Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Öldrun landsmanna hefur mikil áhrif á útgjöld til heilbrigðismála, sem mun að öllum líkindum leiða til verulegrar aukningar á heilbrigðisútgjöldum á næstu þremur áratugum. Fækkun barna á skólaaldri mun aftur á móti draga úr útgjaldaþrýstingi til menntamála og á sama tíma gæti sífellt vaxandi lífeyrissparnaður leitt til þess að útgjöld almannatrygginga dragist saman um ríflega 2% af vergri landsframleiðslu til ársins 2054.
Þetta má lesa úr skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um langtímahorfur í efnahags- og opinberum fjármálum til næstu 30 ára. Sambærileg spá var síðast birt 2021 og hafa horfur batnað verulega frá þeim tíma. Nú er gert ráð fyrir mun meiri fólksfjölgun á næstu 30 árum en í fyrri mannfjöldaspá, einkum vegna miklu meiri aðflutnings fólks til landsins og hagstæðari lýðfræðilegrar samsetningar. Gangi ný spá eftir verða hlutfallslega mun fleiri landsmenn á vinnufærum aldri á Íslandi en í samanburðarlöndunum fram yfir miðja þessa öld.
Í þremur stærstu útgjaldaflokkunum, heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum, er það einungis í þeim veigamesta, heilbrigðismálum, sem spáð er að útgjöld muni vaxa hraðar en landsframleiðsla til ársins 2054. Þau muni hækka úr 8,3% af landsframleiðslu í ár í 10,3% á árinu 2054. Það jafngildir um 100 milljarða kr. auknum útgjöldum til heilbrigðismála á verðlagi ársins 2025.
Fjölgun landsmanna verður hlutfallslega mest í elstu aldurshópunum en nú, ólíkt spánni 2021, er gert ráð fyrir að börnum fjölgi einnig á næstu þremur áratugum, þrátt fyrir að hver einstaklingur á barneignaraldri eignist að meðaltali færri börn.
„Fjölgun barna endurspeglar þess í stað að spáð er mikilli fjölgun fólks á barneignaraldri og á miðjum aldri, einkum vegna áframhaldandi fjölgunar innflytjenda,“ segir í skýrslunni. Búast má við skv. mannfjöldaspá Hagstofunnar að landsmönnum fjölgi um 1,3% á ári eða alls um 188 þúsund á næstu 30 árum.
Það eru einkum flutningar fólks til landsins sem drífa áfram fjölgun fólks á vinnufærum aldri og er því spáð að um sex þúsund manns flytji til landsins á ári hverju næstu árin, umfram brottflutta. Það er um sexfalt meiri aðflutningur fólks en spáð var á árinu 2021.
Hlutfall fólks á vinnufærum aldri hefur farið lækkandi í flestöllum samanburðarríkjum vegna öldrunar þjóða. Hér á landi vegur aðflutningur ungs fólks verulega á móti þeirri þróun. Gera mannfjöldaspár bæði Hagstofunnar og OECD ráð fyrir að svo verði áfram og að hlutfall íbúa á vinnufærum aldri fari meira að segja hækkandi hluta tímabilsins, ólíkt nánast öllum öðrum ríkjum. Gangi það eftir verði að þremur áratugum liðnum nánast hvergi meðal ríkja OECD að finna hærra hlutfall íbúa á vinnufærum aldri en á Íslandi. Fjölgun eldra fólks vegur þungt í spánni, en talið er að 80 ára og eldri muni fjölga úr 15 þúsund í 39 þúsund næstu þrjá áratugi og þörfin fyrir öldrunar- og heilbrigðisþjónustu aukast að sama skapi. Á móti kemur að bætt heilsa eldra fólks og breytingar á tíðni sjúkdóma munu hafa mikla þýðingu.
Bent er á að tekjur eldra fólks hafa aukist meira en annarra. Meðaleinstaklingur 75 ára og eldri sé nú með um 80% af meðaltekjum allra aldurshópa, aðallega vegna lífeyristekna. „Greiðslur úr lífeyrissjóðum munu halda áfram að aukast. Ellilífeyrisþegum mun halda áfram að fjölga og réttindi þeirra aukast; meiri óvissa er um fjölgun annarra lífeyrisþega, þ.m.t. örorkulífeyrisþega. Útlit er fyrir að heildarfjárhæð lífeyrisgreiðslna úr samtryggingardeildum lífeyrissjóða muni ef til vill tvö- til þrefaldast að raunvirði á næstu þremur áratugum og nema 600-800 [milljörðum kr.] á núverandi verðlagi árið 2054.“
Þrátt fyrir að fjölgun eldri borgara sé til þess fallin að lækka skatttekjur hins opinbera má lesa úr skýrslunni að tekjuskattsgreiðslur eldri borgara hafa aukist verulega. Meðal 75 ára og eldri voru þær nær tvöfalt hærri sem hlutfall af landsframleiðslu í fyrra samanborið við árið 2014, eða 0,31% af landsframleiðslu samanborið við 0,16% á árinu 2014.
Lífeyrissjóðsgreiðslur vaxa ár frá ári, sem gerir að verkum að eldri borgarar greiða sífellt meiri tekjuskatt. Útgjöld ríkisins í formi ellilífeyris almannatrygginga fara sífellt minnkandi í hlutfalli við landsframleiðslu þrátt fyrir fjölgun í aldurshópnum.