Frumkvöðullinn, fjárfestirinn og tækninördinn, eins og hann kallar sig sjálfur, Jón von Tetzchner, ræddi á dögunum við ViðskiptaMoggann um aðkomu hans að þróun Opera-vafrans og síðar vafrans Vivaldi, sem milljónir nota en er þó dvergur í samanburði við útbreiddustu vafrana.
Jón er gagnrýninn á tæknirisana og upplýsingaöflunina um notendur sem stunduð er í dag, en eins og flestir hafa orðið varir við er fylgst náið með ferðum þeirra á netinu, og jafnvel í raunheimum.
Þá er Jón afar gagnrýninn á rafmyntir, sem hann segir að séu „bara pýramídasvindl“. Og bætir við: „Þetta er bara rugl. Þetta er fjárfesting en ekki mynt sem hægt er að nota í viðskiptum.“
Loks er hann með vangaveltur um gervigreindina, sem ýmsir virðast nú um stundir telja að sé allra meina bót. Hann bendir á að hún geti verið notadrjúg og verðmæt, til dæmis sem þýðingartól, en afraksturinn sé líka betri svindlpóstar á góðri íslensku og „fullt af rusli á Facebook sem fólk sér daglega, og er búið til af gervigreind“.
Pælingar af þessu tagi eru mikilvægar mitt í öllum ákafanum vegna rafmynta og gervigreindar. Enginn vafi er á að gervigreindin getur verið gagnleg, en það er örugglega mikilvægt að fara gætilega í notkun þessarar nýju tækni eins og annarrar.