Þorbjörg Kristinsdóttir fæddist 12. mars 1925 í Tjarnargötu í húsi Þorleifs H. Bjarnasonar rektors. Hún fluttist á þriðja ári á Sólvallagötu 29 í Reykjavík og ólst þar upp. Þorbjörg gekk í Landakotsskóla til 10 ára aldurs en fór þá í Miðbæjarskólann í Reykjavík. Hún tók inntökupróf í Menntaskólann í Reykjavík (MR) þegar hún var 14 ára, ásamt 124 öðrum unglingum. Skólinn tók inn 25 efstu nemendurna og var Þorbjörg ein af þeim, en stúlkurnar í hópnum voru 6.
Þorbjörg segir oft börnum sínum og barnabörnum sögur úr sveitinni, en hún var ætíð í sveit á sumrin sem barn og unglingur, bæði í Mývatnssveit og í Borgarfirði. Sveitardvölin veitti henni gleði og ánægju og var einnig mikil lífsreynsla, sérstaklega vistin í torfbænum og afleysingin á sveitasímstöðinni. Sögurnar eru því bæði fróðlegar og skemmtilegar. Þá eru einnig sagðar sögur af því þegar hún fór ung að aldri reglulega með séra Sigurbirni í Ási á elliheimilið Grund til að lesa fyrir heimilismenn. Hún naut þess ekki síður en heimilismennirnir og segir að það sé mjög þroskandi og fróðlegt fyrir ungt fólk að umgangast eldra fólk. Þá eru sögurnar um fyrstu búskaparárin í Kópavogi skemmtilegar þar sem engin nútímaþægindi voru til staðar, s.s. þvottavél, sími eða sjónvarp. Róið var til fiskjar og farið á árabát í berjamó á Arnarnesið.
Hún lauk stúdentsprófi frá máladeild MR árið 1945 eftir viðburðaríkan tíma í skólanum. Breski herinn yfirtók menntaskólann og þurfti bekkurinn hennar Þorbjargar að flytja, fyrst í Alþingishúsið og síðar í Háskóla Íslands. Eftir stúdentspróf stundaði Þorbjörg nám í ensku og þýsku og lauk prófi í forspjallsvísindum árið 1946 frá HÍ. Samtímis kenndi hún latínu í MR undir leiðsögn föður síns og var hún fyrsta konan sem kenndi bóklegt fag í MR. Hún segir að þetta ár hafi verið henni mjög lærdómsríkt, en erfitt, á meðan hún beið eftir að komast til Bandaríkjanna í latínunám en vegna stríðsloka urðu erlendir námsmenn að bíða í eitt ár eftir að komast í háskólanám þar sem hermenn gengu fyrir í skólavist. Árið 1948 lauk Þorbjörg BA-prófi í latínu, ensku, grísku og uppeldis- og kennslufræði frá University of Michigan í Ann Arbor. Flugferðir voru ekki komnar til sögunnar svo hún þurfi að ferðast með skipi báðar leiðir. Að námi loknu steig hún um borð í Tröllafoss í New York og þar hitti hún Árna, tilvonandi eiginmann sinn. Þau giftu sig 22. janúar 1949.
Haustið 1948 hóf Þorbjörg latínukennslu við MR, þar sem hún kenndi með hléum allt þar til hún hætti vegna aldurs 1995, auk þess sem hún leysti af í Verslunarskóla Íslands og Menntaskólanum við Tjörnina. Í upphafi kennslunnar ætlaði hún að nota nýjar kennsluaðferðir sem hún lærði í Bandaríkjunum. Það gekk ekki eftir vegna kröfu frá skólanum, en hún gat nýtt sér þær nokkrum árum síðar í kennslunni.
Áhugi á fræðslumálum nýttist við stofnun Alfadeildar Delta Kappa Gamma sem var stofnað 1975 í Reykjavík, en það er félag kvenna í fræðslustörfum og var hún forseti um tíma. Fyrstu árin beindi deildin kröftum sínum að því að yfirfara frumvörp til laga um skóla- og menntamál, skrifa umsagnir um þau og senda á Alþingi.
