París SG hafði betur gegn Liverpool eftir vítaspyrnukeppni, 4:1, í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla á Anfield í gærkvöldi. Liverpool vann fyrri leikinn 1:0 en Ousmane Dembélé skoraði eftir tólf mínútna leik og var staðan 1:0 að loknum venjulegum leiktíma og sömuleiðis að lokinni framlengingu. Staðan því enn 1:1 í einvíginu og þar með þurfti vítaspyrnukeppni til þess að knýja fram sigurvegara.
Mohamed Salah skoraði úr sinni spyrnu en Gianluigi Donnarumma í marki PSG varði spyrnur Darwin Núnez og Curtis Jones. PSG skoraði úr öllum sínum spyrnum og mætir Aston Villa eða Club Brugge í átta liða úrslitum.
Bayern München fór auðveldlega áfram með því að leggja Bayer Leverkusen 2:0 í Leverkusen og vinna einvígið samanlagt 5:0. Harry Kane og Alphonso Davies skoruðu mörk Bayern.
Bayern mætir Inter Mílanó í átta liða úrslitum.
Inter Mílanó lagði Feyenoord 2:1 í Mílanó og vann einvígi liðanna samanlagt 4:1. Marcus Thuram og Hakan Calhanoglu skoruðu mörk Inter, sá síðarnefndi úr vítaspyrnu, og Jakub Moder skoraði mark Feyenoord úr vítaspyrnu.
Barcelona lagði Benfica örugglega að velli, 3:1, í Barcelona og vann einvígið þar með samanlagt 4:1. Raphinha og Lamine Yamal fóru báðir á kostum.
Yamal lagði upp fyrra mark Raphinha eftir stórbrotið einstaklingsframtak, bætti svo við öðru markinu með glæsilegu skoti fyrir utan vítateig og Raphinha skoraði svo þriðja markið. Nicolás Otamendi skoraði mark Benfica.
Barcelona mætir annaðhvort Hákoni Arnari Haraldssyni og félögum í Lille eða Borussia Dortmund.