Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Ljóða- og listahátíðin Skáldasuð er í fullum gangi í Reykjanesbæ. Seinna upplestrarkvöldið hefst í bíósalnum í Duus-húsum kl. 17 á morgun og ljóðasmiðja fyrir börn og ungmenni verður á laugardag. Örljóðaupplestur verður í heitu pottunum í sundlauginni 21. mars og jafnvel oftar auk þess sem skáld koma fram á ljóðagöngu. Sýningin Orð eru til alls fyrst með verkum eftir ýmsa listamenn er hluti hátíðarinnar og ljóð verða til sýnis víða um bæinn til hátíðarloka 23. mars.
Ljóðskáldið og myndlistarmaðurinn Gunnhildur Þórðardóttir kennari hleypti hátíðinni af stokkunum í fyrra og endurtekur leikinn í ár, en hátíðin hófst 6. mars. „Tilgangurinn er að vekja athygli á Suðurnesjum, að þau hafi upp á meira að bjóða en bara flugvöll og Ljósanótt,“ segir hún. Skáldasuð vísi til Suðurnesja og suð sem hljóð, því oft sé vindasamt á svæðinu. „Síðan eru Suðurnesin líka suðupottur hugmynda.“
Sameinast í ljóðum og listum
Gunnhildur segir að hugmyndin sé ekki síður að vekja athygli á ljóðinu sem slíku og list tengdri ljóðum og fá samfélagið á svæðinu til að taka þátt í sameiginlegri hátíðinni. Í fyrra hafi hún sett upp sýningu með eigin verkum í bókasafninu og unnið þrívíð verk með nemendum sínum upp úr ljóðum skálda í nærumhverfinu. Verkin hafi líka verið sýnd í bókasafninu en nú leiti hún víðar fanga og tefli fram fjölbreyttri flóru ljóðskálda.
Auk Gunnhildar lesa ljóðskáldin Elías Knörr, Ægir Þór Jahnke, Valdimar Tómasson og Sigurbjörg Þrastardóttir upp úr ljóðum sínum í kvöld.
Á laugardag stjórnar Gunnhildur listrænni ritsmiðju. „Ljóð þarf ekki endilega að vera texti heldur getur líka verið listaverk,“ útskýrir hún.
Ljóð eru til sýnis á leiðinni í sundlaug Keflavíkur og í Vatnaveröld, ljósaljóð eru í strætóskýlum og ljóðskáldin Garðar Baldvinsson aka Garibaldi, Guðmundur Magnússon, Ragnheiður Lárusdóttir, Guðmundur Brynjólfsson, Eygló K. Jónsdóttir og Eyrún Ósk Jónsdóttir fara með ljóð á ýmsum gönguleiðum í bænum meðan á hátíðinni stendur. Þá mætir Gunnhildur í pottana og les upp eigin ljóð. „Sundlaugar á Íslandi eru miklar menningarmiðstöðvar og þar eru allir jafnir.“
Gunnhildur gefur út sjöundu ljóðabók sína, Dimmu, í tilefni hátíðarinnar og les upp úr henni í kvöld og í pottunum. Hún er með BA-próf í listasögu og fagurlistum og MA í liststjórnun auk þess sem hún útskrifaðist úr viðbótardiplómanámi í listkennslu í grunn- og framhaldsskóla. Hún hefur verið virkur myndlistarmaður og sýnt víða. „Ég tengi alltaf ljóð og list og hef myndskreytt allar ljóðabækur mínar,“ bendir hún á. „Stundum byrjar skúlptúr sem ljóð og endar sem þrívítt verk.“