Oddur Thorarensen Stefánsson
Oddur Thorarensen Stefánsson
Það er hart að þurfa að standa í stappi við sveitarfélagið í fjögur ár út af samningi sem það hefði átt að samþykkja fyrir löngu.

Oddur Thorarensen Stefánsson

Nú er svo komið að ríkisstjórn Íslands og ráðamenn ráðuneyta hlusta ekki á fatlaða einstaklinga heldur leiða þá fram fyrir fallbyssukjaft höfnunar. Það þýðir að notendastýrð persónuleg aðstoð er aldrei efst á skýrslum heldur erum við látin lepja dauðann úr skel og það er komið fram við okkur eins og við séum lokaðar kennitölur. Er þetta í boði? Auðvitað ekki.

Þegar maður reynir svo að hringja í félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, sem ætti að vera félags- og húsnæðismálaráðuneyti, er spurt heimskulegra spurninga eins og „hef ég ekki talað við þig áður?“ og eitthvað í þeim dúr. Það er enga hjálp að fá þarna hjá þeim. Ég legg til að þetta ráðuneyti leggist af vegna þess að þetta er ekkert nema tímasóun og peningaeyðsla að halda því uppi. Hefði samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verið samþykktur án frekari málalenginga hefðu fatlaðir einstaklingar getað tekið félagsmálayfirvöld í sveitarfélögum sínum og knésett þau með því móti, en því miður er það ekki hægt og verður aldrei hægt með þessu móti.

Mér finnst það helvíti hart að ég þurfi að standa í stappi við sveitarfélagið í fjögur ár út af samningi sem það hefði átt að samþykkja fyrir löngu.

Dómstólarnir eru ekki betri, heldur eru þeir verri ef eitthvað er. Ég hef því miður þurft að hljóðrita öll símtöl á milli mín og félagsmálaráðuneytisins; finnst ykkur þetta í lagi eða hvað?

Mér finnst þetta ekki í lagi og mun fara þess á leit við ráðuneytið að það taki sveitarfélögin á teppið, berji í borðið og segi við sveitarfélögin að ef þau geri ekki eins og ráðuneytið segir verði þau gjaldþrota.

Höfundur er blindur og lamaður eftir mótorhjólaslys sem ungbarn.

Höf.: Oddur Thorarensen Stefánsson