Í dag nýt ég þeirra forréttinda sem ráðherra sjávarútvegsins að afhenda Hafrannsóknastofnun nýtt og vel búið hafrannsóknaskip, Þórunni Þórðardóttur HF 300. Heimahöfn skipsins verður í Hafnarfirði, rótgrónum útgerðarstað og heimabæ Hafrannsóknastofnunar sem er miðstöð rannsókna og þekkingar á hafinu í kringum Ísland.
Við Íslendingar njótum samvistar við einstaklega gjöful fiskimið. Nýting á þessari auðlind hefur verið grundvöllur aukinnar hagsældar hér á landi undanfarna áratugi enda skipar atvinnugreinin lykilsess í huga þjóðarinnar.
Árið 2023 nam veiðin tæplega milljón tonnum eða sem nemur 2,5 tonnum á hvert mannsbarn. Úr þessari veiði voru sköpuð útflutningsverðmæti sem námu 350 milljörðum kr. og eru þá ótaldar þær mörgu hliðarafurðir sem hafa þróast.
Þetta hefur þó ekki alltaf verið greið leið. Sá árangur sem við höfum náð er ekki sjálfgefinn heldur þarf áframhaldandi verðmætasköpun að byggjast á sjálfbærri nýtingu fiskistofna, sem hvílir svo aftur á traustum og vönduðum rannsóknum.
Í þessu samhengi gegnir Hafrannsóknastofnun lykilhlutverki, þar sem þekking og ráðgjöf stofnunarinnar er grundvallarforsenda þess að við náum markmiðum okkar um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins. Það er ekki aðeins nauðsynlegt fyrir efnahagslega velferð þjóðarinnar, heldur einnig fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbærni auðlindanna til framtíðar. Skipafloti Hafrannsóknastofnunar er hornsteinn í starfsemi hennar og hefur verið augljóst um nokkurt skeið að nauðsynlegt væri að fjárfesta í nýju, fullkomnu hafrannsóknaskipi.
Sjö ár eru síðan Alþingi samþykkti árið 2018 ályktun um kaup á nýju hafrannsóknaskipi en um var að ræða sameiginlega tillögu formanna allra flokka á þingi. Þetta er því sannarlega skip okkar allra. Í kjölfarið hófst umfangsmikil vinna við undirbúning, hönnun og smíði skipsins. Samstarf við skipasmíðastöðina Armon, í Vigo á Spáni, hefur í alla staði gengið einstaklega vel.
Þórunn Þórðardóttir er nefnd í höfuðið á fyrstu konunni sem starfaði við og var menntuð á sviði hafrannsókna á Íslandi. Þórunn vann allan sinn starfsaldur hjá Hafrannsóknastofnun. Helsta framlag hennar til vísinda voru rannsóknir á heildarfrumframleiðni svifþörunga á Íslandsmiðum en svifþörungar eru undirstaða fæðukeðju hafsins.
Matvælaráðuneytið, sem innan fárra daga verður atvinnuvegaráðuneyti, hefur það markmið að efla samkeppnishæfni helstu útflutningsgreina landsins með sjálfbærni að leiðarljósi. Nýtt rannsóknaskip verður öflugt tæki á þeirri vegferð.
Ég óska Hafrannsóknastofnun hjartanlega til hamingju með hið nýja skip, Þórunni Þórðardóttur HF300, og óska öllum þeim sem munu vinna um borð í skipinu góðs gengis og heilla í störfum sínum um ókomin ár.
Höfundur er atvinnuvegaráðherra. hanna.katrin.fridriksson@mar.is