Erla Dagný Stefánsdóttir fæddist í Reykjavík 17. maí 1959. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 26. febrúar 2025.
Foreldrar hennar voru Kristín S. Haraldsdóttir, f. 29.10. 1938, d. 19.6. 2018, og Stefán Lárus Árnason, f. 27.6. 1935, d. 22.11. 2007. Systur Erlu eru Stella Kolbrún, f. 12.12. 1955, Sigrún Margrét, f. 9.2. 1958, Helga, f. 18.2. 1961, og Halla Björk, f. 17.10. 1973.
Erla giftist Hjálmari Rúnari Jóhannssyni, f. 19.11. 1959, d. 23.2. 2014. Þau skildu. Saman áttu þau tvær dætur: Maríu Láru, f. 22.1. 1980, hún á eina dóttur, Söndru Rún, f. 20.4. 1998. Sigrúnu Birnu, f. 16.10. 1982, hún á eina dóttur, Hrafnhildi, f. 5.10. 2000.
Lengst af bjó Erla í Reykjavík fyrir utan tvö ár þar sem þau fjölskyldan bjuggu í Suður-Afríku.
Útför Erlu fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 12. mars 2025, klukkan 13.
Elsku Erlan okkar er farin.
Með miklum söknuði kveðjum við þessa hjartahlýju yndislegu systur.
Hún var númer þrjú af okkur fimm systrunum og vorum við mjög nánar alla tíð og eigum við margar sögur sem mikið var hlegið að, því Erla var svo orðheppin og skemmtileg í tilsvörum.
Erla var mjög barngóð og börn löðuðust að henni, hún var mjög góð í að teikna, hún elskaði að hlusta á tónlist og prjónaði ófáar lopapeysur og uglupoka.
Erla gat verið seinheppin og kveikti iðulega í jólaskreytingum, skar sig við að ætla að strjúka af hníf, festi fingurinn ofan í dós sem hún var að henda og margt fleira.
Erlu fannst ekki gaman að elda eða baka og ef hún bakaði köku þá áttu hlutir til að mistakast. Setti til dæmis saman tertubotna, setti krem og skreytti en svo þegar skera átti kökuna þá kom í ljós að smjörpappír var enn á milli botnanna en hún sagði bara „bíðið aðeins“ og dró hún smjörpappírinn út með snöggum handtökum og þá var hægt að gæða sér á kökunni. En hún var mjög góð í vöfflu- og pönnukökubakstri og það klikkaði ekki hjá henni.
Skondin saga sem Erla sagði okkur var að þegar hún var að vinna á fæðingardeildinni þegar hún var 17 ára, þá gengur maður að henni og spyr hvar hann geti fundið A-götu, og hún ekki lengi að svara með tilheyrandi handabendingum „nei nei, við erum bara með A-álmu og B-álmu“ en þá kom í ljós að maðurinn var bara að fara að heimsækja systur sína sem hét Agata.
Erla greindist fyrst með brjóstakrabbamein árið 2016 og þurfti að taka bæði brjóstin af henni, en þó það væri mikið áfall fyrir hana að fara í tvöfalt brjóstnám þá ákvað hún að halda „brjóstapartí“ til að kveðja brjóstin með stæl. Hún greindist svo aftur í lok árs 2021 og hafði meinið þá tekið sig upp aftur og dreifst.
Erla var baráttukona og lífskraftur hennar var mikill, hvort sem var í gegnum veikindi hennar eða almennt í lífinu og hún ætlaði sér að ná sem lengstum tíma, og hún náði rúmum þremur árum sem enginn bjóst við að hún myndi gera. Hennar verður sárt saknað í systrahópnum.
Dætrum hennar Maríu og Sigrúnu sem og barnabörnunum Söndru og Hrafnhildi sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur því missir þeirra er svo mikill.
Við systur viljum þakka öllum þeim sem önnuðust Erlu í veikindum hennar af svo mikilli elsku, umhyggju og virðingu.
Stella, Sigrún, Helga og Halla.
Þegar ég leystur verð þrautunum frá,
þegar ég sólfagra landinu á
lifi og verð mínum lausnara hjá –
það verður dásamleg dýrð handa mér.
(Þýð. Lárus Halldórsson)
Erla Dagný mágkona mín hefur lokið lífsgöngu sinni, langt fyrir aldur fram. Hún giftist Hjálmari bróður mínum 1985, og eignuðust þau tvær dætur, en því miður slitnaði upp úr hjónabandi þeirra eftir rúmlega tuttugu ára sambúð. Bróðir minn kaus að horfa fram hjá vanda sínum, því fór sem fór. Þrátt fyrir það kallaði ég hana alltaf Erlu mágkonu og mun gera í minningunni. Við hjónin héldum alla tíð sambandi við Erlu þótt oft liði allt of langt á milli þess að við hittumst, enda bjuggum við alla tíð í sitthvorum landshlutanum.
