Framkvæmdastjóri sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis segir að frekari sameiningar á fjármálamarkaði gætu reynst nauðsynlegar í ljósi þungs regluverks á markaðnum. Hann segir að samkeppnin á sjóðastýringarmarkaðnum sé hörð bæði frá innlendum og erlendum aðilum.
„Svarið við spurningunni hvort sameiningar á fjármálamarkaði þurfi að eiga sér stað er í rauninni bæði já og nei. Það er hægt að nálgast þessa spurningu frá mismunandi sjónarhornum,“ útskýrir hann.
Jón bendir á að stjórnvöld leggi miklar kvaðir á innlend fjármálafyrirtæki sem erlendir keppinautar þurfa ekki að standa undir. Þessar sértæku álögur, ásamt stærðarhagkvæmni erlendra fjármálafyrirtækja, geri íslenskum fyrirtækjum erfitt fyrir í samkeppni.
Hann bendir á að Stefnir starfi á íslenskum sjóðastýringarmarkaði en að samkeppnin komi ekki eingöngu frá innlendum sjóðastýringarfyrirtækjum.
„Í fyrstu mætti ætla að helstu keppinautar okkar væru þau félög sem starfa hér á landi undir sömu reglum, en það er ekki rétt. Samkeppnin kemur í raun ekki síður frá alþjóðlegum aðilum,“ segir Jón og nefnir að samkvæmt gögnum Seðlabankans séu 139 erlendir sjóðir með 1.464 sjóðsdeildir með starfsemi á Íslandi.
Að sögn Jóns hefur þessi þróun valdið því að íslenskir fjárfestar hafa verulegt fjármagn í höndum erlendra sjóðastýringarfyrirtækja.
„Bara einn af stærstu lífeyrissjóðum landsins var með yfir 390 milljarða króna af eignum sínum í erlendum hlutabréfum hjá 10 stærstu erlendu rekstraraðilunum. Þar að auki var hann með um 89 milljarða hjá 10 stærstu sérhæfðu sjóðunum,“ segir hann.
Hann telur að margir geri sér ekki grein fyrir umfangi þeirra viðbótargjalda sem íslensk fjármálafyrirtæki greiða.
„Það er sérstakur skattur á skuldir fjármálafyrirtækja, skattur á laun og viðbótartekjuskattur. Bara skattur á skuldir er 0,376% af skuldum umfram 50 milljarða króna og jafngildir 12-14% af vaxtamun bankanna þriggja,“ segir hann og bætir við að hærri eiginfjár- og lausafjárkröfur geri rekstrarumhverfið enn erfiðara.
Þetta, ásamt samkeppni frá stórum alþjóðlegum sjóðastýringarfélögum sem búa ekki við sömu kvaðir, veldur því að sameiningar eða aukið samstarf milli innlendra fjármálafyrirtækja gætu reynst nauðsynleg. „Ef ekki verða gerðar breytingar á þessu sértæka skattaumhverfi mun það þrýsta á um frekari sameiningar,“ segir Jón.
Forvitnin réði för
Jón Finnbogason hefur starfað í fjármálageiranum í yfir tvo áratugi og býr að víðtækri reynslu af sjóðastýringu, bankaþjónustu og rekstri fjármálafyrirtækja. Hann er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og hóf feril sinn sem verðbréfamiðlari en hefur síðan þá gegnt ýmsum stjórnunarstöðum, meðal annars hjá Kaupþingi, Byr sparisjóði og Arion banka. Árið 2022 tók hann við sem framkvæmdastjóri Stefnis hf., eins stærsta sjóðastýringarfélags landsins.
Jón segir að það hafi verið forvitnin sem leiddi hann inn í fjármálageirann. Á síðustu önninni í laganámi starfaði hann við fasteignasölu og fékk þar innsýn í markaðinn. „Ég seldi hundruð íbúða en fann fljótlega að mér fannst áhugaverðara að skilja hvernig þær voru fjármagnaðar en að selja þær,“ segir hann.
