Afreksmenn Það var skemmtileg stund í Hörpu þegar þeir hittust Friðrik Ólafsson og Vignir Vatnar Stefánsson, elsti og yngsti stórmeistarinn.
Afreksmenn Það var skemmtileg stund í Hörpu þegar þeir hittust Friðrik Ólafsson og Vignir Vatnar Stefánsson, elsti og yngsti stórmeistarinn. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alþjóðaskáksambandið FIDE hefur birt ný alþjóðleg skákstig sem gilda frá og með 1. mars 2025. Það bar helst til tíðinda að Vignir Vatnar Stefánsson stórmeistari (2.551) fór yfir 2.550 stiga múrinn í mánuðinum og er langstigahæstur íslenskra skákmanna

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Alþjóðaskáksambandið FIDE hefur birt ný alþjóðleg skákstig sem gilda frá og með 1. mars 2025.

Það bar helst til tíðinda að Vignir Vatnar Stefánsson stórmeistari (2.551) fór yfir 2.550 stiga múrinn í mánuðinum og er langstigahæstur íslenskra skákmanna. Olga Prudnykova (2.274) er áfram stigahæst skákkvenna.

Vignir Vatnar fór fyrst yfir 2.500 skákstig í apríl 2022 en náði svo síðasta stórmeistaraáfanganum sínum í mars 2023 og var útnefndur stórmeistari síðar sama ár, upplýsir Björn Ívar Karlsson skólastjóri Skákskóla Íslands.

Vignir lækkaði aðeins á stigum næstu mánuðina en setti svo í gírinn aftur og hefur jafnt og þétt hækkað síðastliðið ár eða svo. Hefur hann verið mjög duglegur að tefla á mótum og staðið sig vel.

„Mér skilst að markmiðið hans sé að ná 2.600 stigum árið 2026,“ segir Björn Ívar.

Næstir á eftir Vigni Vatnari á lista FIDE 1. mars eru Hjörvar Steinn Grétarsson (2.494), Héðinn Steingrímsson (2.492), Jóhann Hjartarson (2.463), Henrik Danielsen (2.457) og Helgi Ólafsson (2.452).

Ungir skákmenn virkir

Flestir skákmenn topp 20-listans sem voru virkir í mars lækkuðu að stigum.

Næst á eftir Olgu á lista kvenna eru Lenka Ptácníková (2.114), Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (1.995), Guðlaug Þorsteinsdóttir (1.991) og Hallgerður H. Þorsteinsdóttir (1.988).

Fram kemur á vef Skáksambands Íslands, skak.is, að mikil virkni hafi verið hjá ungum skákmönnum í febrúarmánuði. Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2.374) er enn efstur en Benedikt Briem (2.233) hækkaði um 40 stig í mánuðinum og fór upp fyrir 2.200 stig.

Guðrún Fanney Briem (1.868) fór í víking í mánuðinum og sótti sér 96 stig. Haukur Víðis Leósson (1.811) og Josef Omarsson (2.023) hækkuðu báðir um meira en 70 stig.

Guðrún Fanney hækkaði ekki bara mest heldur tefldi hún líka mest í mánuðinum, en hún náði 16 kappskákum.

Tveir nýir skákmenn koma inn á kappskákstigalistann; Guðmundur Ludvigsson með 1.710 stig og Baldur Thoroddsen með 1.597 stig.

Núverandi stigakerfi, Elo-stigakerfið svokallaða, var hannað af manni sem hét Arpad Elo, og mælir það árangur á mótum. Bandaríska skáksambandið, USCF, fór að nota þetta kerfi árið 1960. FIDE, alþjóðlega skáksambandið, tók þetta svo upp árið 1970. Áður höfðu menn notast við önnur stigakerfi, sem voru ekki talin eins nákvæm og kerfi Elos.

Allir stórmeistarar heims hafa náð 2.500 stigum á einhverjum tímapunkti enda miðast stórmeistaratitillinn við að menn hafi náð a.m.k. 2.500 stigum. Það er skilyrði.

Jóhann Hjartarson hefur farið hæst íslensku stórmeistaranna, náði 2.640 stigum í júlí 2003.

Þegar fyrsti stórmeistari Íslendinga, Friðrik Ólafsson, var upp á sitt besta var FIDE ekki byrjað að reikna út stig skákmanna.

Björn Ívar segir að vefsíðan Chessmetrics.com hafi áætlað að meta megi styrk Friðriks um 2.692 stig árið 1958 þegar hann var talinn vera nr. 13 í heiminum.

„Þetta er byggt á gamalli tölfræði og árangri manna í samanburði við aðra meistara og er að ég held mest til gamans gert. En vissulega var Friðrik í hópi þeirra bestu á þessum tíma,“ segir Björn Ívar.

Hann segir að undanfarin ár hafi verið „verðhjöðnun“ í stigakerfinu og stórmeistarar almennt lækkað að stigum. „Það eru þess vegna nokkur tíðindi að Vignir hafi náð yfir 2.550 stigum.“

Fann upp Ákastigin

Að lokum rifjar Björn Ívar upp að við Íslendingar áttum okkar eigið stigakerfi, Ákastig, en það sagði til um styrkleika íslenskra skákmanna miðað við virkni þeirra á skákmótum innanlands. Áki Pétursson var upphafsmaður kerfisins.

Í skákþætti í Alþýðublaðinu í janúar 1961 birtir umsjónarmaðurinn Ingvar Ásmundsson útreikning sinn yfir 10 sterkustu skákmenn landsins samkvæmt Ákastigunum.

Þar er efstur Ingi R. Jóhannsson með 4.950 stig, en síðan koma Friðrik Ólafsson (4.918), Arinbjörn Guðmundsson (4.598), Guðmundur Pálmason (4.485) og Freysteinn Þorbergsson (4.480). Ingvar sjálfur var í 7. sæti með 4.393 stig.

Ingvar tekur fram að ekki megi taka þessa útreikninga of bókstaflega en þeir gefi vissulega vísbendingu um röð sterkustu skákmanna Íslands.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson