Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hefur fengið í fangið erfið málefni ÍL-sjóðs.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hefur fengið í fangið erfið málefni ÍL-sjóðs. — Morgunblaðið/Kristófer Liljar
Viðræðunefnd fjármála- og efnahagsráðherra og ráðgjafar 18 lífeyrissjóða hafa mótað tillögur um uppgjör HFF-bréfa sem greiða mun fyrir slitum ÍL-sjóðs (áður Íbúðalánasjóðs). Ríkissjóður er ábyrgðaraðili sjóðsins

Viðræðunefnd fjármála- og efnahagsráðherra og ráðgjafar 18 lífeyrissjóða hafa mótað tillögur um uppgjör HFF-bréfa sem greiða mun fyrir slitum ÍL-sjóðs (áður Íbúðalánasjóðs). Ríkissjóður er ábyrgðaraðili sjóðsins. Kröfur samkvæmt HFF-bréfum eru í uppgjörinu metnar á 651,4 milljarða króna.

Áhugavert er að sjá í viðtali við sviðsstjóra áhættu- og fjárstýringarsviðs Íbúðalánasjóðs frá árinu 2004, þegar markaðsaðilar höfðu ítrekað bent á áhættu í rekstri sjóðsins og lýst yfir töluverðum áhyggjum af framtíð hans, að þá fullyrðir sviðsstjórinn að engin hætta sé á ferðum. Haft er eftir honum að: „Menn sem gagnrýna sjóðinn mest virðast ekki hafa kynnt sér til hlítar uppbyggingu og verklag hans.“

ViðskiptaMogginn leitaði til Gunnars Arnar Erlingssonar, skuldabréfamiðlara hjá Arion banka, sem nefnir að sennilega sé þessi tillaga að uppgjöri nú ekki eins og ríkissjóður hafi lagt upp með í upphafi. Samkomulagið myndi almennt þýða fyrir ríkissjóð að skuldahlutföll ættu að batna um 5% af landsframleiðslu og ríkisábyrgðir lækka um 88%. Þetta tvennt gæti leitt til hækkunar lánshæfiseinkunnar Íslands.

ViðskiptaMogginn leitaði jafnframt til Jóns Bjarka Bentssonar aðalhagfræðings Íslandsbanka sem nefnir: „Verði tillagan samþykkt er stórum óvissuþætti um bæði fjárhag ríkissjóðs sem og eignasafn lífeyrissjóðanna eytt. Það held ég að hljóti að teljast jákvætt.“

Hann heldur áfram og segir: „Tillagan nú er talsvert hagfelldari fyrir lífeyrissjóðina en þær hugmyndir sem upphaflega voru viðraðar, enda hafa málsvarar sjóðanna almennt slegið jákvæðan tón í sínum viðbrögðum. Það eru góðar fréttir fyrir lífeyrisþega á komandi árum í samanburði við upphaflegt upplegg en kannski ekki eins jákvæðar fyrir skattgreiðendur. Miðað við upprunalegu tillöguna má því segja að þarna sé heldur meira að koma í hlut eldri kynslóða á kostnað þeirra yngri. Á móti má benda á að það er líka ákveðið virði fólgið í því að líklega er búið að leysa þetta mál án þess að til beinna þvingandi aðgerða hafi komið á milli þessara aðila, þ.e. ríkisins og lífeyrissjóðanna, með líkum á tilheyrandi eftirmálum fyrir dómstólum.“

Viðbrögð á markaði hafa til þessa verið hófstillt og bera þess ekki merki að markaðsaðilar á skuldabréfamarkaði búist við verulegum breytingum á framboði bréfa á næstunni vegna þessa. Áhrifin á útgáfu ríkissjóðs á markaði ættu að vera takmörkuð

Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans eru það einkum fjórir sjóðir undir handleiðslu Gildis sem leiða samningaviðræðurnar en hinir lífeyrissjóðirnir fylgi einfaldlega í taumi.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir