Póstdreifing Dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að danski pósturinn hætti að bera út bréf. Önnur sjónarmið eru í Noregi. Íslandspóstur bíður átekta.
Póstdreifing Dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að danski pósturinn hætti að bera út bréf. Önnur sjónarmið eru í Noregi. Íslandspóstur bíður átekta. — Morgunblaðið/Hari
„Það eru aðrar aðstæður í Danmörku þar sem þéttleiki byggðar er mun meiri þar en hér á landi og þeir telja að samkeppnin þar muni grípa þetta,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir forstjóri Íslandspósts um þá ákvörðun danskra stjórnvalda að danski pósturinn hætti að bera út bréf

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Það eru aðrar aðstæður í Danmörku þar sem þéttleiki byggðar er mun meiri þar en hér á landi og þeir telja að samkeppnin þar muni grípa þetta,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir forstjóri Íslandspósts um þá ákvörðun danskra stjórnvalda að danski pósturinn hætti að bera út bréf.

Hún segir að í Danmörku sé talið að póstburðarmarkaðurinn geti tekið yfir þjónustu ríkisfyrirtækisins.

„Þetta er pólitísk ákvörðun og það stendur til að setja allt í útboð en þetta er ekki alveg einfalt því ef samið er við fjóra aðila um dreifingu í sömu húsin þá næst ekki sá sparnaður út úr kerfinu sem stefnt var að. Þetta er ekki alveg klippt og skorið og póstheimurinn horfir til þess hvernig til tekst.“

Norðmenn fara aðra leið

Þórhildur segir að þróunin í Noregi sé áhugaverð og hún horfi frekar til þess sem þeir eru að gera, þar sem þéttleiki byggðar þar sé sambærilegur og á Íslandi.

„Í Noregi eru engin áform um að fara sömu leið og Danir en þeir eru að gera breytingar á póstþjónustunni í dreifbýli þar sem gert er ráð fyrir því að fólk sæki póstinn á ákveðna þjónustustaði. Þeir hafa breytt sinni þjónustu frá því að dreifa bréfum fimm daga vikunnar í annan hvern dag og þar er nú unnið eftir þriggja ára plani, hvernig þeir sjá fyrir sér póstþjónustu þróast næstu árin. Norski pósturinn vinnur þetta í samráði við ráðuneytið.“

Pósturinn opinbert hlutafélag

Íslandspóstur er opinbert hlutafélag og 92% af tekjunum eru markaðsdrifnar tekjur frá viðskiptavinum póstsins. 8% af tekjunum eru styrkur frá ríkinu vegna dreifbýlis. Íslenska ríkið getur tekið ákvörðun um að selja fyrirtækið og gera samning um þjónustuna.

Þórhildur var spurð um hlutdeild póstsins á íslenskum markaði.

„Það er óljóst en það er litið á okkur sem markaðsráðandi fyrirtæki. Það er enginn sem heldur utan um magnið þannig að við vitum ekki nákvæmlega okkar markaðshlutdeild. Við teljum okkur vera frekar lítil á höfuðborgarsvæðinu í skráðum sendingum, en það er ekki vitað. Ég hef hvatt eftirlitsaðilann til þess að búa til skráningarkerfi þannig að fyrirtækin sjái hvert sína markaðshlutdeild.“

Hún segir að í Svíþjóð sé haldið utan um slíka skráningu og þar sé skylt að senda magnupplýsingar um sendingar sem eru undir 10 kílóum til innviðaráðuneytisins þar í landi. Með því móti geti hvert fyrirtæki fyrir sig séð sína markaðshlutdeild án þess að vita hver hlutdeild keppinautanna er.

Lagaumhverfið mismunar

Þórhildur segir að ef sending frá Kína komi í gegnum póstinn sé hún meðhöndluð samkvæmt póstlögum. Komi sama sending með Samskip eða Eimskip þá fari það eftir flutningalögum.

„Mismunurinn liggur í því að pósturinn greiðir til eftirlitsaðilans en ekki keppinautarnir. Þetta er eitt af því sem þarf að samræma og það er fullt af tækifærum á þessum markaði. Það hefur hjálpað okkur að fá samkeppni til að standa okkur betur gagnvart okkar viðskiptavinum. Við höfum þurft að taka til í okkar ranni og sinna betur okkar málum.“

Sjö milljarðar í veltu á ári

Velta Íslandspósts er sjö milljarðar á ári og undanfarin fimm ár hefur niðurstaðan verið jákvæð.

„Við erum að þróast úr því að vera bréfafyrirtæki í pakkafyrirtæki. Þegar verið er að tala um þessi bréf, þá má ekki gleyma því að við erum ekki bara með innlend bréf. Við rekum samninga ríkisins við erlendar póststjórnir og erum með talsvert magn af erlendum bréfum líka. Ég vona að það verði farin svipuð leið á Íslandi og í Noregi. Það liggur ekki fyrir hver afstaða nýs Alþingis er og á meðan högum við seglum eftir vindi,“ segir Þórhildur Ólöf.

Höf.: Óskar Bergsson