Franski ljósmyndarinn Sophie Ristelhueber hlýtur hin virtu Hasselblad-verðlaun í ár. Þau eru árlega veitt ljósmyndara sem hefur haft víðtæk áhrif og nemur verðlaunaféð tveimur milljónum sænskra króna, jafnvirði tæplega 26,9 milljóna íslenska króna. Að auki hlýtur Ristelhueber gullmedalíu og myndavél frá Hasselblad. Það er Hasselblad-stofnunin sem veitir verðlaunin og fer athöfnin fram í Hasselblad-miðstöðinni í Gautaborg 11. október. Sama dag verður þar opnuð sýning á verkum Ristelhuebers sem stendur til 18. janúar 2026.
Á vef stofnunarinnar kemur fram að Sophie Ristelhueber sé fædd og uppalin í París. Hún hóf feril sinn sem ljósmyndari í upphafi níunda áratugar síðustu aldar og er þekktust fyrir að mynda áhrif stríðsátaka á bæði manneskjur og umhverfið. Ljósmyndir hennar hafa verið sýndar m.a. í Tate Modern í London og Ríkislistasafninu í Kanada. Eitt þekktasta verk hennar er „Fiat“ sem fjallar um Persaflóastríðið árið 1991. silja@mbl.is