Viðræður Fulltrúar Bandaríkjanna og Úkraínu funduðu í gær í Jeddah í Sádi-Arabíu um stöðuna í Úkraínustríðinu.
Viðræður Fulltrúar Bandaríkjanna og Úkraínu funduðu í gær í Jeddah í Sádi-Arabíu um stöðuna í Úkraínustríðinu. — AFP/Saul Loeb
Að minnsta kosti þrír féllu og sex til viðbótar særðust í drónaárás Úkraínuhers á Moskvuborg í fyrrinótt og gærmorgun að sögn rússneskra stjórnvalda. Sagði rússneska varnarmálaráðuneytið í gær að loftvarnir Rússa hefðu skotið niður 337 dróna í…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Að minnsta kosti þrír féllu og sex til viðbótar særðust í drónaárás Úkraínuhers á Moskvuborg í fyrrinótt og gærmorgun að sögn rússneskra stjórnvalda. Sagði rússneska varnarmálaráðuneytið í gær að loftvarnir Rússa hefðu skotið niður 337 dróna í árásinni, sem hefði beinst að nokkrum héruðum Rússlands, þar á meðal Moskvu.

Sergei Sobjanín, borgarstjóri í Moskvu, sagði svo í gær að þetta væri langumfangsmesta árás Úkraínumanna á höfuðborgina frá upphafi allsherjarinnrásar Rússa í febrúar 2022. Þurfti að loka öllum fjórum flugvöllum borgarinnar vegna árásarinnar og einnig urðu truflanir á lestarsamgöngum.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, fordæmdi árásina og sagði hana hafa beinst að óbreyttum borgurum í Moskvu. Úkraínuher sagði hins vegar í yfirlýsingu sinni að árásin hefði beinst að hernaðarskotmörkum, þar á meðal olíuhreinsistöðinni í Moskvu, sem og olíulögnum í Oríol-héraði.

Sagði í yfirlýsingu hersins að olíuhreinsistöðin í Moskvu geti hreinsað um 11 milljónir tonna af olíu á ári, og sjái hún um 40-50% af öllum bensín- og díselolíubirgðum Rússlands. Sagði herinn einnig að drónarnir hefðu hitt stöðina nokkrum sinnum.

Úkraínskir embættismenn sögðu í gær að um hefði verið að ræða „stærstu drónaárás sögunnar“, en hún átti sér stað nokkrum klukkutímum áður en utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Úkraínu, þeir Marco Rubio og Andrí Sibíha, hófu fund sinn í Jeddah í Sádi-Arabíu til þess að ræða vopnahléstillögur Úkraínumanna. Þær tillögur snúast um tímabundið hlé á loftárásum beggja þjóða, og sagði Andrí Kovalenko, ráðgjafi í þjóðaröryggisráði Úkraínu, að árásin um nóttina ætti að færa Pútín Rússlandsforseta heim sanninn um nauðsyn þess að semja um slíkt vopnahlé.

Rubio sagði áður en viðræðurnar hófust að hugmynd Úkraínumanna lofaði góðu, en rússnesk stjórnvöld höfðu áður hafnað öllum hugmyndum um að gera vopnahlé sem ekki næði til allra þátta stríðsins. Andrí Jermak, einn helsti ráðgjafi Úkraínuforseta, sagði svo á samfélagsmiðlum sínum í gær að fundurinn hefði byrjað vel og að viðræðurnar væru á uppbyggilegum nótum.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti var ekki viðstaddur fundinn í Jeddah, en hann heimsótti Sádi-Arabíu í fyrradag og ræddi þar við Mohammad bin Salman krónprins um hvað Úkraínumenn þyrftu að fá til þess að ná fram varanlegum friði. Nefndi Selenskí þar meðal annars öryggistryggingar svo ljóst væri að Rússar myndu ekki hefja innrás að nýju síðar, sem og því að þeim börnum sem Rússar hafa rænt frá Úkraínu verði skilað.

Varnarbandalag Evrópu?

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kallaði í gær eftir stórauknum fjárframlögum til öryggis- og varnarmála í Evrópu. Sagði von der Leyen á fundi Evrópuþingsins í Strassborg að nú hrikti í undirstöðum öryggismála álfunnar og gaf til kynna að ekki væri lengur hægt að treysta á að Bandaríkin veittu Evrópu „fulla vernd“.

„Tími tálsýnarinnar er nú á enda. Evrópa hefur fengið kallið um að taka meiri þátt í sínum eigin vörnum,“ sagði von der Leyen og bætti við að auka þyrfti framlögin til varnarmála nú þegar.

„Við óskum þess öll að við gætum lifað á friðsamari tímum. En ég er viss um að ef við leysum iðnkrafta okkar úr læðingi getum við aftur náð fælingarmætti gegn þeim sem vilja skaða okkur,“ sagði von der Leyen m.a. „Það er kominn tími á að byggja upp Varnarbandalag Evrópu, sem tryggir friðinn í álfunni okkar með einingu og styrkleika.“

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson