Jóna Katrín Guðnadóttir fæddist í Háa-Rima í Þykkvabæ 23. desember 1929. Hún lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Lundi á Hellu 3. mars 2025.
Foreldrar hennar voru Guðni Sigurðsson frá Þúfu í Landeyjum og Pálína Kristín Jónsdóttir frá Unhól í Þykkvabæ. Systkini Jónu Katrínar eru: Guðrún, Sigríður Fanney, Sigurður, d. 2016, og Guðjón, d. 2022.
Eiginmaður Jónu Katrínar var Sigvaldi Ármannsson, f. 28. ágúst 1928, d. 26. júní 2016. Börn Jónu Katrínar og Sigvalda eru: 1) Dagný, sonur hennar er Eyþór Jónsson. 2) Guðni, eiginkona Sigrún Þorsteinsdóttir. Börn þeirra eru: Jóna Katrín, María Berg, Tryggvi Rúnar og Arnar Leó. 3) Sigurjóna, sambýlismaður er Emil Ragnarsson, börn þeirra eru: Sigvaldi Þorbjörn, Helgi Sævar, d. 1984, Kristín Björk, Ásgeir Örn, Ragnar Þór og Helga Rún. 4) Margrét Árdís, gift Óskari Eyberg Aðalsteinssyni, börn þeirra eru: Þórða Berg, Sigurjón Daði, d. 2008, og Ásta Kristín. 5) Ármann, d. 2011. 6) Guðfinna Björk, gift Erlendi Reyni Guðjónssyni, börn þeirra eru: Jóna Kristín, Dagný Lind og Valdís Eva. Barnabarnabörn Jónu Katrínar eru 17.
Jóna Katrín vann alla tíð við landbúnaðarstörf og var húsmóðir í Borgartúni. Hún greip í vinnu á saumastofu í Þykkvabænum og var í vist eitt ár. Hún gekk í Barnaskólann í Djúpárhreppi en skólagöngunni lauk þegar hún var 12 ára.
Útför Jónu Katrínar fer fram frá Þykkvabæjarkirkju í dag, 12. mars 2025, og hefst athöfnin kl. 13.
Í dag er við systkinin kveðjum mömmu langar okkur til að minnast hennar með nokkrum orðum.
Uppvaxtarár mömmu einkenndust af vinnu við bústörf og heimilisstörf. Frá blautu barnsbeini hlífði hún sér ekki við vinnu og tók þátt í störfum sem til féllu í Háa-Rima. Faðir hennar smíðaði handa henni litla hrífu svo hún gæti strax farið að gera gagn í heyskap. Mestar mætur hafði mamma á kindunum, þær þekkti hún á svipnum og lömbin auðvitað líka. Af inniverkum þótti mömmu skemmtilegast að sauma á saumavél. Hún saumaði á okkur systkinin og fyrir jólin sat hún við saumavélina langt fram á nótt. Mamma lagði mikið upp úr því að öll verk væru vel unnin hvort sem það var að sauma, baka kökur, skúra eða hirða í kringum skepnur, allt skyldi unnið af alúð.
Mamma gekk í barnaskóla en skólagöngunni lauk þegar hún var 12 ára. Hana langaði til að verða hjúkrunarkona en fannst það fjarlægur draumur sem ekki væri hægt að fara fram á. Mamma vann á saumastofu sem sett var á laggirnar í Þykkvabænum og fór í vist til Reykjavíkur einn vetur. Hún vann einnig í mötuneyti sláturhússins í seinni tíð. Félagslíf á ungdómsárum hennar var fábrotið en stundum var farið á sveitaball. Þá var farið með litlum vörubíl og setið á bekkjum sem voru settir á pallinn. Þetta var mikil skemmtun og var dansað við harmonikku. Árið 1953 giftu mamma og pabbi sig, eignuðust frumburðinn, keyptu Borgartúnið og hófu búskap með þrjár kýr, nokkrar kindur og ræktuðu kartöflur. Mamma sá m.a. alla tíð um kýrnar og var afar lagin við þær, hún skynjaði vel hvernig þeim leið og lagði mikla áherslu á að fjósið væri hreint. Byggingarnar í Borgartúni voru gamlar og þurfti því að byggja allt upp og rækta landið. Það gerðu mamma og pabbi með myndarbrag. Börnunum fjölgaði hratt og voru orðin fimm árið 1963. Þrengslin í gamla bænum voru svo mikil að taka þurfti upp svefnstað elstu barnanna yfir daginn. Það var því mikil bylting að flytja í nýja húsið 1964. En þar bættist við sjötta barnið og seinna Eyþór sonur Dagnýjar sem ólst upp í Borgartúni.
Gestrisni mömmu var mikil og oft sátu margir við eldhúsborðið, þar var spjallað og oft hlegið dátt. Eldhúsborðið var fyllt af kræsingum sem mamma hafði útbúið því enginn skyldi fara með tóman maga frá Borgartúni. Áhugamál mömmu sneru einkum að handavinnu en einnig horfði hún á uppáhaldsþætti í sjónvarpi og hafði gaman af íslenskri tónlist. Hún var í kvenfélaginu Sigurvon í áratugi og ferðaðist með eldri borgurum í Rangárþingi. Þegar heilsunni fór verulega að hraka og erfiðara var að búa í Borgartúni flutti mamma á Lund á Hellu í janúar 2021. Þar leið henni vel og þar var hugsað afar vel um hana.
Með mömmu hverfur nægjusöm og nýtin kona sem vann hörðum höndum, frá blautu barnsbeini, hún var afkastamikil, vandvirk og næm fyrir líðan bæði dýra og síns fólks. Hún hlífði sjálfri sér ekki þrátt fyrir vinnulúinn líkama og var einstaklega dugleg allt þar til yfir lauk er hún kvaddi okkur södd lífdaga 3. mars.
Takk fyrir allt elsku mamma.
Dagný, Guðni, Sigurjóna, Margrét og Guðfinna.
Þegar við hugsum um ömmu Jónu skjóta ótal minningar upp kollinum og – engum að óvörum sem til okkar þekkja – tengjast margar þeirra mat. Þegar við heimsóttum ömmu og afa í Borgartúni var oft eins og við værum mættar í fermingarveislu. Það jafnaðist ekkert á við að fá fyrirfram rúllaðar og vel sykraðar pönnukökur beint upp úr stóru ísboxi, hvítt samlokubrauð með baunasalati og alls konar kökur. Svo var ómissandi hefð að fara þegar veður leyfði og heimsækja þig á afmælisdaginn, Þorláksmessu. Yfirleitt var margt um manninn og þá settumst við inn í stofu með heitt súkkulaði og troðfulla kökudiska og lögðum diskamottur undir, eitthvað sem bara ömmur og afar eiga.
Það var alltaf hlýtt og notalegt í Borgartúni og hvergi var auðveldara að sofna en í stofusófanum, enda hafa nánast allir í ættinni sofnað þar minnst einu sinni. Þar sátum við systurnar margoft með blöð, skapalón og tréliti og teiknuðum og lituðum tímunum saman. Við fengum líka oft að sitja þar og horfa á Tomma og Jenna eða Mr. Bean á spólu. Það var bara svo gott að vera barn heima hjá ömmu, þar var ró og næði og alltaf eitthvert gotterí í boði.
Þú varst alltaf boðin og búin að hjálpa okkur, sérstaklega við handavinnu. Einhvern tímann varst þú fengin til að setja upp fyrir okkur púða úr krosssaumi sem við höfðum saumað. Að sjálfsögðu var eins og við hefðum farið með strigann til atvinnusaumakonu, enda var allt sem þú gerðir óaðfinnanlegt, hvort sem það var prjóna- og saumaskapur, eldamennska eða bakstur. Þú hefðir samt aldrei hrósað sjálfri þér fyrir það, enda hógvær með eindæmum.
Eitt það eftirminnilegasta við þig var hláturinn þinn, þú skelltir upp úr á svo skemmtilegan hátt og var þetta ekta ömmuhlátur. Það var erfitt að ímynda sér að aðrar ömmur væru öðruvísi en þú, því þú varst mesta amma sem til var. Gat það verið að aðrar ömmur væru ekki hnellnar, með grátt hár og permanent? Að þær ættu ekki símabekk, gengju ekki við staf og laumuðu ekki að manni heilum fimmþúsundkalli til þess að „kaupa bland í poka“?
Það er svo merkilegt hvað þú varst minnug, og þú varst ábyggilega miklu klárari en þú leyfðir þér að halda. Þú mundir eftir afmælisdögum allra barna, barnabarna og barnabarnabarnanna þinna nánast alla tíð. Þú fékkst ekki besta stoðkerfið í vöggugjöf, en líklega hafa fáir fengið jafn öflugan heila og þú. Okkur Vættaborgafjölskyldunni varð að minnsta kosti tíðrætt um það hvað þú værir ótrúlega skýr.
Eftir að þú fluttir á Lund fór minnið smátt og smátt að gefa sig, sem var erfitt að horfa upp á. Það skipti samt ekki máli þó að þú værir ekki með öll nöfn á hreinu, þú varst alltaf glöð að hitta fólkið þitt og ömmuknúsin voru ennþá jafn innileg og áður. Þú varst með stórt hjarta og vildir okkur alltaf það besta. Við munum alltaf sakna þín en huggum okkur við tilhugsunina um að nú sértu loksins komin til afa, Ármanns frænda og allra hinna sem eru farnir á undan, að þú finnir ekkert til og hvílir í friði.
Þín barnabörn,
Jóna Kristín Erlendsdóttir, Dagný Lind Erlendsdóttir og Valdís Eva Erlendsdóttir.
Elsku amma, með örfáum orðum langar mig til að minnast þín og þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Hjá þér og afa var öryggi og skjól. Það var alltaf margt um manninn í Borgartúni og þar fékk ég tækifæri til að leika við frændsystkini mín sem komu oft í heimsókn. Maturinn hjá þér var svo góður og alltaf regla á öllum matmálstímum og heimilishaldi. Þú varst alltaf dugleg þrátt fyrir að hafa ekki góða líkamlega heilsu. Þú varst góð fyrirmynd, amma mín. Takk fyrir allt sem þú kenndir mér og gerðir fyrir mig.
Sofðu rótt elsku amma. Þinn,
Eyþór.
Umhyggju og ástúð þína
okkur veittir hverja stund.
Ætíð gastu öðrum gefið
yl frá þinni hlýju lund.
Gáfur prýddu fagurt hjarta,
gleðin bjó í hreinni sál.
Í orði og verki að vera sannur
var þitt dýpsta hjartans mál.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Elsku amma, við systkinin í Borgartúni kveðjum ættmóður með þökk í hjarta fyrir alla umhyggjuna, vináttuna, ástina og hlýjuna sem þú veittir okkur í öll þessi ár. Við vorum afar lánsöm að fá að hafa þig hjá okkur svo lengi, að eiga ömmu sína að langt fram á fullorðinsár er afar dýrmætt.
Bernska okkar litaðist af því að hafa þig og afa á næsta bæ í göngufæri og voru heimsóknir okkar til ykkar ansi margar. Alltaf var tekið vel á móti okkur þegar eitthvert okkar systkinanna komum í heimsókn, tími gefinn í spjall og iðulega var dekrað við okkur með ýmiss konar kræsingum og bakkelsi sem dregið var fram úr búrinu. Þú settir staðalinn fyrir hvað einkennir góða veislu, Borgartúnsveislu.
Þú varst afar vinnusöm alla þína ævi. Þú kynntist því ung að þurfa strax að vinna mikið og varðst að taka þátt í bústörfum sem barn að aldri, elst þinna systkina. Þú talaðir oft um að það þegar farið var út á engi í heyskap, þar sem unnið var fram á kvöld, hafi verið erfiðisvinna fyrir unga stúlku. Seinna tók svo við eigið bú, með kartöflum og húsdýrum sem og heimili með stórum barnahóp. Ef það voru ekki húsverkin og búverkin þá var staðið í eldhúsinu við bakstur og eldamennsku eða setið í saumaherberginu að gera við og með prjónana á lofti. Vandvirkni þín í hannyrðunum var einstök og bar handverk þitt þess merki alla tíð, þrátt fyrir gigt og háan aldur.
Þú varst sannkölluð ofurkona en varst þó hógværðin uppmáluð og gerðir aldrei mikið úr verkum þínum, það var kannski helst í seinni tíð að þú viðurkenndir allan dugnaðinn og eljusemina sem einkenndi þig. Þú varst og ert fyrirmynd fyrir okkur öll og sýndir afkomendum þínum alltaf svo mikla góðvild, hugulsemi og alúð.
Elsku amma, takk fyrir allt, sofðu rótt fallegi engill.
Jóna Katrín,
María Berg,
Tryggvi Rúnar
og Arnar Leó.