Stórhýsi Meðferðarkjarninn við Hringbraut er um 70 þúsund fermetrar.
Stórhýsi Meðferðarkjarninn við Hringbraut er um 70 þúsund fermetrar. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Innanhússfrágangur er hafinn á tveimur efstu hæðunum í nýjum meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut, á hæðum 5 og 6, en samið var við ÞG Verk um þann verkþátt. Þá var nýverið efnt til markaðskönnunar vegna frágangs í tveggja hæða kjallara og á …

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Innanhússfrágangur er hafinn á tveimur efstu hæðunum í nýjum meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut, á hæðum 5 og 6, en samið var við ÞG Verk um þann verkþátt. Þá var nýverið efnt til markaðskönnunar vegna frágangs í tveggja hæða kjallara og á hæðum 1 til 4 og er næsta skref að efna til formlegrar auglýsingar útboðs sem er áformað um og eftir páska.

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf., segir fjölmarga aðila hafa sýnt markaðskönnuninni áhuga. Þó nokkrir hafi skilað inn gögnum og nú sé Nýr Landspítali ohf. að vinna úr þeim upplýsingum, m.a. með viðræðum við markaðsaðila.

Vegna umfangs verksins munu þátttakendur í innkaupaferlinu fá nokkra mánuði til að vinna að tilboðsgerð en stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir í haust.

Sex hæðir af átta

Gunnar áætlar að kostnaður við þennan verkþátt verði á þriðja tug milljarða króna en samningsupphæðir fara eftir eðli útboða. Um er að ræða sex hæðir af átta í byggingunni en ÞG Verk er sem áður segir að vinna við tvær efstu hæðirnar. Við hefðbundinn frágang bætist kostnaður við forsmíðaðar einingalausnir sem munu meðal annars mynda svokölluð hreinrými. Með þeim koma herbergi til landsins fullbúin í hólf og gólf en þannig geta rýmin m.a. uppfyllt svonefnda GMP-vottun, að sögn Gunnars, sem gerð sé krafa um í ákveðnum hluta starfseminnar. Gera megi ráð fyrir að heildarkostnaður við innanhússfrágang í þessum verkþætti muni nálgast um 30 milljarða króna, að þessum einingalausnum meðtöldum, en um geti verið að ræða nokkur útboð.

Innanhússfrágangur í meðferðarkjarnanum hófst raunar um mitt síðasta ár og vinna nú á þriðja tug manns í kjallaranum við ílagnir, við að rykbinda ásamt því að sinna öðrum verkum, s.s. vinnulögnum og rafmagni. Þá er á annan tug manna að vinna á þakinu og hátt í hundrað munu sinna hæðum 5 og 6 á vegum ÞG Verks en þar verða legudeildir spítalans.

„Við getum allt eins reiknað með að það verði 150-200 starfandi við alla þessa verkþætti þegar mest lætur þar sem nú þegar liggja fyrir verksamningar og að svo muni enn fleiri vinna í innri frágangi þegar kemur að neðri hæðunum,“ segir Gunnar.

Uppsetning útveggja á meðferðarkjarnanum hófst 1. desember 2023 og lauk verkinu að mestu um áramótin. Meðferðarkjarninn verður um 70 þús. fermetrar og er áformað að byggingin verði tilbúin á síðari hluta árs 2028 og að starfsemi geti hafist á síðari hluta árs 2029. Jafnframt er verið að byggja fleiri byggingar á svæðinu.

Höf.: Baldur Arnarson