Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði knattspyrnuliðs Vestra, á yfir höfði sér keppnisbann í kjölfar þess að hann steig fram í gær og skýrði frá því að hann hefði veðjað á leiki í Bestu deild karla á síðasta tímabili.
Elmar lék sjálfur í deildinni, spilaði 22 leiki með nýliðum Vestra sem héldu sæti sínu og eru á leið í sitt annað tímabil í hópi þeirra bestu.
Elmar skýrði sjálfur frá þessu á Facebook og viðurkenndi þar að um mistök og dómgreindarbrest hefði verið að ræða hjá sér. Hann sagði að veðmál sín hefðu ekki tengst Vestra og ekki getað haft nokkur áhrif á stöðu liðsins eða annarra liða sem voru í keppni við Vestfjarðaliðið. „Fyrst og fremst var þetta leið til að hafa meira gaman af því að fylgjast með leikjunum,“ sagði Elmar.
Mál Elmars er komið í hendur KSÍ og hann getur búist við nokkuð löngu banni. Tveir leikmenn voru úrskurðaðir í bann fyrir veðmál árið 2023. Sigurður Bond Snorrason, leikmaður Aftureldingar, var þá í banni allt tímabilið eftir að hafa veðjað á hundruð leikja á Íslandsmótinu árið áður, og Steinþór Freyr Þorsteinsson var í banni frá 9. júní til loka tímabils vegna veðmála sem höfðu staðið yfir í fimm ár.
Elmar er 28 ára gamall og á að baki ellefu tímabil með meistaraflokki fyrir vestan.