Erla fékk sinn skammt af erfiðleikum og veikindum og átti í lokin engan afgang af þreki, krabbameinið var búið að taka það allt. Þrátt fyrir hennar löngu og erfiðu veikindi er stóðu í um áratug var alltaf stutt í glaðværð og hlátur og húmorinn alltaf stutt undan hjá henni og ekki var hún að kvarta. Seinni árin urðu samskipti okkar meiri og nánari, þurfti ég stundum að hringja til Erlu út af ættfræðigrúski mínu og leita upplýsinga frá sambúð þeirra Hjálmars og einnig um föðurætt hennar sem kom norðan úr Fljótum í Skagafirði. Afi hennar og amma fluttust úr Fljótum 1914 að Hlíð á Hjalteyri.
Eftir að Sigrún dóttir Erlu hóf fjarnám í hjúkrun við Háskólann á Akureyri urðu ferðir hennar tíðar gegnum Skagafjörð og tók hún móður sína oft með ef heilsa hennar leyfði. Þær fóru aldrei svo um fjörðinn að þær kæmu ekki við hjá okkur á Króknum, í annarri hvorri leiðinni, og stundum var María líka með í för og einu sinni heimsóttum við þær á Akureyri. Ávallt var glatt á hjalla er við hittumst, mikið spjallað og hlegið og dýrin fengu líka sitt klapp og knús. Þetta voru sannkallaðir gleðifundir, sem gáfu okkur hjónum mikið.
Nokkru eftir að ég missti Kristínu mína fyrir rúmu ári hringdi Erla til mín til að vita hvernig ég hefði það og hvernig gengi við þessar breyttu aðstæður. Gott var að fá þetta símtal frá henni og áttu þau eftir að verða fleiri síðastliðið ár því við tókum stöðuna hvort á öðru. Oftar en ekki tognaði úr þessum samtölum, þar sem lífið og tilveran var rædd frá ýmsum hliðum mannlífsins.
Í nóvember síðastliðnum var ég á ferð í Reykjavík og náði að heimsækja mágkonu mína sem þá var komin á líknardeildina í Kópavogi. Það var farið að halla verulega undan fæti hjá henni, áttum við gott spjall, stutt var í brosið hjá henni og eins og alltaf bar hún sig vel.
Senn slokkna öll mín litlu gleðiljós,
og líf mitt fjarar senn við dauðans ós,
og húmið stóra hylur mína brá:
Ó, Herra Jesús, vertu hjá mér þá.
(Lyte / Matthías Jochumsson)
Blessuð sé minning Erlu Dagnýjar, ég þakka henni og dætrunum vináttu og tryggð við fjölskyldu mína í gegnum árin. Ég votta frænkum mínum, þeim Maríu Láru, Sigrúnu Birnu, Söndru Rún og Hrafnhildi, dýpstu samúð og bið góðan Guð að styrkja þær. Missir þeirra er mikill.
Ingimar Jóhannsson.
Í djúpum hafsins fæðist perla í okkar hug, er þar komin Erla.
Síðastliðinn gamlársdag hringir síminn og er þar engin önnur en Erla frænka á línunni, samtalið er kærleiks- og tilfinningaríkt en stutt í hláturinn að venju. Erla frænka er komin á líknardeild eftir áralanga baráttu við erfið veikindi, hún segir að sér líði nokkuð vel við þær aðstæður sem hún búi við um þessar mundir.
Hún segist fá góða umönnun, það er hugsað vel um hana og allt gert til að létta henni lífið. Erla segir okkur að hún komi til með að dvelja á líknardeildinni þar til yfir lýkur.
Þrátt fyrir veikindi sín spyr hún hún frétta um heilsu okkar systkina og spyr um frænda sinn sem veiktist hastarlega síðastliðið haust, og segir okkur að hafa ekki áhyggjur af sér þrátt fyrir að lífsstundirnar séu að styttast. Það kemur upp í huga okkar frændsystkina hvað lagt er á þessa yndislegu manneskju sem við teljum að hafi fæðst með bros á vör. Almættið gaf Erlu í vöggugjöf gleði og hláturmildi og að sjá það jákvæða í lífinu. Við frændsystkinin upplifðum ávallt mikla kátínu þegar safnast var saman. Og Erlu var það einstaklega lagið að kveikja þann hlátur.
Nú er komið að leiðarlokum og vottum við dætrum hennar, barnabörnum og systrum dýpstu samúð okkar.
Vinir skiljast ætíð allt of fljótt
ástarkveðjur sárt á vörum brenna
kertaljósin litlu hafa í nótt
látið okkar vegna tár sín renna.
(Þýð Helgi Hálfdanarson)
Albert Ingason og
Ásta Svana Ingadóttir.