Jón Sigurgeirsson
Jón Sigurgeirsson
Stefnan var innleidd án þess að henni fylgdi fjármagn og stuðningur af hálfu ríkisins, sem nauðsynlegur var.

Jón Sigurgeirsson

Nokkrir starfsmenn Háskóla Íslands hafa ritað grein um skóla án aðgreiningar og færa góð rök fyrir þeirri stefnu.

Þeir ljúka greininni með þessum orðum: „Stjórnvöld þurfa að tryggja sveitarfélögum og skólum á öllum stigum stuðning svo skólar landsins hafi burði til að standa undir hlutverki sínu og veita öllum nemendum viðeigandi menntun.“

Skóli án aðgreiningar virðist virka vel í Finnlandi, sem skorar einna hæst í PISA-könnunum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef leitað uppi er þar víðtækur stuðningur við nemendur sem þess þurfa. Nemendur eru teknir út úr bekknum um stundir til að fá frekari stuðning ef með þarf.

Ég er ekki starfandi skólamaður, en ég hef heyrt og upplifað mörg dæmi um að nemendur fái ekki nauðsynlegan stuðning. Öll þau fögru markmið sem stefnt er að með skólum án aðgreiningar snúast upp í andhverfu sína og skapa herfilega mismunun ef slíkur stuðningur fylgir ekki með. Ég hef til dæmis verið að aðstoða nemendur við heimanám á vegum Rauða krossins. Nemendur sem höfðu annað móðurmál en íslensku fengu lítinn annan stuðning en þann sem Rauði krossinn veitti. Aðstoð einu sinni í viku nægði alls ekki. Þannig búum við til undirstétt fólks af erlendum uppruna.

Ég hef rætt við foreldra barna sem falla ekki að meðalkúrfunni en búa í stærsta sveitarfélagi landsins. Foreldrar einhverfs barns töldu að einhverf börn fengju engan stuðning. Þá hef ég talað við foreldra barna sem halda ekki athygli, en enn skortir skilning og þar af leiðandi er stuðningur enginn. Þetta er þó mismunandi eftir skólum. Einn skólinn leyfði slíku barni að hafa tónlist í eyrunum til að útiloka áreiti frá umhverfinu. Þegar barnið flutti á milli skóla hvarf þessi skilningur, með slæmum afleiðingum.

Það lýsir skipbroti þessarar stefnu að háskólafólkið sem lýsir yfir miklum stuðningi við hana segi að enn skorti á stuðning við nemendur sem þurfa á honum að halda eftir öll þessi ár. Stefnan var innleidd án þess að henni fylgdi fjármagn og stuðningur af hálfu ríkisins, sem nauðsynlegur var. Ég er ekki á móti skólum án aðgreiningar, en ég er á móti þykjustujöfnuði – kerfi sem er verra fyrir þá sem ella væru aðgreindir en ef þeir færu í sérdeildir, eins og blindir höfðu í Álftamýrarskóla.

Það að nemendur séu teknir út úr bekknum til að fá sértækan stuðning í Finnlandi hlýtur að þýða að einhverfir fái þjálfun til að glíma við áreiti daglegs lífs auk stuðnings við nám í greinum sem þeir þurfa á að halda. Sérfræðingar í málefnum barna með skerta athygli veita þjálfun og leiðbeina kennurum um þarfir einstakra barna í samræmi við það sem virkar best fyrir hvert þeirra. Þá þarf að beita mismunandi nálgunum í kennslu eftir virkni barna. Fyrir suma hentar bóknám en aðrir þurfa að upplifa eðlisfræði og stærðfræði með hlutum sem breytast og hreyfast.

Í finnskum skólum er hugað að hreyfiþörf barna á milli kennslustunda. Það hljómar vel. Æska landsins er of verðmæt til að kasta á glæ – hún er framtíðin. Ég tek undir með háskólafólkinu og segi að það sé tímabært að veita þann stuðning við skóla að kerfið nái markmiðum sínum. Annars verður að hugsa upp eitthvað nýtt.

Höfundur er aldraður lögfræðingur.

Höf.: Jón Sigurgeirsson