Þegar fjármálafyrirtæki auglýsti eftir verðbréfamiðlara til að selja veðskuldabréf til lífeyrissjóða ákvað hann að sækja um.
„Þetta var beintengt við fasteignamarkaðinn, svo að ég ákvað að slá til,“ útskýrir hann. Starfið fól í sér að selja veðskuldabréf, en með hverjum samningi varð hann forvitnari um hvernig hægt væri að fjármagna stærri útgáfur af slíkum bréfum.
Á þessum tíma var verðbréfamarkaðurinn að vaxa hratt í Bandaríkjunum og Jón sökkti sér í sjálfsnám um efnið. „Ég keypti margar bækur um verðbréfun (e. securitization) og fór að kynna mér hvernig þessi heimur virkaði,“ segir hann.
Einn af viðskiptavinum hans var lífeyrissjóður sem var í stýringu hjá Kaupþingi. Þar tók einn yfirmaður þar eftir því að Jón hafði mikinn áhuga á fjármálum og bauð honum starf í eigin viðskiptum hjá Kaupþingi.
„Þá var ég búinn að kynna mér skuldabréfamarkaðinn vel og byrjaði að eiga viðskipti með ríkisskuldabréf í eigin viðskiptum Kaupþings,“ segir Jón. Hann segir að lögfræðimenntunin hafi komið sér vel í því starfi. „Það var gagnlegt að geta útskýrt flókin hugtök á mannamáli.”
Eftir að hafa unnið í eigin viðskiptum hjá Kaupþingi fór Jón að horfa til nýrra tækifæra innan verðbréfamarkaðarins. „Ég sagði við yfirmann minn að samstarfsfélagi minn væri betri en ég á ríkisskuldabréfamarkaði og einbeitti mér frekar að því að byggja upp nýjar lausnir,“ útskýrir hann. Með því að nýta tengslin við lífeyrissjóði þróuðu þeir nýtt fyrirkomulag þar sem óskráð skuldabréf voru keypt af lífeyrissjóðum og skráð í Kauphöll.
„Það var jákvætt skref í átt að þróaðri skuldabréfamarkaði,“ segir hann.
Spurður hver hafi verið mesta áskorunin á ferlinum segir Jón að fyrstu árin eftir hrun hafi verið erfið. Á þeim tíma starfaði hann sem sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs.
„Að glíma við fjárhagslega endurskipulagningu hjá Byr sparisjóði á árunum 2009 til 2010 var krefjandi. Verkefnið held ég að hafi reynt mjög á alla þá fjölmörgu starfsmenn sem komu að þeirri vinnu. Samningaviðræður við erlenda lánveitendur reyndu á. Sparisjóðurinn byggði hins vegar á góðum grunni með mikinn fjölda viðskiptavina sem báru mikið traust til sparisjóðsins og starfsfólks hans. Viðskiptasambönd sem byggðu á áratuga sögu. Það var á þeim grunni sem það tókst að ljúka söluferli með sameiningu við Íslandsbanka, sem ég held að hafi verið mjög farsæl lausn fyrir alla sem að því komu,“ segir Jón.
Vilja vera á undan þróuninni
Jón segir að Stefni hafi gengið vel á undanförnum árum. „Við höfum séð góðan vöxt í starfsemi félagsins og innlendi hlutabréfamarkaðurinn hefur tekið vel við sér þrátt fyrir tímabundnar lækkanir undanfarið,“ segir hann.
Hann bendir á að erlendir markaðir hafi verið mjög sterkir og að skuldabréf hafi staðið sig vel. „Rekstur Stefnis hefur fylgt áætlunum okkar og meira til. Við höfum lagt mikla áherslu á vöruþróun og árangurinn af því verður enn sýnilegri á næstu misserum,“ útskýrir hann.
Hann nefnir að mikil aukning hafi orðið í eignum í stýringu hjá félaginu. „Við höfum nú 336 milljarða króna í stýringu, sem er aukning um 89 milljarða á árinu 2024, eða 35% vöxtur á einu ári,“ segir hann.
Ný verkefni hafa einnig skilað góðum árangri. „Við höfum nýlega lokið fjármögnun á 7 milljarða króna fyrirtækjaskuldabréfasjóði, SÍL 3. Þá fékk sjóðurinn ST1 einnig 7 milljarða í nýtt fjármagn á árinu 2024 og skilað hann 11% ávöxtun á fyrirtækjalánum sínum á því ári,“ segir hann.
Einnig hefur Stefnir stofnað tvo sjóði sem hafa gefið út höfuðstólstryggð skuldabréf fyrir 60 milljónir Bandaríkjadala. „Ávöxtun þeirra fer eftir þróun erlendra hlutabréfavísitalna, sem hefur vakið mikla athygli meðal fjárfesta,“ útskýrir Jón.
Á sviði framtaksfjárfestinga hefur einnig verið mikið um að vera. „Við gengum nýlega frá kaupum á mjólkurvinnslunni Örnu í Bolungarvík í gegnum SÍA IV framtakssjóðinn okkar. Það er félag sem landsmenn þekkja vel, enda hefur það vaxið hratt undanfarin ár,“ segir hann. Hann nefnir einnig kaup sama sjóðs á meirihluta í ISNIC hf. sem hefur séð um skráningu íslenska lénsins .is frá 1988. „Þá erum við þessa dagana að undirbúa fimmta sjóðinn í framtaksfjárfestingaseríunni okkar sem hefur gengið mjög vel fram að þessu og skilað fjárfestum góðri ávöxtun,“ bætir hann við.
Jón útskýrir að Stefnir hafi verið í miklum umbreytingum síðustu ár. „Þess vegna höfum við lagt meiri áherslu á nýja eignaflokka, aukið greiningarstarf og nýtt tæknilausnir til að bæta sjóðastýringu okkar,“ segir hann.
Síðastliðið haust kynnti Stefnir skipulagsbreytingar sem meðal annars fólu í sér sameiningar á deildum fyrirtækisins og fækkun forstöðumanna.
Hann segir að nýtt skipulag Stefnis hafi gengið vel. „Í stað þess að hver sjóðstjóri einbeiti sér aðeins að sínum eignaflokki höfum við innleitt nýtt kerfi þar sem sjóðstjórar með mismunandi sérþekkingu vinna saman og taka sameiginlegar ákvarðanir um fjárfestingar,“ útskýrir hann.
Hann segir að þessar breytingar hafi þegar sýnt sig í bættri ávöxtun sjóða Stefnis. „Við sjáum nú að blandaðir sjóðir okkar hafa styrkt sig í samanburði við samkeppnissjóði. Sérstaklega má nefna Stefnir – Samval, sem er vinsælasti sjóðurinn okkar og hefur nú styrkt stöðu sína á markaðnum. Með nýju skipulagi hefur staða hans gjörbreyst þegar ávöxtun hans er borin saman við samkeppnissjóði,“ segir Jón.
Þegar litið er til framtíðar segist hann opinn fyrir frekari breytingum. „Við erum stöðugt að skoða leiðir til að bæta starfsemi okkar. Tíminn mun leiða í ljós hvort og hvenær frekari skipulagsbreytingar verða gerðar en við erum með mörg spennandi verkefni í vinnslu sem geta styrkt bæði sjóðina okkar og samkeppnishæfni Stefnis til lengri tíma litið.“
Stefnir stendur frammi fyrir svipuðum áskorunum og áður þegar kemur að stýringu fjármuna – rétt greining á aðstæðum skiptir sköpum. Jón bendir á að þó að umræðan um fjárfestingarumhverfi á Íslandi beinist oft að áskorunum sé mikilvægt að horfa til þeirra miklu framfara sem hafi átt sér stað í samfélaginu á síðustu 100 árum. Hann bendir á að ekki sé langt síðan sjómennska fór fram í opnum róðrarbátum og vinnsla sjávarafurða var handunnin. Þær tækniframfarir sem hafa átt sér stað síðan hafa skilað samfélaginu ótrúlegum framförum.
Hins vegar hefur óvissa á alþjóðavettvangi áhrif á fjármálamarkaði. Hann nefnir að þróunin í stjórnmálum, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem Donald Trump hefur verið að beita sér á ófyrirsjáanlegan hátt, geti haft áhrif á efnahagsumhverfið. „Við vitum ekki enn hvert þessi þróun mun leiða okkur en ljóst er að alþjóðlega sviðsmyndin er að taka breytingum og það er mikilvægt að vera á varðbergi,“ segir hann.
Stefnir fylgist einnig grannt með þróun gervigreindar og stafrænna lausna og hvernig þær geta nýst í starfseminni. Jón segir að mikið sé talað um gervigreind þessa dagana og allir vilji beisla krafta hennar, en að fáir viti nákvæmlega hvernig eigi að gera það á árangursríkan hátt. „Við nýtum afmarkaða þætti hennar í forritun, textaskrif og til stuðnings greiningarvinnu, en höfum varann á. Það er mikilvægt að draga ekki of miklar ályktanir af niðurstöðum hennar, þar sem verkfærið er enn að þróast,“ útskýrir hann. Hann telur þó að gervigreind hafi þegar sannað gildi sitt.
Aukin áhersla á tækni vekur oft spurningar um áhrif hennar á störf í fjármálageiranum. Jón telur að tæknin gefi starfsfólki meira svigrúm til að einbeita sér að virðisskapandi verkefnum í stað þess að vera upptekið af endurteknum ferlum. „Tæknin er verkfæri sem við notum til að vinna hraðar og betur. Við leggjum þó mikla áherslu á gagnrýna hugsun og opin skoðanaskipti milli starfsfólks,“ segir hann.
Fækkun starfsfólks í geiranum muni halda áfram
Spurður hvort of margir starfi í fjármálageiranum í ljósi hraðrar tækniþróunar segir Jón að starfsfólki í fjármálafyrirtækjum hafi fækkað mikið á undanförnum árum og að sú þróun muni líklega halda áfram. „Við teljum hins vegar að fjöldi starfsfólks sé í eðlilegu hlutfalli við þau verkefni sem eru unnin og þær skyldur sem hvíla á félögunum. Fjármálageirinn er í stöðugri þróun og því eru umbætur í rekstri hluti af daglegum verkefnum,“ útskýrir hann.
Stefnir heldur áfram að þróa starfsemi sína í takt við breytt umhverfi og ný tækifæri á fjármálamarkaði. Með því að fylgjast náið með þróun á alþjóðavísu, nýta tæknilausnir á skynsamlegan hátt og viðhalda sterku teymi sérfræðinga hyggst félagið styrkja stöðu sína enn frekar á komandi árum.
UFS-þættir áhættudreifingartól
Stefnir hefur um nokkurt skeið lagt áherslu á að þau félög sem sjóðirnir fjárfesta í uppfylli skilyrði um UFS-þætti. Nú er það svo að umræðan um UFS-þætti hefur snúist og mörg þekkt fjármálafyrirtæki í heiminum hafa fallið frá þeirri stefnu. Hvernig horfir það við ykkur hjá Stefni?
„Ég hugsa nú að það sé ofsagt að hún hafi snúist. Umræðan hefur þroskast og fleiri koma nú að málum sem snúa að sjálfbærni, sem endurspeglast í fjölbreyttari skoðunum um þau málefni. Mat fjárfestingarkosta og ígrunduð ákvarðanataka byggð á áhættumiðaðri nálgun er nokkuð sem við höfum ávallt stundað hjá Stefni. Að innleiða aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga var okkur frekar auðvelt verkefni og ákvörðunin um að vera leiðandi í þeirri umræðu dýpkaði skilning okkar á þeim málefnum sem í daglegu tali eru oft nefnd UFS. Við erum um þessar mundir að huga að frekari sjálfvirknivæðingu hvað þessi mál varðar. Viðskiptavinir okkar og þá sérstaklega stofnanafjárfestar fara núna fram á ítarlegar upplýsingar á þessu sviði og er okkur ljúft og skylt að verða við því. Það styrkir okkur einnig í vöruþróun að skilja hvar áherslur viðskiptavina okkar liggja þegar kemur að UFS-málum. Sjálfbærni er orðin hluti af fjárfestingarákvörðunum og horfum við sérstaklega til þeirra tækifæra sem geta skapast á því sviði í þeim fjárfestingum þar sem við höfum áhrif,“ segir Jón.
Spurður hvort honum finnist að sjóður eigi að líta framhjá fjárfestingartækifæri ef það samræmist ekki UFS-sjónarmiðum segir Jón að allar ákvarðanir er varða fjárfestingartækifæri sjóðanna þurfi að vera vel rökstuddar.
„Nú er það sem betur fer svo að ótal fjárfestingartækifæri standa sjóðum til boða sem þarf svo að meta út frá fjölmörgum þáttum. Að hafna fjárfestingartækifæri vegna UFS-sjónarmiða eingöngu þarf að vera vel rökstutt, en þegar áskoranir blasa við á sviði UFS-mála eru þar líka tækifæri. Það verður ekki sagt að þeir sjóðir okkar sem eru með sérstaka áherslu á UFS-mál sýni lakari árangur en aðrir fjárfestingarkostir. Þetta eru frábær tól til áhættudreifingar og það sést líka núna þegar heimsmyndin er að breytast að mögulega felast tækifæri í sjálfbærni og sterkum stjórnarháttum félaga,” segir Jón.
Bjartsýnn á markaði
Spurður hvort hann sé bjartsýnn á þróunina á mörkuðum næstu misserin segir Jón að íslenskt atvinnulíf hafi staðið frammi fyrir miklum áskorunum vegna hás vaxtastigs, sem hafi haft þung áhrif. „Seðlabankinn hefur verið einn á bremsunni á meðan skuldir ríkissjóðs hafa aukist töluvert,“ segir hann og bendir á að hreinar skuldir ríkissjóðs hafi vaxið um 162 milljarða króna á árinu 2024, eða 237 milljarða króna þegar skuldir frá 2023 eru teknar með í reikninginn. „Hið opinbera hefur því gert lítið til að draga úr verðbólguþrýstingi,“ bætir hann við.
Hann telur þó að von sé á breytingum. „Ný ríkisstjórn hefur lýst yfir ásetningi sínum um að ná fram stöðugleika í efnahagslífinu og stuðla að lækkun vaxta með skynsamlegri fjármálastjórn. Við bindum miklar vonir við að það gangi eftir,“ segir hann.
Þegar kemur að hlutabréfamarkaðnum er Jón bjartsýnn. „Drunga síðustu ára virðist vera að létta, og nú glittir í sól,“ segir hann. Hann bendir á að markaðurinn hafi tekið við sér í lok síðasta árs, sem sýni að eftirspurnarhliðin sé sterk. „Samkvæmt tölum Seðlabankans eru um 1.700 milljarðar króna í innlánum heimila í landinu og það er líklegt að hluti af þessu fé muni færast yfir á verðbréfamarkaði,“ útskýrir hann.
Hann telur að þessi þróun gæti leitt til aukinnar virkni á markaði, hærri veltu í kauphöllinni og hækkandi verðmætis eigna. „Nokkur félög eru einnig að íhuga skráningu eða útboð, sem gæti aukið fjölbreytni í kauphöllinni,“ segir hann og nefnir sérstaklega sölu á hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka sem eitt þeirra verkefna sem muni hafa áhrif.
Jón leggur áherslu á að aukin fjölbreytni í Kauphöll Íslands sé lykilatriði. „Ef við náum að laða fleiri erlenda fjárfesta að íslenskum markaði mun það styrkja bæði markaðinn og íslenskt atvinnulíf til lengri tíma litið,“ segir hann.
