50 ára Gunnar fæddist í Reykjavík en ólst upp í Kópavogi. 10 ára gamall gerðist Gunnar vinnumaður í sveit. Sveitadvöl hans endaði í samtals átta sumrum og einum vetri víðsvegar um landið en Gunnar kláraði sína sveitadvöl á Steinnesi í Austur-Húnavatnssýslu

50 ára Gunnar fæddist í Reykjavík en ólst upp í Kópavogi. 10 ára gamall gerðist Gunnar vinnumaður í sveit. Sveitadvöl hans endaði í samtals átta sumrum og einum vetri víðsvegar um landið en Gunnar kláraði sína sveitadvöl á Steinnesi í Austur-Húnavatnssýslu. „Enn þann dag í dag kem ég við á Steinnesi og vitja fólksins.“

Gunnar gekk í Digranesskóla og síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Þar stundaði hann nám við grunndeild málmiðna og lagði grunninn að sveinsbréfi í málmsuðu sem hann svo kláraði. Einnig gekk Gunnar í HR og kláraði þar diplómanám í forystu og stjórnun. Hann stundaði flugnám og er með bóklegt einkaflugmannsskírteini. Gunnar gekk í björgunarsveitir 21 árs og er enn skráður í eina slíka.

Synir Gunnars úr fyrra sambandi eru Kári og Kolbeinn Óli, en eftir að Gunnar kynntist henni Sonju sinni sveitastelpu úr Skagafirði fluttu þau til Akureyrar og bjuggu þar í 15 ár ásamt börnum Sonju, þeim Örvari Erni og Selmu Hrönn, og drengir Gunnars komu norður eins og þeir gátu með samþykki móður þeirra. „Akureyri á stóran sess í lífi okkar allra og eigum við margar kippur af góðum vinum og ættingjum.“

Gunnar stundaði bæði sjómennsku fyrir norðan og sinnti leiðsögustörfum í ferðamennsku, svo söðlaði hann um og gerðist framkvæmdastjóri Jarðbaðanna í Mývatnssveit og unni sveitinni vel og fólkinu þar og gat nýtt margvísilega þekkingu á lífinu og er talinn útsjónarsamur með eindæmum, handlaginn og úrræðagóður. „Áskoranir og almennt bras eru mér að skapi.“

Gunnar tók upp nafn móður sinnar eftir að hún lést langt fyrir aldur fram 2009 og tileinkar hann öll ferðalög móður sinni henni Fríðu.

Í dag búa Gunnar og Sonja í Kópavogi og börnin á höfuðborgarsvæðinu með lykla að heimilum foreldra sinna og stunda framhalds- og háskólanám í borginni. Þau eiga ekki börn saman en deila mörgum áhugamálum svo sem hlaupum, hjólreiðum, sveitinni og að kanna heiminn. Þau giftu sig fyrir norðan í Nonnakirkju 23. ágúst 2015. Sonja er kennari við Menntaskólann í Hamrahlíð og við HÍ eftir að hafa verið kennari við Menntaskólann á Akureyri í yfir 26 ár. Gunnar starfar í dag sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði Sjóvár.

Þau hjón hyggjast halda upp á 2x50 árin erlendis í sumar að kanna heiminn saman. „Lífið er gott,“ segir Gunnar.