Dregið hefur ört úr fæðingartíðni og úr frjósemi kvenna í Evrópu á undanförnum árum og hefur þróunin verið svipuð hér á landi. Samkvæmt nýbirtum tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, fæddust 3,67 milljónir barna í löndum Evrópusambandsins á…

Dregið hefur ört úr fæðingartíðni og úr frjósemi kvenna í Evrópu á undanförnum árum og hefur þróunin verið svipuð hér á landi. Samkvæmt nýbirtum tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, fæddust 3,67 milljónir barna í löndum Evrópusambandsins á árinu 2023 og fækkaði úr 3,88 milljónum barna á árinu 2022. Það er 5,4% fækkun fæddra barna milli ára, sem er mesta fækkun á einu ári sem skráð hefur verið allt frá árinu 1961.

Tölur um frjósemi kvenna eru mælikvarði á fjölda lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu og var frjósemi 1,38 barn á hverja konu að jafnaði innan Evrópusambandsins á árinu 2023 og lækkaði úr 1,46 á árinu á undan.

Þótt dregið hafi úr frjósemi á Íslandi var hún 1,55 á árinu 2023 samkvæmt Eurostat og var heldur meiri en í flestum öðrum Evrópulöndum sem samanburðurinn nær til.

Upplýsingar sem Hagstofan hefur birt leiða í ljós að frjósemi íslenskra kvenna á árinu 2023 hafi aldrei verið minni frá því að mælingar hófust árið 1853. Árið á undan var frjósemi á Íslandi 1,67 sem er næstminnsta frjósemi sem mælst hefur hér á landi. Frjósemi hefur ekki farið upp fyrir 2 hér á landi síðan árið 2012 þegar hún var 2,1.

Fjallað er um fækkun barneigna á Íslandi í skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum. Þar er bent á að frá því á sjötta áratug síðustu aldar hefur fæddum börnum á ævi hverrar konu fækkað nokkuð stöðugt, úr fjórum í 1,6.

„Frá árinu 2011 hafa fæðst of fá börn til þess að viðhalda af sjálfu sér fjölda íbúa á Íslandi. Ekkert lát er á fækkun barneigna og árið 2023 var fæðingartíðni hér á landi sú lægsta nokkru sinni,“ segir þar. Bent er á að skv. tölum Hagstofunnar eru bæði mæður og feður hátt í sjö árum eldri þegar þau eignast fyrsta barn en á árinu 1981. omfr@mbl.is