Jón segir að íslenski markaðurinn hafi verið í miklum vaxtarfasa á undanförnum árum. „Við sjáum mikla þróun í skráðum félögum – árið 2010 voru aðeins 11 félög skráð á markað hérlendis, en nú, einum og hálfum áratug síðar, eru þau orðin 33,“ segir hann.
Hann bendir á að íslenskur markaður hafi aldrei verið fjölbreyttari. „Við höfum nú átta skráð félög þar sem markaðsverðið er rúmlega 100 milljarðar króna,“ útskýrir hann og bætir við að þessi þróun sé mikil breyting frá því þegar sjávarútvegur og landbúnaður voru meginatvinnuvegir landsins. „Í dag er Ísland miðstöð hátækniþróunar og hugverkaiðnaðar. Við sjáum bæði stóriðju og nýsköpun vaxa hratt, og íslenskir frumkvöðlar hafa skapað vörur og þjónustu sem er eftirspurn eftir um allan heim,“ segir hann.
Hann leggur þó áherslu á að það megi ekki gleyma því sem Ísland hefur löngum staðið sig vel í. „Við höfum verið í fararbroddi í sjávarútvegi og íslensk fyrirtæki hafa náð gríðarlegum árangri í þróun veiða og vinnslu. Þessi geiri hefur skilað miklum verðmætum og gert okkur að einni fremstu fiskveiðiþjóð heims,“ segir hann.
Jón telur því að fjárfestingartækifæri sé að finna í mörgum mismunandi geirum. „Hvort sem það er nýsköpun, hátækniiðnaður eða hefðbundnari atvinnuvegir er fjárfesting í íslensku atvinnulífi og uppbyggingu alltaf gulls ígildi,“ segir hann.
Að mati Jóns hefur tæknivæðing gjörbreytt sjóðastýringu og aðgengi fjárfesta að fjárfestingarkostum. „Við sjáum nú að fjárfestar hafa betri aðgang að sjóðum og öðrum fjárfestingarmöguleikum en nokkru sinni fyrr,“ segir hann.
Hann bendir á að fjárfestar séu að verða sífellt upplýstari og taki meðvitaðri ákvarðanir um fjárfestingarkosti sína. „Þróunin hefur verið í átt að aukinni skilvirkni og betri yfirsýn, sem hefur gert notendaviðmót sjóðastýringarþjónustu mun þægilegri,“ útskýrir hann.
Hann telur að Stefnir hafi verið í fararbroddi í þessum málum. „Við höfum lagt mikla áherslu á að gera aðgengi að sjóðum okkar einfaldara og veita nákvæmar og skýrar upplýsingar fyrir fjárfesta,“ segir hann.
Þá nefnir hann einnig mikilvægi fjártæknilausna í þessari þróun. „Arion banki hefur verið leiðandi í innleiðingu nýrra fjártæknilausna sem stuðla að betri sjóðastýringu, og við hjá Stefni höfum nýtt okkur þessa tækni til að bæta þjónustu okkar,“ segir hann að lokum.
Skuldabréfamarkaðurinn áhugaverðari
Jón segir að honum hafi alltaf þótt skuldabréfamarkaðurinn áhugaverðari en hlutabréfamarkaðurinn. Hann útskýrir að það sé vegna þess að hann sé flóknari og snerti fleiri kima samfélagsins.
Spurður hver hann telji að þróunin verði á skuldabréfum á árinu svarar Jón að hann telji aðstæður á næstu misserum verða hagstæðar.
„Seðlabanki Íslands hefur nú lækkað stýrivexti um samtals 1,25% á síðustu 3 fundum, en frá því að stýrivextir byrjuðu að lækka hefur ávöxtunarkrafan á lengri ríkisskuldabréfum hækkað um 0,4%. Það bendir til þess að markaðsaðilar hafi búist við enn hraðari lækkun vaxta en raun ber vitni. Hins vegar teljum við hjá Stefni að aðstæður á skuldabréfamarkaði séu hagstæðar nú þegar vaxtalækkunarferli Seðlabankans er komið vel af stað og ávöxtunarkröfur á skuldabréfamarkaði eru enn á álitlegum gildum,“ segir Jón.