Þorbjörg var einnig stofnandi að Soroptimistaklúbbi Kópavogs og fyrsti formaður hans. Enda féll mikilvægasta markmið Soroptimista, að láta gott af sé leiða og efla vináttu og skilning meðal manna, vel að lífsgildum Þorbjargar. Hún var mjög virkur meðlimur, bæði hérlendis og erlendis, og hefur það krafist mikillar vinnu en gefið mikla gleði og ánægju. Hún var forseti Landssambands Soroptimista 1984-86. Kópavogsklúbburinn hefur frá upphafi beint kröftum sínum að öldruðum og var meðal stofnenda að Sunnuhlíðarsamtökunum. Einnig hefur klúbburinn styrkt ungar stúlkur frá ýmsum löndum til náms, aðallega frá löndum þar sem nám er ekki aðgengilegt stúlkum. Þorbjörg er nú heiðursfélagi í báðum þessum félögum.
Þorbjörg heldur upp á 100 ára afmælið með fjölskyldunni.
Fjölskylda
Eiginmaður Þorbjargar var Árni Sigurjónsson, f. 27.9. 1925, d. 1.10. 2000, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík og yfirmaður Útlendingaeftirlitsins. Þau voru búsett í Kópavogi. Foreldrar Árna voru hjónin Sigurjón Þorvaldur Árnason, f. 3.3. 1897, d. 10.4. 1979, prestur í Vestmannaeyjum og í Hallgrímskirkju í Reykjavík, og Þórunn Kolbeins Eyjólfsdóttir, f. 23.1. 1903, d. 4.4. 1969, húsfreyja að Ofanleiti í Vestmannaeyjum og í Reykjavík.
Börn Þorbjargar og Árna eru 1) Þóra I. Árnadóttir, f. 23.12. 1950, hjúkrunarfræðingur, búsett í Reykjavík. Dóttir: Aðalbjörg f. 1980; 2) Sigurjón Þ. Árnason, f. 16.6. 1952, rafmagnstæknifræðingur og master í opinberri stjórnsýslu. Maki: Bjarnheiður D. Þrastardóttir, f. 20.6. 1955, grunnskólakennari, búsett í Reykjavík. Börn: Sigtryggur Örn, f. 1973, Rúna Björg, f. 1979, Ellen Dögg, f. 1982 og Árni, f. 1991; 3) Kristinn F. Árnason, f. 5.1. 1954, fyrrverandi sendiherra og aðalframkvæmdarstjóri EFTA. Maki: Ásdís Þórarinsdóttir, f. 6.10. 1957, myndlistamaður, búsett í Reykjavík. Börn: Þorbjörg, f. 1983, Stefán Þór, f. 1991 og Magnús Árni, f. 1994; 4) Þórunn K. Árnadóttir, f. 12.3. 1960, sérfræðingur í kjaramálum, búsett í Keflavík. Maki: Óskar H. Friðriksson, f. 29.1. 1958, d. 20.4. 2020, sjómaður. Börn: Árni Grétar, f. 1979, Karólína Björg, f. 1983, Friðrik Guðni, f. 1989, Þórey Jóhanna, f. 1993 og Katrín Ósk, f. 1997; 5) Auður B. Árnadóttir, f. 26.2. 1962, viðskiptafræðingur. Maki: Sigurbjörn Sigurbjörnsson, f. 7.8. 1965, viðskiptafræðingur, búsett í Reykjavík. Börn: Kristinn Páll, f. 1993 og Þorbjörg Anna, f. 1996. Langömmubörn Þorbjargar og Árna eru 26.
Systkini Þorbjargar eru Ármann Kristinsson, f. 21.11. 1926, d. 12.5. 1994, lögfræðingur og dómari; Árni Kristinsson, f. 18.2. 1935, læknir, sérfræðingur í hjartalækningum; Auður Katrín Kristinsdóttir, f. 8.4. 1943, d. 31.1. 1979.
Foreldrar Þorbjargar eru Kristinn Halldór Júlíus Ármannsson, f. 28.9. 1895, d. 12.6. 1966, fæddur á Saxhóli á Snæfellsnesi, rektor við MR og grískukennari við HÍ, og Þóra Árnadóttir, f. 11.6. 1900, d. 23.3. 1986, fædd á Skútustöðum í Mývatnssveit, nuddlæknir frá Kaupmannahöfn. Þau bjuggu á Sólvallagötu 29 í Reykjavík.