[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvers virði er endurhæfing öldruðum? Það hefur sannað sig að hún er mjög mikilvæg og þarf að vera reglubundin.

Berglind Anna Aradóttir

Í byrjun árs 2019 stofnaði Vigdísarholt ehf. hjúkrunarheimilið Seltjörn á Seltjarnarnesi. Skömmu síðar samþykkti bæjarfélagið rekstur dagdvalar fyrir níu einstaklinga og seinna 15 rými í viðbót fyrir einstaklinga með minnisskerðingu. Fyrst gekk erfiðlega að fullnýta þau en þá vaknaði sú hugmynd að nýta hluta þeirra í endurhæfingu. Erindinu var vel tekið af Sjúkratryggingum Íslands og í dag eru hér átta dagdvalarrými með endurhæfingu.

Hvernig hefur endurhæfing nýst þér?

Adolf Bjarnason: „Ég er með lömun í fæti, slit í öxl, brjósklos og hjartavandamál. Hreyfing er mér mjög nauðsynleg, ef ég slaka á og mæti ekki í einhvern tíma þá tek ég eftir því að ég missi strax niður þrek og úthald. Það er mér mjög mikilvægt að komast í tækjasalinn og fá stuðning við að gera æfingar og hvatningu. Það hefur sannað sig að jafnvægisæfingar skila miklu. Þegar ég byrjaði þurfti ég að halda mér í en í dag þarf ég þess ekki. Ég nota öll tækin, sem duga mér. Plássið er takmarkað en vel nýtt og skipulagt. Það er líka gott að geta farið í stólaleikfimi og jóga, þau sem sjá um það hvetja en passa að maður fari ekki fram úr sér. Að fá þennan stuðning styður við að ég geti verið lengur heima. Það er mikilvægt að áherslan á þjónustu við aldraða snúist um aukna hreyfingu og aðgang að henni og fræðslu um ýmis mál, svo sem næringu.“

Katrín Jóhannsdóttir: „Ég fékk krabbamein og meðferðirnar tengdar því fóru mjög illa með mig. Ég komst ekki á milli stóla. Að komast í dagdvöl með áherslu á endurhæfingu hefur hreinlega bjargað lífi mínu. Ég heyrði af Seltjörn í gegnum vinkonu mína sem var þar og hún talaði um tækjasalinn. Ég var fyrst mjög spennt. Þegar kom að því að taka skrefið var ég þó hikandi, en tók skrefið. Strax eftir tvær eða þrjár vikur tókum við börnin mín eftir að ég hafði styrkst. Í dag geri ég meira og minna allt sjálf; skipti á rúminu, fæ fólkið mitt í mat og get gert það sem mig langar til. Enda nýti ég mér þann stuðning sem hægt er að fá. Það skemmir ekki að maturinn er góður. Einnig er svo gott að fara í göngutúra, fá hvatninguna og hafa aðra með sér. Það skiptir miklu máli að vera virkur og taka þátt í samfélaginu. Það er nauðsynlegt að fylgjast með því sem er að gerast í samfélaginu og geta átt innihaldsríkar samræður við umhverfi sitt. Það er líka svo gott að geta hitt vinkonurnar og farið á kaffihús. Ég er hætt að geta lesið eins mikið og ég gerði en í staðinn hlusta ég mikið á bækur. Ég var hætt að fara til útlanda því ég átti erfitt með gang. Eftir smá tíma gat ég gengið mun meira, var öruggari með mig og skellti mér til útlanda með fjölskyldunni. Þar gat ég gengið um og notið og meira að segja gengið upp á 3. hæð. Þetta hefði ég ekki getað nema hafa fengið endurhæfingu, stuðning og hvatningu. Nú treysti ég mér mun meira en ég gerði áður, er öruggari með mig og mína getu. Það þarf að leggja meiri áherslu á endurhæfingu. Það þarf að hvetja eldra fólk til að hreyfa sig og gera markvissar æfingar. Það er gott að taka á án þess að maður verði uppgefinn. Það þarf að koma því út í samfélagið að hreyfing og gott mataræði er númer 1, 2 og 3.“

Það er nauðsynlegt að spyrja hvað endurhæfing er og hvers er vænst af þátttakandanum. Það má ekki setja markið of hátt né láta viðkomandi líða eins og hann valdi vonbrigðum nái hann ekki settu marki. Væntingastjórnun er því lykilatriði. Endurhæfing getur snúist um að viðhalda heilsu án þess að ná alltaf framförum. Það er göfugt markmið og nóg í sjálfu sér. Hjá okkur snýst dagdvölin/endurhæfingin um að grípa fólk þar sem það er statt og finna æfingar við hæfi. Styrkja viðkomandi líkamlega og andlega til að finna sinn takt í að bæta sig og líðan sína. Fólk styrkist ekki aðeins líkamlega heldur einnig andlega. Án sjálfstrausts gerum við almennt ekki mikið. Fólk með virka sjúkdóma sem hafa neikvæð áhrif á það á eðlilega erfiðara með að takast á við endurhæfingu. Taka þarf mið af því sem manneskjan hefur gengið í gegnum og styrkja hana til að treysta sjálfri sér.

Þegar formlegri endurhæfingu lýkur þarf eftirfylgni til að viðhalda því sem hefur áunnist, því lítið þarf til að aldraðir missi þrek og úthald. Við hvetjum okkar fólk til að halda æfingunum áfram og fylgjumst vel með öllum í tækjasalnum. Styrkjum þeirra markmið, við erum jú eins og lítil fjölskylda.

Þessi rými hafa reynst vel og er um mjög hagkvæman rekstur að ræða, það þurfa ekki allir innlögn. Hér hefur sýnt sig og sannað að öldruðum er viðbjargandi. Það þarf að horfa jákvætt á öldrun, sjá tækifærin. Endurhæfing aldraðra er langhlaup, ekki spretthlaup. Fræðsla er mjög mikilvæg fyrir þennan aldurshóp; um sjúkdóma, líferni og ekki veitti af sjálfstyrkingu. Hjálpa þessum hópi að vinna úr áföllum og sorg. Farsæl öldrunarþjónusta snýst um að sinna fólki heildstætt þar sem það er statt en ekki á ímynduðum fallegum stað sem samfélagið ákveður.

Höfundur er forstöðumaður dagdeildar Seltjarnar.

Höf.: Berglind Anna Aradóttir