Sigfús Halldórsson Litla flugan er eitt eftirlætislaga íslensku þjóðarinnar.
Sigfús Halldórsson Litla flugan er eitt eftirlætislaga íslensku þjóðarinnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Segir hér af æskuminningum frá sveitavist að Króksfjarðarnesi.

Bragi Kristjónsson

Átta ára var ég sendur í sveit til þeirra ágætu systkina Jóns og Bjarneyjar Ólafsbarna að Króksfjarðarnesi í Austur-Barðastrandarsýslu. Krókur landnámsmaður hvílir í haug sínum utarlega á nesinu. Grösugar eyjar eru undan nesinu. Þar bjó örn og hrafn og mikið er um æðarfugla í grösugum eyjunum. Haukur fóstursonur Jóns símstjóra fór oft með heimilisfólkinu í eyjarnar, að sækja dún í hreiðrin og heyja kjarnmikið gras. Móðir Hauks, Daníelína, var kaupakona í Nesi og hreinsaði hún dúninn yfir eldi í sérstöku dúnhúsi.

Dótturdóttir frú Bjarneyjar, Ólafía, varð „kærastan“ mín þegar við vorum bæði átta ára. Síðar varð hún bóndakona að Breiðabólstað nærri Staðarfelli í Dalasýslu í áratugi. Við „parið“ höfðum bú á skika við túnið, höfðum þar leggina okkar og skeljarnar, og hugsuðum vel um þessi dýr.

Eitt kvöld hafði ég stolist til að taka orf og ljá, sem Haukur átti. Og byrjaði að slá og Ólafía rakaði jafnóðum og bjó til föng. Skipti engum togum að í miðjum slætti missti ég orfið og löngutöng vinstri handar skarst í sundur. Babú var ég fluttur til Reykhóla, en þar var læknir göfugmennið Jón Gunnlaugsson, sem saumaði puttann vandlega. Hefur hann verið heill síðan.

Sem ég lá þarna í nokkra daga heyrði ég einn daginn verið að syngja og spila í næsta herbergi. Þar var kominn Sigfús Halldórsson og var hann að frumflytja Litlu fluguna, sem er nánast lykillag í dægurlagatextaheiminum. Textann samdi Sigurður Elíasson tilraunastjóri á Reykhólum.

Nú, Ólafía „unnusta“ varð síðan bóndakona að Breiðabólstað nærri Staðarfelli og bjó þar í hamingjusömu hjónabandi í áratugi með Halldóri Þórðarsyni, bónda og skólastjóra Tónlistarskólans í Búðardal. Því miður átti ég ekki heimangengt þegar hún var jörðuð, en sendi henni stundum jólakveðjur í útvarpinu. Með henni gekk göfug sál.

Höfundur var bókakaupmaður í Reykjavík í um 40 ár.

Höf.: Bragi Kristjónsson