Guðný Björg Bjarnadóttir fæddist 22. október 1972. Hún lést 12. febrúar 2025.
Útför hennar fór fram 28. febrúar 2025.
Já, ég hef aldrei getað trúað að þú ættir að kveðja þetta líf svo snemma. Við erum jú á besta aldri. Ég hef virkilega reynt að koma mér í gírinn að skrifa fallega minningu um þig, elsku Guðný mín. Þú hafðir alltaf stórt og skilningsríkt hjarta. Þú sást alltaf heildarmyndina. Ungdómsárin okkar frá aldrinum 17 til 20 ára. Þessi tími var mér erfiður a margan hátt. Líklega stór tilfinningaflækja, en ég var þögul, sagði ekki frá, þótti og þykir enn erfitt að treysta fyrir innstu tilfinningum. Þú fannst þetta, veit það að á þessum aldri gerði ég mér ekki eins vel grein fyrir því og þegar ég hugsa um það aftur á bak í tímann.
Þú hafðir bara svo góða nærveru, alltaf kát og brostir og hlóst þessum dillandi hlátri sem ég gat ekki staðist og kom mér alltaf í gott skap. Já, fyrstu minningarnar okkar eru sennilega á kaffi-matstofunni í Útgerðarfélagi Akureyrar (ÚA). Við unnum í fiskinum þá. Það var í nánast öllum kaffi- og matarhléum slegið í spil. Félagsvist, manna eða kana. Ég var nú ekki sterk í þessari spilamennsku en ég var með. Þarna kynntist ég Margrét Ölmu, bestu vinkonu þinni. Þarna vorum við, ég 17 ára og þú að verða 18 ára. Þarna kynntist ég Hófí líka betur. Þó við Hófí hefðum verið saman í barnaskóla frá 7 til 12 ára vorum við ekki orðnar vinkonur, sennilega vegna hvað ég var róleg og feimin.
Ekki dugði okkur að vera bara saman í vinnunni, auðvitað þurftum við að kíkja á rúntinn, eins og það var kallað, niður í miðbæ Akureyrar að kíkja á strákana, hvort við sæjum ekki einhverja álitlega. Rúnturinn á Akureyri var mjög skemmtilegur, að keyra hring eftir hring og kjafta inni í bílum og hitta fólk á rölti. Þegar torgið með grasbalanum var og hét. Þar var gert grín, hlegið og/eða talað um eitthvað í trúnaði. Oft var rúntað fram eftir morgni, jú, það kom oft fyrir að við vorum seinastar af rúntinum, að koma heim kringum klukkan sex eða sjö. Auðvitað var líka fengið sér „gleðivatn“ og þá var leitað uppi hvar við gátum haft partí, hvort það var hjá mér, þér, Möggu eða Hófí. Þessi partí voru mörg, en nokkrar skemmtanir standa upp úr: Þegar við förum í Kjallarann í Sjallanum, þar sem Rúnar Þór var að spila. Við vorum svo skemmtilegar með „gleðivatnið“ um hönd að við náðum nokkrum sinnum að fara í eftirpartí með Rúnari Þór og hljómsveit, sem var á gistiheimili út í bæ.
Já, minningar koma þegar er hugsað um þær. Það sem við gerðum ekki og, jú, það sem við gerðum. Þessar minningar verða ekki allar rifjaðar upp hér. Við gætum skrifað allavega lítinn doðrant sem gæti heitið „Guðný Björg og hennar gengi frá sokkabandsárunum“.
Megi minning þín lifa að eilífu. Ég mun ávallt heiðra hana og um leið þakka þér fyrir góða og trygga eftirfylgni á netinu og mínu Noregsævintýri. Ég veit þú hafðir mjög mikinn áhuga á Noregi, eftir að þú fórst sjálf út sem au-pair fyrir mörgum árum. Megi góður guð varðveita og umvefja Valgeir, börnin þín tvö, Ernu Sigrúnu, Huldar Trausta og móður þína sem er einstök og full af kærleik sem og aðrir nánir ættingjar þínir, vinir og öll þín fjölskylda
Kær kveðja. Þín vinkona frá ungdómsárunum,
Hugrún Árnadóttir.