Valur Steinn Þorvaldsson sendir góða kveðju í tilefni af vísu til Böðvars Tómassonar sem birtist í Vísnahorninu í gær, en þegar henni var gaukað að umsjónarmanni var hún sögð eftir séra Helga Sveinsson

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Valur Steinn Þorvaldsson sendir góða kveðju í tilefni af vísu til Böðvars Tómassonar sem birtist í Vísnahorninu í gær, en þegar henni var gaukað að umsjónarmanni var hún sögð eftir séra Helga Sveinsson.

Í minningarorðum um Böðvar er m.a. sagt frá „markaði á kúm“ sem Böðvar stofnaði eitt sinn til, og að þessi markaður hafi orðið Sigurði Heiðdal (1884-1972) tilefni að vísu í orðastað Böðvars:

Ég kom, ég sá, ég sigraði,

samdi um kaup og borgaði,

sneri mér við og snarseldi

snuðaði engan – stórgræddi.

Þegar ég kynntist Stokkseyringum og lærði þessa vísu í munnmælum fyrir rúmlega hálfri öld var hún svona:

Kom og sá og sigraði

samdi um kaup og borgaði

snéri mér við og snarseldi

snuðaði engan en stórgræddi.

Nú veit ég ekki meira um þetta mál en hér er fram komið og ætla mér alls ekki að gerast dómari í þessu máli. Hins vegar er mikilvægt að hafa jafnan það er sannast reynist og því upplýsi ég um þetta hér. Hafið kærar þakkir fyrir Vísnahornið.“

Hafi Valur þökk fyrir góða ábendingu. Vísan er birt nafnlaus í Tímanum í september 1951, en fylgir sögunni að þessar tvær stökur til Böðvars séu frá sama manni:

Löngum var þér létt um vik

og lézt þig ekkert skorða.

Það voru aldrei þankastrik

þinna á milli orða.

Margra hefurðu götu greitt

og gjarna leyst úr vanda,

margan hýst og mörgum veitt,

og margan hresst í anda.

Þættinum barst kveðja frá Ingólfi Ómari Ármannssyni, þar sem hann slær á létta strengi og yrkir um bjartar veigar eða öllu heldur guðaveigar.

Gleymast þrætur stapp og streð

stöðugt bætir fasið.

Eykur kæti örvar geð

að eiga vætu á glasið.

Að síðustu var Bjarni Jónsson á ferð í Hvalfirði og varð hugsað til Hallgríms og Sveinbjörns:

Lýsir upp lognkyrran fjörð

loforð um betri jörð.

Um þjáningu og þakkargjörð

þar stóðu skáldin vörð.