu 30 sem verða með gistileyfi í flokki 2, sem sagt hótelíbúðir. Hugmyndin er að hafa veitingastað, verslun eða þjónustu á jarðhæð þeirrar byggingar sem styðji við gistiþjónustuna og nærliggjandi svæði, fyrirtæki og heimili. Sömuleiðis á þessi þjónusta að gagnast gestum hótelsins en þar verður veitingahús og bar fyrir gesti hótelíbúðanna.

Undir hótelinu og íbúðunum verður bílakjallari með 51 bílastæði. Þá er fjöldi stæða í bílastæðahúsum á svæðinu til viðbótar.

Verkefnið sætir tíðindum á íslenskum byggingarmarkaði enda er þetta að líkindum fyrsti stálturninn sem rís á Íslandi.

Hannar burðarvirkið

Einar Þór Ingólfsson, verkfræðingur í Danmörku, er hönnuður burðarvirkisins en hann er meðeigandi KI verkfræðistofu í Kaupmannahöfn, eða KI Rådgivende Ingeniører. Stendur KI fyrir eftirnöfn stofnendanna, þeirra Jørgens Krabbenhøfts og Einars Þórs Ingólfssonar.

Kettle Collective, arkitektastofa skoska arkitektsins Tonys Kettles, hannar hótelið en fram kom í samtali við Kettle í Morgunblaðinu í ársbyrjun 2020 að skapa ætti nýtt kennileiti í borginni.

Á 17. hæð hótelsins verður bar með útsýni yfir miðborgina og sundin og fyrir ofan hann verður útsýnisverönd á þakinu. Við hlið hennar, á þaki 17. hæðar, verður tæknirými og er hugmyndin að skilja það að frá veröndinni með súlum. Það er liður í að gera bygginguna að kennileiti.

Hófst árið 2018

Verkefnið hófst árið 2018 með niðurrifi eldri bygginga en síðan hefur ferðaþjónustan gengið í gegnum hæðir og lægðir; gjaldþrot WOW air, kyrrsetningu MAX Boeing-þotna Icelandair og farsótt. Verkefnið var sett á ís vegna farsóttarinnar en stefnt var að opnun hótelsins fyrir árslok 2021.

Hótelturninn verður að óbreyttu síðasta háhýsið við Skúlagötu sem er tíu hæðir eða hærra, en sú uppbygging hófst á 9. áratugnum.