”  Styrkur íslenskrar ferðaþjónustu eins og við þekkjum hana í dag er fyrst og fremst afrakstur markvissrar stefnumótunar og skipulagðrar uppbyggingar ferðaþjónustufyrirtækja, sem hefur staðið yfir í áratug.

Ferðaþjónustan

Pétur Óskarsson

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

Það heyrist oft og tíðum frá stjórnmálamönnum og fleirum sem ekki þekkja betur til stærstu útflutningsgreinar þjóðarinnar að ferðaþjónustan hafi í raun orðið til „óvart“ og án nokkurrar stefnumótunar.

Slík ummæli eru aftur á móti alls ekki ný af nálinni og því mikilvægt – nú líkt og áður – að rifja upp sameiginlega sögu greinarinnar og stjórnvalda. Í inngangi fyrstu opinberu stefnumótunarinnar um ferðaþjónustu sem var gefin út haustið 1996 segir að „á undanförnum árum hefur verið mikil umræða um nauðsyn þess að stjórnvöld marki sér stefnu í ferðaþjónustu.“

Kjarninn í þeirri stefnu er tekin saman í eina setningu: „Ferðaþjónustan, sem ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, verði þróuð til frekari arðsemi og atvinnusköpunar.“ Þar er líka fjallað um sjálfbæra þróun, menntun, gæðamál, samgöngumál, innviðamál og fleiri kjarnamál öflugrar ferðaþjónustu. Þar var lagður grunnur að þeirri þróun sem síðar varð.

Ummæli á borð við að stjórnvöld hafi látið reka á reiðanum og einn daginn hafi ferðaþjónustan allt í einu verið orðin risastór með tilheyrandi neikvæðum áhrifum standast því auðvitað enga skoðun.

Efnahagslífið sterkara með ferðaþjónustu

Árið 1996 má segja að efnahagur landsins hafi í raun staðið á tveimur stoðum, stóriðju og sjávarútvegi. Alla þá sem skildu gangverk efnahagslífsins dreymdi um fleiri stoðir til að styrkja efnahaginn, breikka hann og dreifa áhættu við öflun gjaldeyristekna. Á þeim tæpu 30 árum sem síðan eru liðin hefur íslensk ferðaþjónusta tekið stakkaskiptum.

Hægt er að nefna óteljandi sameiginleg verkefni stjórnvalda og ferðaþjónustunnar sjálfrar sem hafa skipt sköpum í gegnum árin. Sameiginlegar kaupstefnur, vinnustofur og önnur markaðsverkefni eins og Inspired by Iceland. Stjórnvöld hafa jafnframt komið á framkvæmdasjóði ferðamannastaða og landsáætlun um uppbyggingu innviða til þess að tryggja öryggi og náttúruvernd á ferðamannastöðum.

Þá gleymist oft í umræðunni að stjórnvöld hafa – því miður – ekki þreyst við að setja á nýjar álögur á eða hræra í skatta- og gjaldaumhverfi ferðaþjónustunnar, þegar staðreyndin er sú að ferðaþjónusta skilar um þriðju hverri krónu af sköpuðum gjaldeyristekjum til ríkis og sveitarfélaga á hverju ári í formi skatta og gjalda.

Styrkur íslenskrar ferðaþjónustu eins og við þekkjum hana í dag er fyrst og fremst afrakstur markvissrar stefnumótunar og skipulagðrar uppbyggingar ferðaþjónustufyrirtækja, sem hefur staðið yfir í áratugi. Elja, framsýni og hugrekki einstaklinga sem hafa fjárfest í ferðaþjónustu og lagt allt sitt undir í fyrirtækjarekstri hringinn í kringum landið hefur gert það að verkum að nú er um að ræða stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar.

Atvinnugrein sem skapaði 621 milljarðs króna gjaldeyristekjur árið 2024, eða um 32% af útflutningsverðmætum landsins. Sú verðmætasköpun datt svo sannarlega ekki af himnum ofan.

Hvar værum við án ferðaþjónustunnar?

Það væri heldur til bóta ef þeir sem ekki þekkja betur til ferðaþjónustunnar myndu kynna sér hana og byggja umræðu sína á staðreyndum. Ferðaþjónustan hefur gert það að verkum að það er nú mun skemmtilegra að búa á Íslandi en áður.

Hún hefur skapað aukinn fjölbreytileika við öflun gjaldeyristekna landsins, gjörbreytt stöðu Íslands í viðskiptum við útlönd og stuðlað að styrkari óskuldsettum gjaldeyrisvaraforða fyrir þjóðarbúið. Nær væri að spyrja, hvar værum við í dag án ferðaþjónustunnar?